17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1592 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

248. mál, vinnumiðlun

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Atvinnuleysi ungs fólks og vandamál þess, ekki aðeins hvað snertir afkomu yfir sumarmánuði, heldur og möguleika þess til að stunda áframhaldandi nám, er að sjálfsögðu mjög alvarlegt mál og vert langra umræðna hér og mikilla aðgerða, en eins og störfum þings er nú komið, þá reikna ég ekki með, að svo verði. Í sambandi við þetta frv., sem hér liggur fyrir, hafa þessi mál af eðlilegum ástæðum mjög borið á góma, en ég vil nú biðja þdm. hv. að láta ekki sjálft málið og það úrlausnarefni, sem felst í þessu frv., falla í skuggann fyrir umræðum og öðrum óskum manna varðandi atvinnumál unga fólksins á þann veg, að frv. máske fái hér ekki afgreiðslu.

Það er fram tekið í grg. þessa frv., að það er í rauninni til orðið vegna nauðsynjar á breytingum á atvinnuleysistryggingalögunum, sem menn hafa komizt að raun um, að eðlilegar væru og ekki aðeins eðlilegar, heldur líka nauðsynlegar samkv. þeirri reynslu, sem fengizt hefur við framkvæmd þeirra núna s.I. 2 ár sérstaklega að segja má. Í frv. eru aðallega ýmis atriði, sem færð eru til skýrari vegar heldur en nú er í lögunum, tekin af tvímæli, nokkrar nýjar reglur settar í framkvæmd og ég mundi telja — tel mig nú þekkja nokkuð vel til þessara mála — að það væri afar nauðsynlegt — og ég vil biðja menn að taka eftir því —nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. núna, og ég held að það sé óhætt að fullyrða, að í því séu engin atriði, sem gætu í raun og veru orðið til þess, að réttur hinna tryggðu yrði á einhvern hátt lakari heldur en nú er, þvert á móti stefna þessar breytingar að því að gera lögin auðveldari, skýrari í framkvæmd en þau nú eru. Þetta er aðalatriði þessa frv. Efnisbreytingar eru ekki neinar stórvægilegar og má segja að sú breyting, sem hér hefur verið rædd varðandi skólafólkið, er í raun og veru eina verulega efnisbreytingin, sem í þessu frv. felst, frá eldri lögunum. Þar var hins vegar farið inn á nokkuð nýjar brautir frá því, sem lögin hingað til hafa gert ráð fyrir. Grundvöllur þessara laga, eins og allra annarra tryggingalaga, er að sjálfsögðu sá, að greiðsla komi í tryggingarnar, að greitt sé vegna hinna tryggðu. Þetta er grundvallaratriðið. Lögin höfðu að geyma ákvæði og hafa að geyma ákvæði um, hve langan tíma greiðsla komi af manni til þess að hann teljist tryggður.

Eins og þetta ákvæði var sett hér í þessu frv. og raunar einnig með þeirri breyt., sem hv. félmn. leggur til. þá er einvörðungu gerður skemmri sá tími, sem greiða þarf af manni heldur en er í núgildandi lögum, þ.e.a.s. það er verið að reyna að færa lögin út, láta þau ná til fleiri heldur en þau áður hafa gert.

Nú vil ég taka það fram mjög greinilega, að ég álít, að atvinnuvandamál skólafólks verði ekki leyst með því, að það verði sett á atvinnuleysisbætur. Atvinna þessa fólks er auðvitað aðalatriðið og ekki bara þessa fólks, heldur allra þeirra, sem fyrir böli atvinnuleysisins verða. Það er auðvitað höfuðatriðið. Þegar atvinnuleysi hins vegar steðjar að, þá eiga tryggingarnar til að koma. Grundvöllurinn fyrir því að þessu var breytt, voru till., sem við í verkalýðshreyfingunni gerðum um breyt. á l. Við undirbúning þessara breyt. var, eins og greint er frá í grg., haft samráð við allstóran hóp þeirra manna, sem eru gagnkunnugastir framkvæmd laganna. Þar voru fulltrúar verkalýðsfélaganna í úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta og einnig fulltrúar atvinnurekenda, en þeir eiga eins og kunnugt er einnig sæti í úthlutunarnefndum. Sameiginleg till. þessara aðila við undirbúning breyt. þessara l. var sú, að reynt yrði að finna leið til að stytta biðtíma eða athuga um biðtíma skólafólks, þannig að þeir, sem lokið hefðu námi og væru komnir á vinnumarkaðinn, skyldu verða aðnjótandi atvinnuleysistrygginga, þ.e.a.s. í samræmi við það, sem lögin yrðu nú, með þeirri brtt., sem félmn. gerir á frv. Þetta voru okkar óskir. Í endurskoðun í nefndinni sjálfri hins vegar varð þetta uppi á teningnum, sem í þessu frv. stendur. Nú vil ég biðja menn að athuga það vel. að með því frv., sem hér liggur fyrir, og þrátt fyrir þá breyt. sem félmn. gerði á þessu frv., þá er verið að leysa, ég mundi segja verulegan stóran hluta þessa vandamáls. Það vil ég biðja hv. þm. að hafa í huga, þrátt fyrir að ég skilji ákaflega vel mjög heitar tilfinningar manna um vandamál unga fólksins í atvinnumálum að öðru leyti núna.

Spurninguna um það, hverjir hafa hjartað á réttum stað, ætla ég ekki að fara að blanda mér í hér. En menn verða nú fyrir ýmsum áhrifum í lífi sínu og kannske þarf sterk áhrif til þess að menn hafi hjartað á réttum stað. Hvað sem um hjartalagið snertir, þá er það staðreynd, að það var samið í marz í fyrravetur um þær breytingar, sem gerðar voru á lögunum, og þau brbl., sem gefin voru út — en ekki breyt. á reglugerð, eins og hér var orðað í gærkvöldi — voru árangur af því, sem að vísu að mínum dómi kom allt of seint fram, hann átti að koma miklu fyrr. Í öllum þessum umræðum vil ég biðja menn að gleyma því ekki, að í þessu frv. eins og það er núna og með breytingum félmn. er verulega stór hluti leystur af vandamálum þessa fólks.

Það var spurt hér af tveimur hv. þm. um alveg tiltekin atriði varðandi þetta frv. og þar sem ég tel mig nú þekkja þetta mál nokkuð vel, þá vil ég koma inn á það. Hv. 6. þm. Reykv. spurði um eða leiddi það fram í dagsljósið, að einvörðungu þeir, sem unnið hafa 3 mánuði af s.l. 12, plús skólatímann, geta fengið þennan rétt. Þetta er alveg rétt. Þetta getur komið þannig út, að maður, sem hafði vinnu í fyrrasumar, fær réttinn, hinn, sem ekki hafði vinnuna, fær ekki réttinn. En hér er um að ræða vandamál, sem ekki snertir einvörðungu skólafólkið, heldur er þetta vandamál, sem þessi endurskoðunarnefnd velti mjög fyrir sér við þessa endurskoðun, en komst ekki að niðurstöðu um lausn á. Þetta snertir alla, sem í fyrsta sinn eru að koma á vinnumarkaðinn á atvinnuleysistímum, ekki aðeins skólafólkið heldur einnig alla aðra. Það getur nefnilega svo farið og blasir við með lögunum eins og þau nú eru, og engar till. eru um breytingar á því eins og er, að þeir, sem í fyrsta sinn koma inn á vinnumarkaðinn, ungir eða gamlir, menn geta komið úr öðrum atvinnugreinum, t.d. bóndi, sem flytzt á mölina, hann fær ekki þennan rétt, fyrr en hann er búinn að vinna ákveðinn tíma, og hvenær fær hann þá vinnu? Hann fær ekki tryggingar fyrr. Þetta er vandamál, sem tvímælalaust verður að taka til athugunar, ekki aðeins fyrir skólafólkið, heldur einnig aðra og er út af fyrir sig ekki meira vandamál fyrir skólafólkið.

Hv. 1. þm. Austf. spurði um, hvað væri meint með þessum orðum laganna „að ljúka námi“. Það má vel vera að þetta orðalag, eins og það er þarna, geti leitt hugann að því t.d., að maður sem hættir námi í 4. bekk menntaskóla og ekki hefur lokið stúdentsprófi félli ekki undir þetta, vegna þess að hann yrði ekki talinn hafa lokið námi, en hafi hins vegar hætt námi, gefizt upp, en ég held að það sé nú engin hætta á því, að túlkunin yrði á þennan hátt. Sárasti vandinn, sem verið hefur fyrir þá sem fást við framkvæmd þessara laga, er sá að geta ekki hjálpað þeim mönnum, ekki þeim sem endilega koma út úr skólunum á vorin, það eru meiri möguleikar þá að fá vinnu, heldur þeim, sem hafa fengið vinnu yfir sumarmánuðina og ætla sér ekki aftur í skóla að hausti, þessum mönnum hefur ekki verið hægt að hjálpa fram að þessu, þetta hefur verið langsárasti vandinn. Með þessari breytingu, sem nú hefur verið gerð á lögunum með till. félmn., yrði hægt að hjálpa þessum mönnum. Og það mundi ég telja að yrði mjög mikilvægt. Þessir menn eru í hópi þeirra, sem fyrst er sagt upp að hausti, þegar um atvinnuleysi er að ræða og þurfa því langhelzt á hjálpinni að halda. Þetta vandamál leysir þetta frv. eins og það liggur nú fyrir ásamt brtt.

Ég bið afsökunar á því að vera að nota þessa dýrmætu stund, sem nú er eftir af þingtímanum, en ég vil að síðustu bara leggja áherzlu á það, að hér er verið að gera hvort tveggja, að gera lögin betri til framkvæmda, en ég mundi telja að það væri mjög nauðsynlegt, vegna þess að framkvæmd laganna hefur verið mjög ábótavant bæði af hálfu sveitarstjórnanna, sem eiga að sjá um skráningu og annað þess háttar, og einnig af hálfu ríkisvaldsins, þ.e.a.s. félmrn., sem hér þarf verulega að taka til hendi og einnig af hálfu þeirra samtaka, þ.e.a.s. verkalýðssamtakanna, sem að miklu leyti sjá um framkvæmd þessara laga. Það þarf að gera allverulegt átak nú í sumar og þó einkum með byrjun haustsins til þess að færa þessi mál öll í mikið betra horf heldur en nú er og til þess að það sé hægt, eru þær breyt., sem hér eru lagðar til, alveg sérstaklega nauðsynlegar.