05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1555 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Þar sem ég er samflm. hv. 4. þm. Reykn. að þessum till. sem fengið hafa nú svona misjafnar undirtektir hér og ekki taldar bera vott um reglulega skemmtilegt hugarfar eða mikla yfirsýn yfir málin, þá hef ég hug á því að koma fram mínum sjónarmiðum við þessa umr., en það skal ekki þurfa að gerast í löngu máli.

Ég vil fyrst út af því, sem hæstv. fjmrh. sagði um brtt. okkar á þskj. 589, þar sem talað er um merkingar á vindlingum, að það sé ekki á réttum stað, eigi ekki heima í frv., þá finnst mér það tæpast eiga við, þar sem brtt. er einmitt flutt við 7. gr., en 7. gr. fjallar nánar tiltekið um það og það eitt, hvernig vörur, sem þessi einkasala selur, skuli merktar. Og ég kem ekki í fljótu bili a.m.k. auga á það, hvar slík ákvæði ættu heima, ef það er ekki þarna.

Ég tek alveg undir það, sem hv. 4. þm. Reykn. sagði um það, að þó að þessi þáltill., sem flutt er í Sþ., sé vafalaust góðra gjalda verð og það megi einhvern tíma í framtíðinni vænta þess, að gott geti af þeim ráðstöfunum leitt, sem þar er að finna, þá get ég ekki með nokkru móti séð, að það spilli fyrir framgangi hennar, þó að einn hluti hennar sé tekinn nú þegar og samþykktur. Það kem ég ekki auga á, að geti á nokkurn hátt dregið úr því, að þessi þáltill. nái fram að ganga og hafi heppileg áhrif, en það er einmitt 4. kafli till., sem fjallar um það, að viðvörunarmerki um t.d. áhrif sígarettureykinga verði límd á hvern sígarettupakka, svoleiðis að þessi mótbára finnst mér léttvæg.

Um álagningarákvörðunina má vel vera, að það megi orða það einhvern veginn þannig, að mönnum falli það betur í geð, og hv. 1. flm. er nú þegar búinn að bjóðast til þess að taka þetta til yfirvegunar milli umr. og hefur hann fullt umboð mitt a.m.k. til þess að lofa þeirri endurskoðun. Ég get þó ekki með nokkru móti séð annað en Alþ. hafi fullan rétt til þess að leggja sínar línur í því, hvernig verðhlutfallið milli sígarettna og smávindla skuli vera og í orðalagi okkar er einmitt sagt, að það skuli vera því sem næst 3:1. Það er nú ekki fastar að orði kveðið en það, og þetta finnst mér hljóti að vera framkvæmanlegt hjá Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins, þ.e.a.s. ef menn vilja það. Það má þá, ef allt um þrýtur, taka meðalverð á öllum smávindlum annars vegar og öllum sígarettum hins vegar og leggja það til grundvallar. Annars hélt ég, að álagningin þarna væri ekki svo hárfín, að það mætti ekki hnika til einstakri prósentu, ef því væri að skipta. Þetta finnst mér nú ekki vera mikilvægar mótbárur og satt að segja þvert á móti mjög léttvægar.

Það hafa komið fram raddir um það, að við höfum sýnt nokkurs konar hræsni með því að taka tóbakið fyrir, en láta áfengið vera. Ég vil nú mótmæla því fyrir mitt leyti og til skýringar á því, að hér er einungis fjallað um tóbak, vil ég í fyrsta lagi segja það, eins og hér hefur komið fram, að sérstök lög eru um áfengismeðferðina og þeir, sem hafa hug á því að koma á framfæri lagfæringu þar, hafa einmitt tækifæri til þess núna, þar sem lögin eru hér til meðferðar. Og þó að við hefðum viljað líma miða á áfengisflöskur, þá hefðum við líklega sett það í það frv.; án þess að ég þó fullyrði um það, nema það hefði getað átt heima hér. En það, sem veldur því, að hér er tekið tóbakið fyrir, er frá mínum sjónarhóli það, að það hagar öðru vísi til með tóbak heldur en áfengi. Og það er vegna þess, að ég trúi því, sem læknar hafa haldið fram og með vaxandi þunga, að sígarettur séu skaðlegasta tegund tóbaks. Um það þarf víst ekki að leiða mörg vitni, en í þáltill. á þskj. 621 er t.d. birt útvarpserindi, sem Hrafnkell Helgason yfirlæknir á Vífilsstöðum hélt ekki alls fyrir löngu, þar sem hann leiðir rök að því, að sígarettureykingar séu skaðlegastar. Jafnframt hefur hann látið þá skoðun í ljós, að vindlareykingar og pípureykingar séu tiltölulega skaðlitlar, a.m.k. miklu heilsusamlegri, ef svo mætti segja, heldur en sígarettureykingar. Þess vegna er það frá mínu sjónarmiði mjög auðvelt að gera það upp við sig um sígarettur, að það skuli merkja þær sérstaklega sem óholla og eitraða vöru. Það má vel vera, að það sé samhljóða álit allra, að allt áfengi sé skaðvaldur og það ætti þá að merkja allt áfengi sem eitur. Ég veit, að það eru ýmsir, sem hafa þessa skoðun, og kannske er þetta alveg rétt. En ég þekki ekki muninn á því, hvaða áfengi er óhollast. Ef ég vissi það, væri ég alveg til með að flytja hér brtt. við þetta frv., þar sem við segðum, að einhver tiltekin áfengistegund, sem við tryðum, að væri óhollust, skyldi merkt með tilsvarandi áletrun eins og við erum hér að leggja til um sígarettur. En þetta bara veit ég ekki og ég er ekki viss um, að það sé neinn hér inni, sem veit það með nokkurri vissu. Og þangað til er ég a.m.k. ekki tilbúinn til þess að flytja till. um það að taka upp merkingar á áfengi. En fyrstur manna skal ég verða til þess að verða meðflm. slíkrar till., þegar búið er að sannfæra mig um það, að ein tegund áfengis sé óhollari en önnur og það svo miklu, eins og nú er búið að sannfæra mig um það, að sígaretturnar séu langóhollasta tegundin af tóbaki, sem um er að tefla.

Ég bendi svona á það rétt í framhjáhlaupi til þess að afsaka það, að ég skuli vera meðflm. að brtt. um tóbak, að ég hef á þessu þingi flutt till. um það að stórhækka framlögin til gæzluvistarsjóðs af áfengissölunni, þannig að ég fyrir mitt leyti tel mig geta svarað því, að ég hafi ekki alveg gleymt því, að áfengi geti verið skaðvaldur og það þurfi að gera ráðstafanir til þess að bera í bætaflákana fyrir þá skaða, sem af því leiðir.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég vonast til þess, að hv. d. geti verið okkur sammála um það, að það sé ástæða til þess að reyna að bægja sígarettureykingum frá nú, þegar það liggur fyrir, að ég vil segja vísindalega sannað, að þær séu svo skaðlegar sem raun er á og mér finnst hér, að auðveldasta og áhrifamesta leiðin til þess að koma þeirri breytingu í framkvæmd sé að samþykkja brtt. okkar, þ.e. 2. tölul. á þskj. 589, um að umbúðir um vindlinga skuli á áberandi hátt merktar með eftirfarandi áletrun, eins og þar segir, og við munum síður en svo koma í veg fyrir það, að hin ágæta þáltill., sem 4 merkir þm. í Nd. standa að, geti náð fram að ganga á sínum tíma.