12.05.1969
Efri deild: 92. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1579 í B-deild Alþingistíðinda. (1717)

248. mál, vinnumiðlun

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Um s.l. áramót voru gefin út brbl. til breyt. á gildandi l. um atvinnuleysistryggingar. Meginefni þessara brbl. var í fyrsta lagi að hækka atvinnuleysisbætur verulega og hygg ég, að um það efni hafi lítill ágreiningur verið manna á meðal.

Í öðru lagi var ákveðið í þessum brbl., að bótarétturinn, sem miðazt hafði við menn á aldrinum frá 16–67 ára, breyttist þannig, að hann skyldi eftirleiðis miðast við menn 16 ára og eldri, þ.e.a.s. það voru engin aldurstakmörk upp á við og þar með gátu menn, sem höfðu fengið rétt til ellilífeyris, öðlazt jafnframt rétt til atvinnuleysisbóta. Þetta ákvæði brbl. var allmjög gagnrýnt.

Í þriðja lagi fólst í þessum brbl. rýmkun á bótaréttinum á þann veg, að fellt var niður það skilyrði fyrir atvinnuleysisbótum, að tekjur manna mættu ekki hafa farið fram úr tilteknu hámarki á s.l. 6 mánuðum. Má segja, að um þetta ákvæði hafi líka verið ærið skiptar skoðanir, þó að það væri út af fyrir sig eðlilegt að hækka þetta tekjumark, en þó vafasamt að ganga svo langt að afnema það alveg.

Í fjórða lagi fólst svo í þessum brbl. breyting á þá lund, að nú skyldi heimilt að greiða bætur allt að 156 virka daga ár hvert, en áður hafði það einungis verið 120 virka daga.

Þegar þing kom saman eftir áramótin, var lagt hér fram í hv. Ed. frv. til staðfestingar á þessum brbl. En með því að hæstv. félmrh. upplýsti, að hann hefði skipað sérstaka nefnd til þess að athuga lög um atvinnuleysistryggingar í heild, þá taldi hann, að ekki lægi á að afgreiða þetta frv. og réttara væri að bíða eftir frv. frá þessari nefnd og var svo gert. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er þess vegna nýtt frv. um breyt. á atvinnuleysistryggingalögunum frá 1956. Upp í þetta nýja frv. eru tekin helztu ákvæði brbl., en þó vikið nokkuð frá þeim í einstökum tilfellum, og auk þess eru í þessu nýja frv. mörg önnur ákvæði, sem ekki voru í brbl. Þetta frv., sem hér liggur frammi, er samið af þeirri hinni sömu nefnd, sem samdi frv. um vinnumiðlun.

Sú breyting er gerð í þessu nýja frv. miðað við brbl., að ellilífeyrisþegar halda í grundvallaratriðum möguleikum til atvinnuleysisbóta, en verða nú að sanna með læknisvottorði; að þeir séu vinnufærir. Tekjuviðmiðun er hér í þessu frv. tekin upp á ný, en þó mjög takmörkuð og í því tilfelli einungis, að bótaumsækjandi eigi maka, sem hefur a.m.k. tvöfaldar dagvinnutekjur verkamanns. Þá eru í þessu frv. gerðar minni háttar breytingar á hámarki bóta og er sú helzt, að nú getur enginn fengið hærri dagpeninga en svarar 75% af meðaldagtekjum hans á síðustu 12 mánuðum, áður en hann varð atvinnulaus.

Önnur nýmæli í þessu frv. eru m.a. þau, að skólafólk getur fengið atvinnuleysisbætur, ef svo ber undir, svo og örorkulífeyrisþegar. Ýmis fleiri nýmæli eru í frv., en varðandi þau leyfi ég mér að vísa til ítarlegrar grg., er frv. fylgir.

Þetta frv. var, eins og áður segir, samið af sérstakri nefnd. Nefndin telur líkt og með vinnumiðlunarfrv., að með þessu sé engan veginn lokið heildarendurskoðun á lögum um atvinnuleysistryggingar og þess vegna sé hér um bráðabirgðabreytingar að ræða, en væntanlega verði lagt fram nýtt frv. um þessi málefni, þegar heildarendurskoðun yrði lokið, sem vonandi ætti þá að geta orðið á næsta þingi. Nm. voru allir sammála um þetta frv. nema eitt atriði þess, sem fulltrúi Vinnuveitendasambandsins gerði ágreining um, en það var um aldur manna, sem eiga bótarétt. Hann vildi takmarka hann við 70 ára aldur.

Það er, eins og mönnum er ljóst, mjög takmarkaður tími nú til þess að athuga svona mál gaumgæfilega, og ef þetta frv. yrði ekki samþykkt og frv. til staðfestingar á brbl. ekki héldur, þá mundi það falla úr gildi við þingslit og gömlu atvinnuleysistryggingalögin þá ganga í gildi óbreytt á ný.

Þetta mál var sent heilbr.- og félmn. til athugunar og nefndin var sammála um það að mæla með því, að þetta frv. verði samþykkt. En þrátt fyrir meðmæli nefndarinnar vil ég undirstrika, að þegar að því kemur, að umræddri heildarendurskoðun á atvinnuleysistryggingalöggjöfinni verði lokið og nýtt frv. yrði þá flutt væntanlega á næsta þingi um breytingar, þá líta nm. svo á, að þeir hafi á engan hátt bundið hendur sínar með því að samþykkja þetta frv., þar sem naumast er unnt að komast hjá því og menn áskilja sér þá rétt til þess að taka upp aðra afstöðu til einstakra atriða heldur en hér er gert, þar sem mjög lítið svigrúm er til þess að athuga þetta mál betur og eins og ég hef margtekið fram, eiga menn von á fullkomnara frv. um þetta efni innan tíðar.

En ég endurtek svo, að heilbr.- og félmn. mælir með því, að frv. sé samþykkt eins og málum er komið.