13.12.1968
Neðri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1597 í B-deild Alþingistíðinda. (1746)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af sex þm. og er breyt. á l. nr. 62 frá 18. maí 1967 um bann gegn botnvörpuveiðum. Frv. er þess efnis, að á tilteknum svæðum fyrir Norður- og Suðurlandi verði ráðh. veitt heimild til að veita bátum af tiltekinni stærð leyfi innan núgildandi marka.

Frv. um svipað efni — um auknar heimildir til togveiði innan fiskveiðimarkanna — hafa legið fyrir hér á hv. Alþ. á nokkrum undanförnum þingum. Þau hafa ekki náð fram að ganga og ekki fengið neina endanlega afgreiðslu. Á s.l. hausti bárust þm. úr þremur kjördæmum, þ.e. Suðurlandskjördæmi, Reykjaneskjördæmi og Reykjavík, tilmæli frá útgerðarmönnum og sjómönnum þess efnis, að unnið yrði að því að fá umræddum lögum um bann gegn botnvörpuveiði breytt þannig, að verulega auknar heimildir til togveiði innan fiskveiðilandhelginnar yrðu leyfðar. Þm. þessara kjördæma kusu úr sínum hópi nefnd í málið- fjóra menn, einn frá hverjum stjórnmálaflokki, og störfuðu þeir í fyrrahaust og fram eftir vetri að málinu. Endanleg niðurstaða hjá þeim kom þó ekki fram í neinu frv.formi, en undir þinglok skilaði meiri hl. sjútvn. áliti um frv., sem fyrir n. lá um þetta efni. Meiri hl. sjútvn. gerði þar ákveðnar till. um vissar tilslakanir í sambandi við botnvörpuveiðar innan fiskveiðilandhelginnar, en málið kom það seint inn á þing, að það kom ekki til umr.

Nú í haust, 2. okt., skipaði hæstv. sjútvmrh. fimm þm. í n. til þess að gera till. um frekari hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar, og segir svo í skipunarbréfi nefndarmönnum til handa, með leyfi hæstv. forseta:

Till. eiga að miðast við sem bezta hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar fyrir sjávarútveginn í heild og einstök útgerðarsvæði, og skulu þær ná til allra skipastærða og veiðiaðferða.“

Við tillögugerð sína á n. að gæta þess sérstaklega, að nauðsynlegt er að forðast ofveiði nytjafiska. Það segir sig sjálft, að þarna er um það stórt og víðtækt verksvið að ræða, að ekki var þess að vænta — og vart til þess að ætlast, að n. skilaði áliti fyrr en komið væri a.m.k. fram yfir áramót. N. hóf störf sín 31. okt. s.l. og hefur haldið, að mig minnir, tíu fundi um málið, afmarkað sér visst og ákveðið verksvið og skipulagt starf sítt og undirbúið, að því er hún taldi, nauðsynlega gagnasöfnun og gert ráðstafanir til þess að ná sambandi við þá aðila, sem hún taldi sig þurfa að tala við og leita upplýsinga hjá. Þetta verksvið, sem n. setti sér, eða þessi vinnuaðferð var við það miðuð, að n. hefði nokkuð rúman tíma til starfa og nokkuð rúman tíma til gagnaöflunar, en það viðhorf, sem skapaðist 1. des., sem allir hv. þm. þekkja, varð þess valdandi, að fyrirsjáanlegt var, að ef n. ætlaði að skila áliti, yrði hún að hraða mjög störfum. Um það varð ekki samkomulag í n. Reyndar voru allir nm. á því, að ætti að vinna að málinu eins og skipunarbréfið sagði til um, hlaut það að taka lengri tíma. Ég vil sérstaklega undirstrika það, að við, sem erum í þessari n., ég og hv. 10. landsk. þm., Sverrir Júlíusson, ætlumst til þess, að n. haldi áfram störfum eftir sem áður, þó að við stöndum að flutningi þeirrar till., sem hér liggur fyrir. Enda var svo ákveðið á síðasta fundi n., að þrátt fyrir það, að till. kæmi fram um málið eins og n. var þá gert ljóst, mundi hún halda áfram störfum eftir þeim leiðum, sem hún hafði þá markað sér, þannig að flutningur þessarar till. á ekki að hafa nein áhrif á störf n., enda er í till. gert ráð fyrir tímabundinni bráðabirgðalausn, sem gilda á frá 1. janúar til 30. apríl og það aðeins á tilteknum svæðum. Við reiknum með, að n. verði búin að skila áliti nokkru eftir áramót og þá fái hv. Alþ. málið í heild til meðferðar og athugunar.

Í sambandi við auknar heimildir til togveiða innan landhelginnar er það tvennt, sem ég tel. að hv. þm. yrðu að gera sér grein fyrir:

1. Hvaða þýðingu botnvörpuveiðarnar, þ.e. botnvörpuveiðar smærri báta — vélbáta, hafa fyrir hráefnisöflun til handa fiskvinnslustöðvunum.

2. Hvort hægt er að fresta aðgerðum í málinu fram yfir áramót miðað við þá aðstöðu, sem nú hefur skapazt í sambandi við veiðar þessara báta.

Í sambandi við hinn fyrri lið liggur fyrir skýrsla frá Fiskifélagi Íslands um árangur af botnvörpuveiðum og það aflamagn, sem bátar, sem þessar veiðar hafa stundað, hafa skilað í land til fiskvinnslustöðvanna. Af því sést, að árið 1966 var heildarafli þessara báta rúmlega 18 þús. tonn, árið 1967 færist hann upp í 35 þús. tonn og til þess tíma, sem skýrslan var gefin 1968, var hann kominn upp í 56 þús. tonn, en mun vera endanlega 1. des., að ég hygg, a.m.k. 60 þús. tonn.

Það segir sig alveg sjálft, að sé um slíkan afla að ræða, eins og hann hefur orðið árið 1968, er þetta ekki orðið einasta hagsmunamál fyrir sjómenn og útgerðarmenn, að þessar veiðar séu stundaðar áfram, heldur mundi ég segja, að það væri orðið ekki minna og jafnvel mun meira hagsmunamál fyrir það verkafólk, sem unnið hefur við fiskiðnaðinn í hinum ýmsu sjávarplássum víðs vegar um landið.

Ég hygg, að það sé ekki ofsögum sagt af því, þó að því sé haldið fram, að á ýmsum og — ég vil segja — mörgum stöðum verði um verulegan samdrátt í atvinnu að ræða, ef afli botnvörpuveiðibátanna drægist saman og ef hann stöðvaðist einhvern hluta ársins; þá yrði víða um land um algjört atvinnuleysi að ræða. Fiskvinnslustöðvarnar eru víða — mjög víða, sérstaklega á smærri stöðum og reyndar sums staðar á hinum stærri stöðum einnig — orðnar nær einasta atvinnutæki byggðarlagsins. Ef samdráttur verður hjá því eða stöðvun, þá liggur það alveg í augum uppi, hvað muni gerast atvinnulega séð í byggðarlaginu og hvaða afleiðingar það mundi hafa fyrir það fólk, sem við fiskiðnaðinn vinnur. Ég hygg, að þetta liggi alveg ljóst fyrir hjá öllum, sem fylgzt hafa með þessum málum og þekkja nokkuð til þeirra. Og ég endurtek því, að þegar við ræðum þessi mál hér, er það ekki einasta hagsmunamál sjómanna og útgerðarmanna. Ég mundi miklu frekar segja, að það væri ekki síður hagsmunamál hins vinnandi fólks í sjávarplássum.

Þá er það önnur spurning, hvort nauðsynlegt er að gera ráðstafanir nú þegar í málinu. Eins og ég drap á, hefur það ástand skapazt eftir 1. des., að víðast hvar hafa bátar hætt að stunda veiðar með botnvörpu. Það þýðir ekkert að vera að dylja sig þess, að þessar veiðar hafa á undanförnum árum í vaxandi mæli — ég vil segja alls staðar, þar sem þær hafa verið stundaðar í kringum land af vélbátum — verið stundaðar í trássi við gildandi lög og reglur. Ég tel ekki, að hv. Alþ., sem lögin semur og setur, geti ætlazt til þess, að þeir aðilar, sem framkvæma eiga lögin, endalaust líti fram hjá því, ef þau eru brotin, heldur hljóti það miklu frekar að vera skylda Alþ., þegar svona ástand skapast, að reyna að ráða fram úr vandanum á þann hátt, sem eðlilegast hlýtur að teljast. Í þessu tilfelli mundi ég segja, að það væri gert með því að gera verulegar tilslakanir á þeim reglum, sem gilda um þessar veiðar. Ég mundi segja, að þetta sé að sjálfsögðu ekkert sérhagsmunamál þeirra hv. þm., sem standa að flutningi þessarar till., að fá lausn á þessu máli. Ég vil í sambandi við það skírskota til ályktunar, sem Landssamband ísl. útvegsmanna gerði á fundi sínum 4. des. og þar var gerð samhljóða. Þar kemur fram það álit, að full ástæða sé til að dómi þeirra aðila, sem þar eiga hlut að máli, að þetta mál verði nú þegar tekið til meðferðar hér á hv. Alþ., en ályktun Landssambands ísl. útvegsmanna hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Á aðalfundi samtakanna, sem haldinn var 4.–6. des., var eftirfarandi ályktun samþ. samhljóða. Aðalfundur L.Í.Ú. haldinn í desember '68 samþykkir að skora á Alþ. það, sem nú situr, að beita sér fyrir skjótri ákvörðun um hagnýtingu landhelginnar. Fundurinn telur, að útvegsmenn, sjómenn og íbúar í hinum ýmsu byggðum landsins geti ekki beðið eftir ákvörðun um þetta mál. þar til þing kemur saman að nýju eftir áramót, og sé því brýn þörf á, að tekin verði ákvörðun um hagnýtingu landhelginnar, áður en Alþ. fer í jólaleyfi.“

Þetta bréf er sent hæstv. forseta Ed. Alþ. Hér í lestrarsal Alþ. og reyndar hjá landhelgisnefndinni svokölluðu liggja enn fremur fyrir tilmæli frá öðrum aðilum, og það skal einnig tekið fram, að mótmæli hafa komið fram frá einstaka smærri stöðum, þó að það sé í miklu minna mæli og sé bundið aðeins við sérhagsmunaaðstöðu hinna smærri og hinna smæstu staða. Ég tel, að hv. Alþ. miðað við allar aðstæður hljóti að taka nokkurt tillit til samhljóða óska heildarsamtaka útvegsmanna í landinu. Það kemur fram í þessu erindi, sem sent var hæstv. forseta Ed., að þar hefur enginn í móti mælt, en ályktunin verið gerð samhljóða.

Ég tel, að af því, sem ég hef hér bent á, og með vísun til skýrslu Fiskifélags Íslands um afla togveiðibátanna verði ekki fram hjá því gengið, að þetta mál hefur orðið mjög mikla þýðingu atvinnulega séð fyrir þjóðarheildina og einnig í sambandi við útflutningsverðmæti og gjaldeyrisöflun.

Flm. þeirrar till., sem hér liggur fyrir, hafa reynt að gera málið eins einfalt fyrir hv. alþm. og þeir töldu frekast unnt, þar sem aðeins er gert ráð fyrir, að heimild ráðh. nái til þess að veita veiðiheimildir á tveimur svæðum, þ.e. á svæðinu úti fyrir Norðurlandi frá Horni austur að Rauðanúp og fyrir Suðurlandi á svæðinu frá Garðsskaga austur að Stokksnesi, en þetta eru þau svæði, sem skýrslur Fiskifélagsins sýna, að togveiðar hafa verið stundaðar mest á og gefið hafa mestan afla bæði vetur og sumar.

Flm. undanskildu þau svæði bæði fyrir Austurlandi, Vestfjörðum og Vesturlandi, sem vitað er, að nokkrar deilur standa um, hvort til greina komi að veita veiðiheimildir á. Einnig eru það þau svæði, sem landhelgisnefnd hlýtur að kanna mun betur — og betri aðstöðu þarf til þess að kanna endanlega, hvort og í hve ríkum mæli kæmi til greina að veita veiðileyfi á. Það hagar á þeim svæðum nokkuð öðruvísi til en bæði fyrir Suðurog Norðurlandi. Fyrir Austur- og Norðausturlandi kunna að vera svæði, þar sem þyrfti jafnvel. ef ætti að nýta þau á eðlilegan hátt, að fara inn fyrir fjögurra mílna mörkin. Það eru þau svæði, sem flatfiskur hefur verið veiddur á eða var veiddur á á undanförnum árum í dragnót og nú í haust eða í sumar hefur verið veiddur í botnvörpu. Það má segja, að á svæðunum fyrir Vestfjörðum og Vesturlandi kæmi til greina að veita nokkrar tilslakanir, en það yrði aldrei gert nema á einhverjum ákveðnum stöðum, sem samkomulag gæti verið um, að skynsamlegra væri að hagnýta með botnvörpu en á annan hátt, og á ég þar aðallega við þau svæði, þar sem um flatfiskveiði er að ræða á vissum tíma, helzt yfir haustmánuðina. Fyrir Norðurlandi leggur n. til, að ráðh. verði veitt heimild með reglugerð til að veita veiðileyfi á hinu tiltekna svæði, sem ég nefndi áðan, allt inn að fjórum sjómílum frá grunnlínupunktum, sem í gildi voru til 1. sept. 1958. Þetta þýðir, ef menn líta á kort yfir þetta svæði, að allir flóar og firðir verða eftir sem áður lokaðir, og ætti þar af leiðandi ekki að koma svo mjög að sök fyrir hina smærri báta á þessum stöðum, þó að togaraveiðar yrðu leyfðar fyrir utan 4 mílur frá gömlu mörkunum, sem voru í gildi til 1. sept. 1958.

Þetta gæti hins vegar og mundi auka veiðisvæði togbátanna fyrir Norðurlandi mjög verulega og verða atvinnulífinu þar mikil lyftistöng. Ég skal geta þess, að Norðurland kemur fyrst við sögu í skýrslu Fiskifélagsins með nokkuð verulegt magn af fiski, sem veiddur hefur verið í botnvörpu á árinu 1968. Þetta fer vaxandi frá 1966 úr 272 tonnum og er 1687 tonn árið '67, en fer upp í 12.300 tonn árið '68 til þess tíma, sem skýrslan var birt. Ég hef frétt frá mönnum, sem við fiskiðnað fást fyrir Norðurlandi, að veiðar með botnvörpu hafi hreinlega á mörgum stöðum í vetur — og jafnvel ekki síður í sumar — bjargað atvinnulífinu í hinum ýmsu sjávarplássum þar, þannig að það er auðsætt, að verði ekki gerðar tilslakanir á veiðiheimildum fyrir Norðurlandi, muni verða þar um verulegan atvinnusamdrátt að ræða, því að ekkert þýðir að dylja sig þess, að þarna eins og annars staðar, þar sem botnvörpuveiðar hafa verið stundaðar af bátum, hafa þær verið stundaðar einnig í trássi við gildandi lög og reglur.

Það mun vera talið, að þær tilslakanir, sem lagt er til, að gerðar verði fyrir Norðurlandi, væri hægt að gera eftir núgildandi lögum með reglugerð, en fram að þessu hefur engin ríkisstj. eða ráðh. treyst sér til að gera það nema að fengnu áliti hv. Alþ. Fyrir Suðurlandi er í tillögunni um miklu róttækari ráðstafanir að ræða, þar sem lagt er til, að sú breyting verði gerð á, að farið verði allt inn að þremur mílunum frá strandlengju á svæðinu frá Garðsskaga að Stokksnesi. Við suðurströndina horfir þetta mál allt öðruvísi við. Þar er ekki að ræða um neina firði, þar sem um uppeldi á smáfiski er að ræða. Ströndin er ekkert vogskorin, eins og menn vita, og fiskur, sem þar er bæði vetur og sumar, er að miklu leyti göngufiskur, sem meðfram ströndinni fer. Þetta er reynsla þeirra sjómanna sem þar hafa lengi veiðar stundað. Fiskurinn kemur í torfum, eins og kallað er, og á það sér stað bæði vetur og sumar eða ákveðinn tíma á ákveðnum stöðum, en heldur síðan göngu sinni áfram og hverfur af þessum miðum. Um uppeldisstöðvar er þar ekki að ræða að neinu ráði. Hins vegar er á þessum stað um að ræða hrygningarstöðvar bæði síldar og annarra nytjafiska okkar, þorsksins og ýsunnar, en í till. er gert ráð fyrir, að hrygningarsvæði síldar og önnur svæði, sem Hafrannsóknastofnunin telur nauðsynlegt að vernda, skuli friðuð fyrir botnvörpu þann tíma, sem nauðsynlegt er talið, þannig að ég tel enga hættu á því, að um rányrkju, ofveiði eða skemmdir á hrygningarsvæðunum yrði að ræða, þó að þetta frv. yrði gert að lögum. Ég tel ekki, að það mundi leysa í sjálfu sér neinn vanda, þó skemmra yrði gengið í þessum efnum við suðurströndina en till. gerir ráð fyrir. Það mundi lítinn sem engan vanda leysa, þó að leyfðar yrðu almennt allan tíma ársins togveiðar 4 mílur út frá hinum fyrri eða síðari grunnlínupunktum, því að þeir eru dregnir það langt út, að bátaflotinn mundi ekki með neinum árangri geta stundað þessar veiðar, ef hann ætti að halda sig utan við það svæði, sem þar er um að ræða.

Ég vil leggja mjög mikla áherzlu á það, sem ég sagði áðan, að n. leitaðist við í till. sínum að gera málið eins einfalt og hún frekast taldi sér fært fyrir þm. til athugunar. Það liggja ótal tilmæli fyrir — eða a.m.k. þó nokkuð af tilmælum hjá n., og vitað er um önnur, sem fram munu koma um það, að fara megi á vissum stöðum og vissum tíma við suðurströndina inn fyrir þrjár mílurnar — kannske alveg inn að ströndinni. Flm. till. töldu ekki ástæðu til og ekki rétt á þessu stigi málsins, þar sem hér er aðeins um bráðabirgðalausn að ræða, að taka til greina neinar ábendingar eða óskir um nokkur frávik frá því, sem þarna er gert ráð fyrir. Þar hlýtur að koma til kasta landhelgisnefndarinnar að skoða þau mál öll, ræða þau við fiskifræðinga og gera sér grein fyrir, hvort nokkuð slíkt kemur til greina á þessum stað eða öðrum stað við landið.

Eins og ég hef sagt áður, telja flm. till. óhjákvæmilegt, að skjót lausn til bráðabirgða verði fundin á þessu máli, og reikna þá með og ætlast til að sú n., sem að málinu starfar í heild samkv. skipunarbréfi hæstv. sjútvmrh. frá 2. okt., haldi áfram störfum og skili áliti, er hún telur það tímabært og telur sig hafa aflað nægilegra gagna og vitneskju til að geta gefið álit um málið í heild á eins víðtækum grundvelli og skipunarbréfið ætlast til. Þess vegna verði nú að draga ákveðna hluti út úr því verkefni n., sem henni var falið, og fá afgreiðslu Alþ. á þeim sérstöku þáttum málsins, ef unnt er.

Ég vil að lokum undirstrika nokkur atriði í sambandi við þetta mál: 1) Hér er um tímabundna bráðabirgðaráðstöfun að ræða, sem gilda á aðeins fyrir tímabilið 1. jan. til 30. apríl næsta ár, eða í fjóra mánuði og það aðeins á tveimur tilteknum veiðisvæðum landsins, en ekki allt í kringum landið. 2) Til þess að auðvelda hv. þm. að gera sér grein fyrir málinu hafa flm. lagt til, að heimild ráðh. nái aðeins til þessara tveggja tilteknu svæða fyrir Suðurlandi, sem mest eru stundaðar togveiðar á að vetrinum til og einnig að sumrinu til — ég vil segja ekki síður að sumrinu til en þurfi að athuga aðstæður nánar eða líkindi eru til að deila megi um, hvort veita eigi tilslakanir, hefur svæðunum verið sleppt.

Þá vil ég benda á, að í sambandi við þetta mál liggur bæði nú og hefur áður legið fyrir þeim aðilum, sem þetta mál hafa verið að skoða — og hefur einnig verið sent hv. Alþ. — álit fiskifræðinga þeirra, sem við Hafrannsóknastofnunina vinna. Ég vil alveg sérstaklega í sambandi við þetta mál leyfa mér að benda hv. þm. á að kynna sér grein Aðalsteins Sigurðssonar í 20. tölublaði Ægis frá 15. nóv. s.l. Hann ræðir þetta mál þar í ítarlegri grein frá fræðilegu sjónarmiði, vegur þar og metur rökin fyrir því að veita aukin leyfi til botnvörpuveiða og einnig þau rök, sem á móti kunna að vera. Þarna er um álit alveg hlutlauss aðila að ræða — fræðimanns, sem ég hygg, að hv. Alþ. hljóti að taka nokkurt tillit til en niðurstöður hans eru dregnar saman í fimm meginatriði í lok greinarinnar, og vil ég með leyfi hæstv. forseta leyfa mér að lesa úr því fyrir hv. þm.

Þar segir í yfirliti: „Samkvæmt framanskráðu má gera ráð fyrir: 1. Botnvörpuveiðar eru ekki hættulegar fyrir plöntu- og dýralíf á hafsbotni.“ Hann rökstyður þetta í greininni með því, að enginn gróður með blaðgrænu geti átt sér stað á dýpra vatni en 16–20 föðmum og botnvörpuveiðar almennt muni ekki vera stundaðar neitt sem heitir á grynnra vatni.

Í annan stað segir hann: „Botnvarpa er ekki hættulegri fyrir fiskstofnana en önnur veiðarfæri, ef hún er með heppilegri möskvastærð.“ Hann bendir á í greininni, að beinar athuganir hafi verið gerðar á þessu á skipum Landhelgisgæzlunnar, þar sem hann og aðrir fiskifræðingar hafa verið um borð og stjórnað þessum athugunum, og þetta eru niðurstöður þeirra aðila, sem að þessum athugunum stóðu. Kom þetta einnig fram hjá Jóni Jónssyni, fiskifræðingi, í viðræðum við þá n., sem ég gat um áðan, að hefði starfað að þessum málum á síðasta hausti.

Í þriðja lagi segir fiskifræðingurinn í umræddri grein: „Grugg frá botnvörpu fælir hvorki fiskinn burtu né drepur hann.“ Það hefur komið fram, eins og bent er á í greininni, að menn óttast það, að það rask, sem muni eiga sér stað á hafsbotninum við að botnvarpa fer þar yfir, kunni að fæla fiskinn af svæðinu. Þetta telur hann, að fái ekki staðizt, og bendir m. a. s. á, að það hafi greinilega sýnt sig, að sums staðar, þar sem tilraunir hafi verið gerðar með þetta, hafi fiskurinn frekar sótt í það grugg, sem verður, til ætisöflunar eða ætisleitar, en að það hafi fælt hann í burtu.

Í fjórða lagi segir fiskifræðingurinn: „Hagkvæmara mun vera að veiða fisk með botnvörpu en þorskanetum á vetrarvertíð sunnan- og vestanlands. Ástæðurnar fyrir því eru: a. Hráefnið verður betra. b. Útgerðarkostnaður verður minni.“ Ég tel að þarna sé að nokkru leyti komið að kjarna málsins, þegar hv. Alþ. fer að meta það, hvort slaka á til í sambandi við botnvörpuveiðar. Það er ekki aðeins, að verulegar tilslakanir, eins og hér er lagt til í till. okkar, mundu auka fiskmagnið, heldur er það staðreynd, sem hver einasti útgerðarmaður og allir sjómenn þekkja, sem staðið hafa að þessum veiðum, að þarna er ekki einasta um kannske bezta hráefnið að ræða fyrir utan línu- og handfærafisk, heldur einnig ódýrasta hráefnið. Og það, sem ég vil sérstaklega benda einnig á í þessu sambandi og mér er persónulega kunnugt um, er, að í botnvörpuna fæst a.m.k. við suðurströndina miklu fjölbreytilegra hráefni yfir sumartímann en í nokkurt annað veiðarfæri. Það koma þar svo að segja allar tegundir fiska — nytjafiska, sem um er að ræða, að unnir séu til útflutnings, og þetta hefur geysilega þýðingu fyrir þær fiskvinnslustöðvar, sem þar eru, að fá sem fjölbreyttast hráefni. bæði gerir það þeirra framleiðslu seljanlegri og einnig er hið margbreytilega hráefni, sem á land kemur, til mjög mikillar atvinnuaukningar. Ég tel að fiskifræðingurinn komi þarna að verulegu leyti að aðalkjarna málsins í sambandi við auknar heimildir til botnvörpuveiða.

Og í fimmta og síðasta lagi segir hann: „Viss svæði á hrygningarstöðvunum, þar sem botninn er harður og ósléttur, hljóta friðun, og engin veiðarfæri eru í sjó, þegar landlegur eru.“ Hann á þar við, sem rétt er, að botnvarpan er tekin upp, um leið og veiðum er hætt. Þessi veiði er yfirleitt ekki stunduð af vélbátum nema á mjúkum botni og sléttum. Það er frábrigðilegt og undantekning, ef þessir bátar fara nokkuð sem heitir yfir það, sem kallaður er harður botn og hinir stærri togarar hafa þó aðstöðu til að fara yfir. Vélar þeirra eru það kraftlitlar og veiðarfærin í flestum tilfellum þannig útbúin. að þeir reikna aðeins með veiðum og stunda aðeins veiðar á sléttum botni, þar sem ekki er um hrygningarstöðvar að ræða — a.m.k. ekki hrygningarstöðvar þorsksins, því að þær eru, eins og allir vita, á hrauni og við hraunkanta.

Ég vil undirstrika það, að ég teldi það mjög þess virði nú, þegar þetta mál er í athugun hér á hv. Alþ.,þm. — ef þeir hafa ekki þegar gert það — kynntu sér þessa grein fiskifræðingsins, því að hún er, eins og ég sagði, rituð af hlutlausum aðila, sem er fræðimaður — maður, sem hefur bókstaflega kynnt sér málið með þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið af Fiskifélaginu og Hafrannsóknastofnuninni í þessu sambandi. Ég tel ekki, að hans niðurstöður verði vefengdar hvorki af mér né öðrum, sem ekki hafa sérþekkingu á þessum málum.

Þá vil ég benda á það af sérstökum ástæðum, að ráðh. hefur það vissulega í hendi sér að friða einstök svæði. þó að till. okkar yrðu samþykktar eins og þær liggja fyrir. Er þar helzt um að ræða að sjálfsögðu hrygningarsvæði og þá einnig einstök friðunarsvæði við suðurströndina, sem þarf að friða fyrir botnvörpu þann tíma, sem netaveiðar eru stundaðar. Þetta hefur hæstv. ráðh. alveg í hendi sér. Þó að frv. yrði samþykkt og fram kæmu rökstuddar og einróma óskir frá einhverjum aðilum um viss svæði, þá gæti hann vissulega tekið það fyllilega til greina. En ég tel þó, að eftir þeim upplýsingum, sem ég hef hlustað á hjá hv. alþm. og komið hafa fram hjá skipstjórnarmönnum og sjómönnum í þessu sambandi, þá gera þeir ekki mikið úr því, að árekstur þurfi að verða á milli vélbáta. sem togveiðar stunda og netabáta. Þeir töldu, að sú reynsla, sem komin væri á þetta á svæðinu frá Reykjanesi að Vestmannaeyjum á undanförnum vertíðum, sýndi ljóslega, að ekki væri ástæða til að óttast neitt í þessu sambandi. Það er almennt álit sjómanna, að skipstjórnarmenn og sjómenn eigi að vera sem mest óbundnir af því, hvaða veiðarfæri þeir nota á hverjum tíma og hverjum stað að sjálfsögðu eftir því, sem lög leyfa. Einkum má á það benda, að um veiðarfæri í sjó gilda alþjóðareglur, þannig að net, sem lögð hafa verið í sjó, helgi ákveðinn rétt, og ef þau eru eyðilögð með öðrum veiðarfærum, þá verður sá aðili, sem því tjóni veldur, samkvæmt lögum skaðabótaskyldur.

Að lokum vil ég leggja áherzlu á það, sem ég veit ekki, hvort hv. alþm. hafa almennt gert sér ljóst. Á meðan verið er að vinna að málinu í heild, eins og ég gat um, að skipuð nefnd væri að, þá tel ég nauðsynlegt, að nokkur reynsla fáist af þeim tilslökunum, sem gerðar hafa verið. Ég tel það mikils virði bæði fyrir n. og hv. Alþ., þegar að því kemur að gera sér grein fyrir málinu í heild, að komin sé reynsla á það, og þessi reynsla ætti að fást í vetur, ef þetta frv. verður samþ. Vel má vera, að svo fari. Ég skal ekkert um það dæma fyrir fram. En vel má vera, að í einhverjum tilfellum sýni það sig. að þarna þurfi að gera aðrar ráðstafanir en við hér leggjum til að það verði kannske um örtröð á veiðisvæðunum að ræða og árekstra, sem ég nú ekki sé fyrir. Annað eins getur komið upp, sem við ekki sjáum fyrir nú, en persónulega mundi ég telja það mjög gott fyrir hv. Alþ. og þá n., sem um þetta mál fjallar. að það fengist reynsla á það í vetur þennan tíma, sem frv. gerir ráð fyrir, að veiðin nái yfir — frá 1. jan. til 30. marz. hvaða áhrif verulegar tilslakanir, eins og um er að ræða hér við suðurströndina hefðu. Það yrði örugglega að mínum dómi til hagræðis fyrir alla aðila, þegar að því kemur, að við þurfum í heild að fara að gera okkur grein fyrir málinu. því að ég er alveg sannfærður um það, að að því kemur. að Alþ. verður og hlýtur að stíga spor í sambandi við eðlilega og nauðsynlega hagnýtingu þeirra veiðisvæða, sem innan fiskveiðilandhelginnar eru. Ég hef alltaf sagt og hef sagt það hér áður úr þessum ræðustól. að ég tel að þetta hafi dregizt of lengi. Það má vel vera, að það sé ekki rétt niðurstaða hjá mér, en það er mín skoðun, að það hafi dregizt of lengi.

En ég er sannfærður um það, að hv. Alþ. hlýtur innan mjög stutts tíma að taka þetta mál í heild til athugunar. því að eigi fiskiðnaður að þróast áfram hér á landi, þá hlýtur það að gerast. Víða um land er það svo, að þá vil ég segja bæði á Norður- og Suðurlandi — ég undanskil Vestfjarðafjórðung, því að allar skýrslur sýna, að þar geta menn aflað sér verulegs hráefnis með línu- og handfæraveiðum, og hann er því í sérstöðu og annars staðar á landinu, að hvorki línuveiðar, handfæraveiðar né netaveiðar verða stundaðar yfir sumartímann til hráefnisöflunar fyrir fiskvinnslustöðvarnar með neinum árangri. Útgerð báta, sem þessar veiðar stunda á vetrarvertíð með þessi veiðarfæri, hlýtur því að leggjast niður yfir sumartímann. Það þýðir aftur, að fiskvinnslustöðvunum víða um landið yrði hreinlega lokað mikinn hluta ársins og rekstrargrundvellinum bæði kippt undan bátaflotanum og fiskvinnslustöðvunum. Slíkt ástand mundi þjóðfélagið í heild ekki þola. Við höfum ekki efni á, að slíkt ástand skapaðist hvorki í styttri né lengri tíma. Ég tel því, að það hljóti að koma að því innan mjög stutts tíma, að hv. Alþ..taki þessi mál í heild til endurskoðunar og geri sér fulla grein fyrir, hvernig við getum hagnýtt fiskimiðin á sem arðvænlegastan hátt fyrir þjóðarheildina, og ég tel, að ástandið nú sé þannig, að ekki verði hjá því komizt að samþykkja einhverjar bráðabirgðaráðstafanir, eins og frv. okkar gerir ráð fyrir. Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.