17.05.1969
Neðri deild: 96. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1734)

248. mál, vinnumiðlun

Frsm. meiri hl. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki misnota aðstöðu mína og vera eins stuttorður og ég mögulega get. Það hefur komið nokkur gagnrýni fram hjá einstaka þm. um meðferð málsins, og tel ég það ekki óeðlilegt. Ég vil undirstrika það, sem ég sagði í upphafi, að þessi sama skoðun var uppi hjá held ég öllum nm. í heilbr.- og félmn., en hitt varð ofan á hjá okkur eins og fram kom hjá hv. 2. landsk. þm., að það væri það margt til bóta í þessu frv., að n. vildi þó leggja til að það yrði afgreitt nú á þessu þingi, þrátt fyrir það að við gerðum okkur alveg grein fyrir því, að málið er miklu stærra og þarf nánari athugunar við heldur en hér liggur fyrir.

Ég vil undirstrika það, sem hér hefur komið fram greinilega hjá einstaka hv. þm., að ég tel það nauðsynlegt og hef reyndar bent á það, að það þurfi með þessum lögum að marka nokkuð nýja stefnu í þessum málum. Ég tel að Alþ. eigi að stefna að því, að það veiði reynt að forðast eins og hægt er að þurfa að nota Atvinnuleysistryggingasjóðinn í beinar greiðslur í sambandi við beina bótagreiðslu til manna, sem eru atvinnulausir. Það eigi ekki aðeins að gilda um það, að það eigi að stefna að því að létta undir og með því að skólafólkið geti fengið vinnu fyrir bein eða óbein áhrif frá sjóðnum þann tíma, sem það hefur frí frá skólanum, heldur eigi einnig að stefna að þessu gagnvart öllum vinnandi mönnum í landinu, að t.d. sveitarfélögum eða öðrum verði gert hægara fyrir að halda uppi vinnu við nauðsynlegar og aðkallandi framkvæmdir, frekar en að hafa hóp manna í hverju byggðarlagi á beinum bótastyrkjum. Ég tel að þetta sjónarmið þurfi mjög að skoðast, þegar endurskoðun á lögunum fer fram, að þarna verði nokkur stefnubreyting og um það náist samkomulag hér á hv. Alþ.

Ég vil svo undirstrika og taka undir það sem hv. 2. landsk. þm. benti á hér, að þó að við hefðum kosið annan hátt á um afgreiðslu þessa máls, kosið að fá lengri tíma, betri aðstöðu til þess að skoða málið og gera á því frekari breytingar, þá er það margt í frv., sem er til bóta og sem er beint nauðsynlegt að gera núna, að við þess vegna lögðum til, að það yrði samþykkt, þó með þeirri einu breytingu, sem fram kemur á sérstöku þingskjali.