17.12.1968
Neðri deild: 31. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í B-deild Alþingistíðinda. (172)

116. mál, skólakostnaður

Frsm. minni hl. (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég skal leitast við að vera ekki langorður, a.m.k. ekki eins langorður og hæstv. menntmrh. Hann hefur nú miðlað okkur framsóknarmönnum ásökunum ríkulega lengi dags, og hafa þar margir orðið fyrir skotum, meira að segja látnir menn, svo að ég þarf ekkert að kippa mér upp við að fá minn skerf. En það eru aðeins tvær ásakanir, sem ég ætlaði að drepa hér á í þessari stuttu aths., sem hann var með í minn garð. Hæstv. ráðh. hafði látið svo ummælt í ræðu sinni þar áður, að það væri á ábyrgð sveitarstjórnanna í landinu, ef um skort á skólabyggingum væri að ræða. (Menntmrh.: Þetta hef ég aldrei sagt.) Ég held, að ég hafi heyrt þetta rétt hjá hæstv. ráðh., að hann hafi talað um skóla eða skólabyggingar. (Menntmrh.: Nei, nei, nei, nei. Það er algjör misheyrn hjá hv. þm.) Það verður þá að standa þannig, að ég skildi hann svo og hélt mig heyra það alveg hárrétt, enda er frv. um stofnkostnað skóla, en engan reksturskostnað og enginn maður hafði minnzt á reksturskostnað skóla, hvorki hæstv. ráðh. né aðrir í ræðum sínum á undan. En þegar ég svo las lagagrein, sem sýndi það, að enginn má byggja eða hefjast handa um skólabyggingar í landinu nema menntmrh. veiti leyfi til þess skriflega, þá varð hann einhvern veginn að komast út úr vandanum, sagðist hafa verið að tala um reksturskostnað, reksturskostnað skóla, sem ekki er til umræðu. Ég verð að segja það, að þegar menn lenda í sjálfheldu, verða þeir að grípa til einhverra ráða.

Hin ásökunin í minn garð var sú, að ég drap á það, að ekki hefði verið hafizt handa um menntaskóla á Ísafirði þrátt fyrir lagaákvæði þar um. Hæstv. ráðh. sagði, að ég hefði ekki hugmynd um löggjöf eða neitt þessu viðkomandi. Það eru engin lög til um menntaskóla á Ísafirði, sagði hann, og þetta sýndi nú bezt, hvers konar málflutningur þetta væri. Nú ætla ég að lofa hæstv. ráðh. að heyra aðra lagagrein, því að það dugar ekkert á þennan hæstv. ráðh. nema lagagreinar. Hún er lög um breyt. á l. nr. 58 frá 1946 um menntaskóla. 1. gr. 1. nr. 58 1946 orðist svo:

„Menntaskólar skulu vera 6, 2 í Reykjavík, 1 á Akureyri, 1 á Laugarvatni, 1 á Ísafirði og 1 á Austurlandi.“ Þetta eru nú lögin, sem hæstv. ráðh. segir, að séu ekki til. Ég held, að ég hafi því ekki ofmælt það, sem ég sagði, að þrátt fyrir lagaákvæði væri ekki hafizt handa enn um undirbúning að byggingu menntaskóla á Ísafirði. Ég hef því alls ekki ofmælt neitt í þessu efni, en ég gæti bezt trúað, að ég vissi eins mikið um þessi lög, skólakostnaðarlögin og þessi, eins og hæstv. ráðh. Hvað snertir skólakostnaðarlögin, sátum við í því vikum saman árið 1967 í menntmn. að breyta og fjalla um skólakostnaðarfrv. og m.a. var okkur tveimur, heldur en þremur, falið að vinna að því máli allt páskafríið 1967, auðvitað fyrir enga aukaborgun. Þetta gerðum við og svo heldur hæstv. ráðh., að ég viti ekki neitt um þessi skólakostnaðarlög. Ég veit meira um þau heldur en margur heldur eða a.m.k. meira en hann heldur. Ég veit t.d., að ýmislegt í þessum lögum er óframkvæmanlegt, bókstaflega óframkvæmanlegt, og ég sagði það þá. Og þegar þau lög voru afgreidd, átti ég aðra sennuna við þennan hæstv. ráðh. Hann ætlaði að afnema alla héraðsskólana sem ríkisskóla hér í landinu, en það stóð ekki mjög ólíkt á þá og núna, að hæstv. ríkisstj. var að komast í tímaþröng — þá voru það þingslit, nú er það jólaleyfi — og það endaði með því, þegar hann var kominn í þessa tímaþröng, að hann lét undan og féllst á, að héraðsskólarnir skyldu vera ríkisskólar áfram. En hart var barizt, og ég sé ekkert eftir mér að berjast hart fyrir góðu máli, hvort sem það er við þennan hæstv. ráðh. eða aðra, ef maður nær einhverjum árangri.