17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1581 í B-deild Alþingistíðinda. (1725)

248. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. deildar fékk frv. það, sem hér liggur fyrir, til athugunar í þinghléi, sem gert var í gær á fundum deildarinnar og verður að segja, að mál þetta sé það. stórt í sniðum og svo flókið að mörgu leyti, að mjög hefði verið æskilegt og eðlilegt, að nefndin hefði haft mun lengri tíma til að skoða málið og kynna sér það heldur en henni gafst tóm til á þeim fundi, sem haldinn var í gær. Allir nm. voru mættir að undanskildum einum nm., Ragnari Arnalds, en í hans stað mætti formaður þingflokks Alþb., Lúðvík Jósefsson, að ósk þessa nm., sem ekki gat mætt. Eins og fram kemur í nál. meiri hl. heilbr.- og félmn. leggja þeir til. sem það nál. undirrita, að málið verði þó afgreitt með tiltekinni breytingu, sem fram kemur á þskj. 785, en gera það í trausti þess, að málið í heild verði tekið til frekari endurskoðunar og það verði þá tekið fyrir til afgreiðslu hér á næsta þingi. Nm. voru alveg sammála um það, að þeir hefðu mjög æskt þess að fá mun betri tíma til að skoða málið, menn höfðu margir hugmynd um frekari breytingu en þarna er lagt til, en samstaða varð þó um það hjá þeim meiri hl., sem þarna myndaðist, að fá málið afgreitt nú áður en þingi lyki á þann hátt, sem það liggur fyrir, með þeirri breytingu, sem gerð er.

Breytingin, sem fram kemur á þingskjali 785, er um það, að út úr b-lið 2. gr., 5. málslið, falli niður: „eða í skólaleyfum“, en þetta er varðandi aðstöðu skólafólks gagnvart Atvinnuleysistryggingasjóði. Því er ekki að leyna, að þetta er grundvallarbreyting gagnvart þessum aðilum, þannig að þeirra aðstaða verður, eftir að þessi orð eru tekin út, mjög á annan veg heldur en ef frv. hefði verið samþykkt óbreytt. En upplýsingar lágu fyrir um það hjá n., að að dómi formanns n., sem mættur var, ráðuneytisstjórans í félmrn., þá hafði ekki verið búið að ganga eins ákveðið frá þessu í n. eins og fram kemur þarna í frv. Frekar hafi þeir ætlazt til. að þetta yrði skoðað betur, hvernig þessum málum yrði skipað í framtíðinni.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum, því ég treysti því, sem einn af þeim mönnum, sem undirrita vill álit heilbr.- og félmn., að málið í heild verði tekið til frekari endurskoðunar og við fáum aðstöðu til þess á næsta þingi að gera okkur grein fyrir framkvæmd þess, því ég hygg, að allir séu sammála um það að sú róttæka breyting, sem gerð var með brbl. um s.l. áramót, að hún hafi kannske í mörgum tilfellum komið nokkuð öðru vísi út í framkvæmd heldur en menn gátu þá gert sér grein fyrir. Nm. voru að ég held allir á einu máli um það, að það væri þó betra eins og málunum væri komið nú að fá samþykkta þá breytingu, sem lagt er til að gera á vinnulöggjöfinni og er 249. mál þingsins, heldur en að brbl. yrðu staðfest óbreytt.

Ég endurtek, herra forseti, að eins og fram kemur á þskj. 784, þá leggur meiri hl. heilbr.- og félmn. til, að frv. verði samþykkt, með þeirri tilteknu breytingu, sem ég hef hér bent á, í trausti þess, að málið verði nú fyrir næsta þing tekið til frekari athugunar og endurskoðunar og að aðstaða gefist til þess að skoða það betur á næsta þingi.