17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1588 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

248. mál, vinnumiðlun

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ástæður til þess að ég kvaddi mér hljóðs, eru tvær. Í fyrsta lagi vil ég geta þess, að í vetur héldu skólanemendur í framhaldsskólunum, menntaskólunum og Kennaraskólanum, fund á Hótel Sögu. Meðal þeirra, sem boðnir voru á þennan fund, vorum við fjvn.-menn og ég sat þennan fund og hlustaði á mál manna. Eitt af því, sem þá kom fram og skólaæskan gerði fyrirspurn um til hæstv. menntmrh., var það, hvort séð yrði fyrir atvinnu handa skólaæskunni í sumar, og ég fullyrði, að hæstv. menntmrh. sagði, að séð yrði fyrir atvinnu handa skólaæskunni. Ég vil láta þetta koma fram. Ég skrifaði þetta niður hjá mér um leið og hann talaði, og hann var endurspurður að þessu og fullyrti hann það, að fyrir þessu yrði séð. Þessa vil ég, að sé getið, til þess að ljóst sé hér, að hæstv. menntmrh. fullyrti það, að fyrir þessu máli yrði séð. Það hefur hins vegar komið fram nú í sambandi við þetta mál. að það hafa ekki verið gerðar neinar ráðstafanir til þess að sjá fyrir þessu máli.

Ég vil svo vekja athygli á því, að það, sem hér er verið að fjalla um, er það, hvort eigi að fara að fóðra skólaæskuna í landinu á styrkjum. Er ekki nóg verkefni í þessu landi? Er ekki hægt að koma þeim málum betur fyrir en það, að einhver hluti af skólaæskunni eða þeir, sem hafa lokið námi — eða á að skilja orðanna hljóðan þannig — og hafa áður fengið vinnu, eigi að njóta atvinnuleysisbóta og aðrir ekki? Hér er ekkert smámál á ferðinni. Það er ekkert smámál. hvort það er orðið þannig á Íslandi í dag, að það eigi að fara að fóðra unglingana á styrkjum án vinnu, það eru ekki verkefni til handa þessu fólki og ekki geta til að greiða. Nú vil ég vekja athygli á því, sem fram kom hjá hæstv. félmrh. áðan, að honum virðist ekki vera ljóst, hvað í þessu frv. felst, sem hann er að leggja hér fyrir. Hann talaði um, að framhaldsrannsókn og framhaldsathugun ætti að vera á máli, sem á að fara að lögfesta. Er hæstv. ráðh. ekki ljóst, hverjir eiga að njóta þessara bóta eða ekki? Það var spurt um það áðan, við hvað er átt með orðunum: „þeir, sem hafa lokið námi.“ Það kom ekki fram hjá hæstv. ráðh., þó að hann væri með hjartað á réttum stað, elns og hv. 5. þm. Vesturl. lýsti hátíðlega í gærkvöldi.

En ég vil svo vekja athygli á þeirri till., sem kom fram hjá hv. Í. þm. Austf., að það er nær að taka á þessu máli þannig, að Atvinnuleysistryggingasjóður veiti bæjar- og sveitarfélögum landsins lán til þess að halda uppi atvinnu fyrir æskufólkið í landinu. Það á að halda uppi atvinnu fyrir æskufólkið í landinu. Það er krafa þess til þjóðfélagsins. Það var krafa unga fólksins á Hótel Sögu á þeim umrædda fundi, og það var það, sem hæstv. menntmrh. lofaði því, að skyldi gert. Það á að styðja bæjar- og sveitarfélögin með lánum til þess að koma því í verk, en ekki mata þetta fólk á bótum, sem enginn skilur svo, hvernig á að framkvæma.