17.05.1969
Neðri deild: 97. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1595 í B-deild Alþingistíðinda. (1737)

248. mál, vinnumiðlun

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Það er nú eiginlega hæstv. ríkisstj., sem ber ábyrgð á því, að ég bið um orðið, þó að það sé nú ekki ætlazt til þess, að menn haldi uppi miklum ræðuhöldum úr því, sem komið er. En við 2. umr. þessa máls beindi ég nokkrum fyrirspurnum til hæstv. ráðh. og fékk nú ekki svör við þeim, en um það leyti sem fundi var að ljúka hér fyrir hádegið, fékk ég stutt, skriflegt svar frá hæstv. menntmrh. En mér finnst rétt að gefa nokkra skýringu á því, áður en ég les það hér upp. Það hefur komið fyrir í þessari hv. d., þegar beint hefur verið fsp. til ráðh. og þeir hafa átt erfitt með að svara, þá hefur það reynzt svo, að þeir hafa átt hauka í horni. Þannig gerðist það, þegar landhelgismálið var hér til umræðu, að ég beindi nokkrum fsp. til hæstv. dómsmrh., sem hann virtist eiga erfitt með að svara, og þá reis upp hv. 4. þm. Austf., Lúðvík Jósefsson, og svaraði mjög rækilega fyrir hann. Það gerðist svo við umræður hér áðan, að það var beint fsp. til hæstv. félmrh. um skýringar á því lagafrv., sem hér liggur fyrir, og honum vafðist mjög tunga um tönn, en þá reis upp hv. þm. Eðvarð Sigurðsson og svaraði allrækilega fyrir hann.

Þetta sýnir það, að ríkisstj. á hér dulda stuðningsmenn, sem koma í dagsljósið, þegar hún þarf á að halda. En svarið, sem ég fékk frá hæstv. menntmrh., er á þessa leið:

„Undir þinglok eins og ber

ýmislegt er hjalað.

Ég þarf ekki að anza þér,

Eðvarð hefur talað.“