17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 190 í B-deild Alþingistíðinda. (167)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það getur verið mjög stutt aths., en ég hef þann sið að leiðrétta villurnar jafnóðum og þær koma fram, svo að þær fyrnist ekki og ég þurfi ekki að safna miklu í sarpinn. En enn verð ég að segja, að mig undrar á því, hvað hv. þm. er fáfróður um þau mál, sem verið er að tala um, og endurtekur hvað eftir annað í hverri ræðunni á fætur annarri algjörlega staðlausa stafi. Það, sem ég sagði í minni ræðu áðan - og það getur hann auðvitað gengið úr skugga um, þegar ræðan verður lögð fram fjölrituð á lestrarsal Alþ. — var það, að ríkissjóður og menntmrn. hefðu tilkynnt öllum skólahéruðum á landinu, að þau mundu standa við sínar skuldbindingar lögum samkv. um greiðslu rekstrarkostnaðar við framkvæmd skyldustigsins, sem er auðvitað allt annað en hlutdeild ríkisins í byggingu nýrra skólahúsa. Þetta sagði ég alveg skýrt og greinilega, og við þetta hefur verið staðið í hverju einasta tilfelli, sem sveitarfélagið hefur óskað eftir því að lengja skólaskyldu frá því, sem áður var, þá á ríkið að greiða meginhluta kostnaðarins af aukningunni eftir nýju lögunum, allan kennslukostnað, bókstaflega allan. Við þetta hefur verið staðið í hverju einasta tilfelli. Svo hér hef ég ekkert að leiðrétta. Þetta bara sýnir fáfræði hv. þm. enn um gildandi skólakostnaðarlög, eins og þau hafa verið í marga áratugi, og auk þess, að hann kann ekki að hlusta á ræður manna hér, hann tekur rangt eftir hvað eftir annað. Nú, það er náttúrlega algjörlega ástæðulaust að láta bjóða sér það svona trekk í trekk.

Hitt er auðvitað alveg vitað, að ríkið hefur ekki getað sinnt öllum beiðnum, sem fram hafa komið, um óskir um nýjar skólabyggingar. En ég þekki ekkert dæmi þess, að komið hafi beiðni frá sveitarfélagi um lengingu á framkvæmd skólaskyldu, sem víða var mjög ábótavant, án þess að tekizt hafi með sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélagsins að sjá fyrir húsnæði, venjulega bráðabirgðahúsnæði, mjög oft bráðabirgðahúsnæði. En það hefur tekizt í öllum tilfellum. Það hefur engin beiðni komið til menntmrn., síðan þetta dreifibréf var gefið út fyrir 2 eða 3 árum, um lengingu skólaskyldu, svo að henni hafi ekki verið hrundið í framkvæmd. Þess vegna eru öll svigurmæli hv. þm. um þetta byggð á ekki aðeins á algjörri fáfræði, heldur á því, að hann hlustar illa. Og það ber nú enn vott um hundavaðsháttinn í málflutningnum, að hv. þm. talar um það, hvað hefði orðið — ja, satt að segja, mönnum þykir kannske ég vera óvenjulega hvassyrtur í þessum umræðum, og það er alveg eðlilegt, en sannleikurinn er sá, að einhvern tímann þreytist maður á framsóknarmönnum hérna í þessari deild. Það kemur að því, að jafnvei þolinmóðustu menn missa gjörsamlega þolinmæðina á málflutningnum og hundavaðshættinum og skilningsleysinu, sem þessir menn sýna af sér hér.

Og nú skal ég færa þessum orðum mínum stað. Hv þm. talaði í fleiri en einni setningu um það, að sett hefðu verið lög um menntaskóla á Ísafirði, sett hefðu verið lög um menntaskóla á Ísafirði. Hvar væru framlög ríkisins til þess að byggja menntaskóla á Ísafirði? Hvað er þetta eiginlega? Er ekki hv. þm. fulltrúi fyrir Vestf.? Er þessi maður virkilega í þeirri trú, að það hafi verið sett lög um byggingu menntaskóla á Ísafirði? (SE: Ég sagði „í lög um menntaskólann á Ísafirði“.) Nei, ja við skulum bera það saman á eftir á lestrarsalnum. Þm. talaði um lög um menntaskóla á Ísafirði. Það, sem Alþ. hefur ákveðið um það, eru nokkrar fjárveitingar, ein millj. og tæpl. ein millj. Mundi þm. byggja menntaskóla á Ísafirði fyrir — ja, e.t.v. 3 til 4 millj. kr.? Mundi hann gera það? Mér sýnist hans ræðumennska hér ekki bera vott um, að hann gæti gert kraftaverk. Það er síður en svo. Sannleikurinn um menntaskólamálið á Ísafirði er sá, að það er kominn yfir áratugur síðan að menntmrn. heimilaði menntaskóladeild á Ísafirði í gagnfræðaskólanum þar, heimilaði gagnfræðaskólanum á Ísafirði að reka 3. bekk menntaskóla gegn því skilyrði, að í deildinni væri ákveðinn fjöldi nemenda, 15 nemendur á ári, og að gagnfræðaskólinn semdi við annan menntaskóla um að annast prófin, sem skyldu fara fram á Ísafirði. Þetta hefur verið í gildi allan tímann síðan, þó að gagnfræðaskólinn hafi nær aldrei fullnægt settum skilyrðum. Nemendur hafa venjulega verið færri, en skilyrði menntmrn. hafa verið um 15 nemendur, og eru þó alls ekki óeðlileg. Engu að síður hefur þó Ísfirðingum verið sýnd sú velvild að fá að halda áfram að reka þessa menntaskóladeild á Ísafirði. Það er starfandi 3. bekkur menntaskóla á Ísafirði og hefur verið í rúman áratug. En ef svo á að gera það að ádeiluefni á mig, að ég hafi ekki byggt menntaskóla á Ísafirði fyrir þriggja millj. kr. fjárveitingu, sem búið er að veita, þá er það í samræmi við annað hjá þessum hv. þm.