14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1623 í B-deild Alþingistíðinda. (1750)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Ég skil ekki vel afstöðu þessara virðulegu nm. Mér skilst á málflutningi þeirra, að þeir líti svo á, að það sé komið aftan að sér á einhvern hátt og n. sé á einhvern hátt sýnd lítilsvirðing. Þetta er fjarri því. Frv. er alveg tímabundið, og það er tímabundið vegna þess, að það er ætlazt til, að n. hafi aðstöðu til að starfa á þessu tímabili. Ég hygg, að þeim veiti ekkert af þessum 4 mánuðum — eða hvað það nú er — til þess að undirbúa sínar till., og ef þeir koma með þær fyrr, er það allt í lagi. Þá eru þær lagðar fyrir þingið og verða samþ. sem lög, og þar með er þetta frv. fallið úr sögunni. Þeir geta lagt það fram í janúarlok. Það er ekki sennilegt, að þingið komi hér saman fyrr en í janúarlok, og ætli það veiti af 1–2 mánuðum til að ræða það og undirbúa. Annars vona ég, að þeim takist vel í sínum störfum og þeir komi með viturlegar till., en ég er nú enginn spámaður. En ég hygg samt, að þeim takist aldrei að koma með till., sem allir eru ánægðir með. Það geta orðið einhverjar deilur um það frv., sem þeir koma með, bæði meðal okkar og eins úti í byggðunum. Ég hygg nefnilega, að engin n. og enginn maður geti komið með till., sem allir telja réttlátar og skynsamlegar í þessu máli. En að við séum á einhvern hátt að gera lítið úr störfum þeirra; það er fjarri því. Og við höfum ekki verið með neinar árásir á þeirra starfshætti.

Það er engin ástæða til að kenna einstökum nm. um, hvað þessi störf hafa dregizt. Ef á að kenna einhverjum um það, er það sjútvmrh. og þá helzt formaður n., sem ekki hafa hafið störf fyrr. Það er enginn að vanþakka störf nm. eða ráðast á þá. Það er fjarri því. Þetta er aðeins bráðabirgðalausn, og það má deila um, hvort ekki hefði verið hægt að komast hjá þeim atvikum, sem hafa valdið því, að nauðsyn er að leysa þetta mál nú. En úr því, sem komið er, er það tilgangslaust. Við þurfum að leysa þetta mál og leysa það strax. Það má vel vera, að hefði ekki verið farið að náða þessa lögbrjóta og hefðu þessir 4 bátar ekki verið að toga fyrir utan gluggann hjá Landhelgisgæzlunni, þá hefði þetta ekki komið til. Allt hefði verið, eins og það var. En þetta bara skeði. Landhelgisbrjótarnir voru náðaðir, en hinir toguðu. Þeim var refsað — eða afli og veiðarfæri tekin af þeim, að mér skilst. Þeir hafa enga peninga til þess að innleysa veiðarfærin og borga sektirnar. Við vitum ósköp vel, hvernig fjárhag bátanna er háttað nú, og ef á að breyta þannig við þessa fjóra, þá verður að sjálfsögðu að gera það við aðra. Það er nú þetta, sem hefur skapað þessa aðstöðu, og vandinn er fyrir hendi og hann verður að leysa. Vestmanneyingar eru búnir að binda sína 40 báta og fara ekki á sjó fyrr en þeim er leyft annaðhvort að toga, eins og þeir hafa gert, og leyft að brjóta lögin eða einhver breyting er á gerð. Og vilja þessir menn, sem vilja fresta málinu, bera ábyrgð á því? Bátseigendur sjálfir segjast ekki hafa efni á þessu. Þeir hafi ekki efni á að bíða aðgerðarlausir. Ég lít þannig á, að þetta sé hlutur, sem við þurfum að leysa.

Við vitum, hvernig það er, þegar einstakir menn koma með frv. í þingið. Ég er nú ekki gamall þm., en ég hef fengið að sjá það, að það má heita ógerlegt að koma fram máli. Það er alveg án tillits til þess, hvort það er skynsamlegt eða ekki. Ef einstakir þm. koma með eitthvað, er það venjulega svæft, nema það sé þá alveg einskis virði og það sé þá gert fyrir þá að lofa því að fljóta í gegn — þáltill. eða eitthvað slíkt, sem ekkert er svo gert með. Þannig er nú ástandið í þinginu, og ég tel þetta dálítið vafasaman hlut. Ég sé ekki að neinn þurfi að vera móðgaður á nokkurn hátt, þó að það sé ekki hægt að ræða við alla þm., áður en frv. er borið fram t. d. eins og þetta frv. Það er lagt fram af nokkrum mönnum. Það er ætlazt til, að það fari í n. Það hefur víst enginn okkar lýst því yfir, að við getum ekki gengið inn á breytingar. Ég fyrir mitt leyti sagði meðflm. mínum það strax, að persónulega óskaði ég eftir, að vissum ákvæðum væri breytt í frv. eins og það liggur fyrir. En við vitum það, að þótt einhver einn maður vilji eitthvað í 60 manna hóp, getur hann ekki ætlazt til þess að fá algerlega að ráða. Og það er mér vel ljóst.

Ég lagði fram frv. um lausn á þessu fyrir þremur árum. Tvisvar var það svæft, en svo stóð dómsmrh. upp, þegar ég kom með það í annað eða þriðja skipti, og lýsti því yfir, að þetta væri nauðsynjamál og þetta þyrfti að leysa, enda er hann manna sanngjarnastur og samvinnuþýðastur. Ég held, að vegna stuðnings dómsmrh. hafi óbeint komið þessi nefndarskipun. Við vorum, held ég, þrír í sjútvn. í fyrra, sem breyttum þessu frv., sem ég lagði upphaflega fram, og bættum inn í það. Ég taldi það raunar ekki til bóta, en ég gekk inn á það. Við lögðum þetta fram hér í fyrra. Það fékkst ekki samstaða um það m. a. af því, að hæstv. sjútvmrh. var á móti því, að þetta væru heimildarlög, og mér skildist, að hann væri því alls ekki fylgjandi, að hann kærði sig ekkert um að hafa þetta vald og óskaði eftir því, að þetta væri ákveðnara og hann þyrfti minni ábyrgð að bera á framkvæmdunum.

Ég held nefnilega, að það sé þannig með þessa landhelgislöggjöf, að við verðum að þreifa okkur áfram. Það getur enginn maður fullyrt í dag, hvað hagkvæmt er að gera t. d. eftir nokkur ár. Reynslan verður að skera úr í því efni, og ég held, að það sé þannig með landhelgina eins og með túnin okkar, að við þurfum að rækta hana á skynsamlegan hátt og nytja á skynsamlegan hátt. Og það er ómögulegt hvað lengi, sem þessi virðulega nefnd starfar, þá getur hún aldrei komið með þannig frv., að það sé hægt að fullyrða, að það sé varanleg lausn á málinu. Og við getum aldrei samþ. frv. um efni líkt og þetta, þannig að við getum ekki búizt við, að reynslan sýni, að hagkvæmt sé að breyta því á einhvern hátt. Við skulum ekki vera að gera okkur svo stóra.

Í þessu frv. er miðað við þriggja mílna takmörk frá strönd á Suðurlandi og fjögurra mílna takmörk fyrir norðan frá yztu annesjum, eins og gamla grunnlínan var, og viðvíkjandi því vil ég benda þessum mönnum á, sem eru að tala á móti þessu, að þetta er miklu meiri friðun en var, því að þeir fóru um allt alveg upp undir kálgarðana. Og ef einhvers staðar var einhver hraunlaus blettur hér á vestursvæðinu, var togað á honum. Þetta er þó friðun frá því, sem verið hefur, þannig að ástandið ætti að verða betra en það hefur verið undanfarin ár. Hitt má svo um deila — og persónulega hafði ég þá skoðun, að réttast væri að friða fyrir togi svæðið vestan við Vestmannaeyjar síðari hluta vetrar a. m. k., hvað sem um sumartímann er. Við lítum svo á, að þar ættu netabátarnir að fá þá aðstöðu, og eins er það með aðalhrygningarsvæðin. Raunar er það hraunið, sem verndar hrygningarsvæðin. Það vitum við, og sennilega væri allt annað ástand í okkar fiskveiðimálum, ef hraunið væri ekki til þess að forða frá því, að það væri togað á þeim svæðum. En þetta er allt atriði, sem þarf að athuga.

Viðvíkjandi Norðurlandi skal ég taka það fram, að ég legg ekkert sérstakt kapp á, að það sé neitt ákveðið um það nú. Ég lít svo á, að það skipti þá ekki miklu máli í vetur. Ég hygg, að þeir skjótist inn fyrir línuna, þegar ísinn kemur, eins og þeir gerðu s. l. vetur, hvort sem við samþykkjum þetta frv. eða ekki. Hitt er mér ljóst, og ég er búinn að tala um það ár eftir ár í Norðurl. v., að þeir gætu aldrei fengið hráefni að sumrinu og ekki nema takmarkað að vetrinum nema með togveiðum. Fyrst voru allir á móti þessu. Reynslan hefur bara sýnt, að þetta er satt. Nú fóru þeir að nota togbát í sumar á Sauðárkróki, og fólkið hafði nóga vinnu — líka á Skagaströnd — og hefur haft miklu meiri atvinnu heldur en vanalega. Á Siglufirði hefur alltaf verið gert dálítið af því að veiða í tog, og á Hofsósi eru þegar hafnar tilraunir til að fá togskip. Togveiðar fyrir Norðurl. v. eru frumskilyrði fyrir atvinnulífi í byggðunum. Hitt er svo annað mál að þessir bátar þurfa ekki að veiða innan landhelgi á sumrin. Það, sem vakti fyrir mér, þegar ég kom með frv. upphaflega, var, að það væru veittar einhverjar undanþágur að vetrinum. Þá eiga bátar af takmarkaðri stærð erfitt með að fara lengst út í haf. Og það ætti að vera hægt án þess að eyðileggja fiskstofninn.

Annað er það, að það getur vel komið til greina, og þessi n. ætti að athuga það, hvort það gæti ekki komið til greina, að hafa möskvastærðina stærri en verið hefur, því að ég sé ekki ástæðu til að við séum að veiða smáfiskinn, þegar ástandið er þannig hjá fiskvinnslustöðvunum, að þær vilja helzt komast hjá því að vinna hann eins og var t. d. fyrir norðan í sumar. Það borgaði sig ekki fyrir frystihúsin að kaupa hann, verðið var það hátt á minni fiskinum, og þeir tóku hann alls ekki, og þá var það vitleysa að halda sig á þeim svæðum, þar sem smáfiskurinn var.

Svo þurfum við að vernda fiskstofninn framvegis. Ég er ekki neinn sérfræðingur í þessum málum, og þær upplýsingar, sem ég hef, og sú litla þekking byggist á samtölum við menn, sem eru mér reyndari. Mér hefur skilizt það, að smáfiskurinn héldi sig mest út af Norðausturlandi uppvaxtarárin. Ég tel það mjög athugandi, að við ættum að hætta að veiða í dragnót eða a. m. k. að takmarka það miklu meira en gert hefur verið. Ég er alveg með Jóni Árnasyni í því, að við ættum. að friða Faxaflóasvæðið alveg. Þessu verður reynslan að skera úr. Ég álít, að stjórnin á þessum málum hafi ekki verið nógu góð, og það er ósæmilegt af Alþ. að hafa látið það viðgangast að geta ekki komið sér saman um einhverja skynsamlega lausn á þessu og láta flesta brjóta lögin. Þegar bátarnir gera það, er þá ekki eins eðlilegt, að stóru togararnir geri það líka. Það er ekki sæmandi fyrir þing og stjórn að haga löggjöfinni þannig, að fleiri tugir báta þverbrjóti lögin og það sé orðin hefð að brjóta þau. Ef lögin eru þannig, að það sé ekki hægt að fara eftir þeim, þá á að breyta þeim. Og þingið hefði auðvitað átt að vera búið að þessu. Þetta er ekki sæmandi fyrir okkur.

Svo er að nýta landhelgina. Mér er sagt, að í fjörðunum á Norðausturlandi sé mikið af kola og hann sé hægt að selja vissa tíma ársins, og við vitum, að í vetur var salan í Englandi óvenjulega góð. Þarna eru verðmæti, sem ekki eru fullnýtt. Þessu þarf að stjórna. Það þarf að veita vissri tölu báta heimild til þess að stunda þessar veiðar og stunda þær á skynsamlegan hátt, og mér er sagt, að koli muni frekar óþarfur þegar mikið er af honum. Sjálfsagt er að nýta kolann á skynsamlegan hátt. Fjarstæða er, eins og var gert fyrir Norðausturlandi, þegar dregið var með síldarnætur að veiða þorsk, að taka smáþorskinn í næturnar og verða að henda miklu af honum. Þetta er þó algerlega bannað. Og það er ekki von, að sjútvmrh. persónulega geti stjórnað þessu. Ég held, að í framtíðinni ætti það að vera þannig, að hann hefði í þjónustu sinni einhvern sérfróðan mann, sem gæti sinnt þessu og veitt undanþágurnar. Þetta væri maður, sem starfaði utan við alla stjórnmálaflokka og gæti þess vegna starfað áfram, þó að það yrðu ráðherraskipti. Þetta væri sérfróður maður. Það er víst margt embættið óþarfara en að hafa mann, sem stjórnaði þessum málum og veitti þær undanþágur, sem heimilt væri — ef það væri skynsamlegt — í samráði við okkar sérfræðinga í þessum málum. Þetta eru allt hlutir, sem þurfa að koma, og reynslan þarf að skera úr, á hvern hátt hagkvæmast er að framkvæma þá.

En hvað sem þessu öllu líður, er það frv., sem við flytjum nú, bráðabirgðalausn á málinu og til að leysa málið, meðan n. er að starfa. Þess vegna get ég ómögulega skilið, hvers vegna nm. taka þetta óstinnt upp, eins og það sé einhver árás á þeirra starf. Það er svo fjarri því. Það er ekkert verið að deila á þá, og þeir geta unnið í næði fyrir þessu og m. a. s. betra næði. Þeir geta farið sér hægar og ráðgazt meira við menn úti á landi. En þó að þeir kalli saman allar mögulegar nefndir og geri allt það bezta, sem þeir geta, munu þeir aldrei koma með nokkurt frv. þannig, að allir verði ánægðir með það og engar deilur verði um það. Og það eru ekkert meiri deilur, sem verða um þetta frv., en þó að þeir hefðu komið hér með frv. inn í þingið og lagt það fram. Það mundu verða einhverjar deilur og einhver óánægja með það. En þarna er mál sem þarf að leysa. Það má vera, að það hefði verið hægt að komast hjá því, en það er enginn alvitur, og við verðum að taka hlutina, eins og þeir eru núna. Það er búið að binda fleiri tugi báta, og þeir vilja ekki fara af stað með þá, nema einhver lausn fáist á þessu, sem ekki er von raunar. Þeir hafa engin efni á að láta taka af sér veiðarfærin og aflann og sekta sig. Það er ekki sæmandi fyrir okkur að leysa þetta ekki á einhvern hátt.

Ég lít svo á, að þetta sé algerlega ópólitískt mál. því að það er sama, hvaða ríkisstj. er, fólkið verður að lifa í landinu, og það verður að geta unnið sín störf, þannig að ég lít ekki þannig á, að þetta sé á nokkurn hátt pólitískt mál. En við erum búnir að draga ósæmilega lengi að leysa þennan hlut, og ég held, að við kórónuðum það allt saman, ef við hlypum nú heim í jólafríið án þess að hafa manndóm til þess að taka á nokkurn hátt afstöðu til þessa máls. Verði þessi till. okkar felld, verður hún felld. Það er ekki okkar sök. Þá taka þeir ábyrgðina á sig, sem fella hana.