06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1562 í B-deild Alþingistíðinda. (1677)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Viðhorf hæstv. fjmrh. til þessarar till. er mér að sjálfsögðu vonbrigði. Ég veit að hann er mjög einlægur andstæðingur bæði áfengis og tóbaks. Það er misskilningur hjá hæstv. ráðh., að till. um að banna tóbaksauglýsingar hafi ekki átt fylgi að fagna hér í þessari hv. deild. Hæstv. fjmrh. bar á sínum tíma fram till. um að banna tóbaksauglýsingar og var hún samþ. í þessari hv. deild, og afgr. til Nd., en hins vegar náði hún ekki fram að ganga í Nd. Það liggur því ljóst fyrir, að á sinni tíð átti sú hugmynd að banna tóbaksauglýsingar fylgi að fagna í þessari hv. deild. Ég skal ekki segja um það hvort þm. hafa skipt um skoðun síðar, þ.e.a.s. Ed. er að sjálfsögðu nokkuð á annan veg skipuð nú en þegar þetta mál var afgreitt á sínum tíma. En ég minni á það, að við atkvæðagreiðslu hér í gær þá átti till. um það, að blöð og fjölmiðlunartæki skyldu láta ókeypis í té andróður gegn tóbaksauglýsingum, þvílíku fylgi að fagna, að sú till. var ekki felld nema með 1 atkv. mun. Nú bætist ég hins vegar í hóp þeirra, sem voru með þeirri till. í gær, svo að þá þykir mér nú von til að hún nái fram að ganga.

Viðvíkjandi því atriði, sem hæstv. fjmrh. sagði, að hann gæti ekki sem fjmrh. staðið að því á miðju ári og þegar fjárlög hefðu verið afgreidd að taka svo töluverða upphæð, sem hér væri um að tefla, af tekjum af áfengisog tóbaksverzluninni, þá er því til að svara, að ég geri nú ráð fyrir því, að þar sem hér er miðað við 3% hið minnsta af hagnaði af tóbaksverzlun, þá kæmi sú greiðsla ekki til framkvæmda fyrr en að loknu þessu ári, þannig að ég held að sú mótbára sé mjög léttvæg og standi ekki í vegi fyrir samþykkt tillögunnar. Ég held því að hæstv. fjmrh. geti með góðri samvizku greitt þessari tillögu atkvæði.

Hann minntist líka á og fór vinsamlegum orðum um þá tillögu, sem fram er komin í Sþ. um það að taka upp áróður gegn vindlingareykingum eða tóbaksnotkun almennt — ég man nú ekki hvort heldur er — og hann gerði sér að sjálfsögðu grein fyrir því, að slíkt mundi kosta fé. Ég get ekki séð, að hér sé um mjög óskyld málefni að tefla og að sjálfsögðu er ég til viðræðu um það, ef menn vilja á annað borð athuga þessa till., að breyta henni í það horf, að það sé gefið nokkuð meira svigrúm til ráðstöfunar á þessum fjármunum, sem til er ætlazt, að varið sé í þessu skyni. Ég t.d. mundi alveg hiklaust fallast á það, að einhverjum kvóta af þessu yrði varið til fræðslu í skólum landsins, en þegar því er sleppt, að um fræðslu í skólum sé að tefla, þá fæ ég ekki betur séð en að áhrifaríkustu tækin í því efni að vinna gegn þessari notkun séu einmitt fjölmiðlunartækin, sjónvarp, útvarp og dagblöð.

Ég skal svo ekki hafa fleiri orð um þetta. Ég vona það, að þessari till. verði allgott til fylgis þrátt fyrir þá andæfingu sem hæstv. fjmrh. hafði uppi, enda held ég að ég hafi sýnt fram á að þær mótbárur, sem hann hafði gegn þessari till., eru að verulegu leyti á misskilningi byggðar.