09.05.1969
Neðri deild: 91. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1567 í B-deild Alþingistíðinda. (1685)

223. mál, verslun ríkisins með áfengi, tóbak og lyf

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að karpa mikið við hv. þm., en það vita allir, að hann hefur þá meginhugsjón, sem ekkert er við að segja, að allar vörur eigi að vera undir einkasölu, hvort sem það er á þessu sviði eða öðru. Ég held, að hann þurfi ekki að hrista höfuðið mikið um það, því hann hefur ekkert farið dult með það yfirleitt, að a.m.k. meginhluti af vörunum væri betur kominn í höndum ríkisins heldur en heildsala og annarra, sem flytja þær inn.

Ég vildi aðeins segja það, að hér er að sjálfsögðu ekki verið að skapa erfiðleika, heldur þægindi fyrir neytendur og notendur þessara vara. Að svo miklu leyti sem menn ekki hingað til hafa ólöglega flutt þær inn, þá eru líkur til þess að þær lækki allverulega í verði, vegna þess að álagning einkasölu ríkisins, Áfengis- og tóbaksverzlunar, er mjög há á sumar þessar vörutegundir. Sannleikurinn er sá, að þó að hann reikni með því, að það sem ráði afstöðu minni til málsins sé eingöngu það að þóknast innflytjendum eða heildsölum í þessu efni, þá hef ég verið þeirrar skoðunar einnig, að það væri of hátt verð á þessum vörum. Eins og ég sagði í ræðu minni áðan, þá hefur það gerzt oftar en einu sinni, að með því að lækka óhæfilega háa tolla á vörum sem eru mjög auðveldar í smygli, eins og á sér stað með þessa vöru, sem hér er um að ræða, að undanskildum bökunardropum, þá held ég að menn standi nú ekki í að smygla þeim; þá hefur það leitt til aukins innflutnings. Við höfum látið athuga það, hvað er selt hér af þessari vöru í verzlunum með eðlilegum innflutningi og sú sala er algerlega fjarri öllu lagi. Það er sýnilega ekki nema mjög lítið brot af því vörumagni, sem notað er í landinu, sem skilar sér hér í verzlanir. Þannig að það er ljóst, að þessi vara er meðal þeirra vörutegunda, sem hvað mest er flutt inn fram hjá allri tollálagningu og gefur þar af leiðandi ríkinu hvorki einar né neinar tekjur. Ég held þess vegna og það er bjargföst skoðun mín, að þó að þessi ráðstöfun sé gerð, að losa Áfengis- og tóbaksverzlunina við þann innflutning, sem, eins og ég áðan sagði, mér finnst ekki eiga neitt skylt við aðra starfsemi þess fyrirtækis, þá ætti ekki að þurfa að óttast, að það dragi úr tekjum ríkissjóðs. Ég er sammála hv. þm. um það, að ég hef ekki áhuga á að minnka tekjur ríkissjóðs, það er alveg rétt, að það verður að sjá fyrir því.