14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1627 í B-deild Alþingistíðinda. (1751)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 145, mun væntanlega koma til n., sem ég á sæti í, og get ég þar komið fram þeim sjónarmiðum, sem mér býður við að horfa í þessu máli. En ég vildi þó ekki láta 1. umr. málsins líða svo, að ég gerði ekki örfáar aths. í tilefni af flutningi þessa máls, en það verður mjög stutt, herra forseti.

Ég býst við, að engum hv. þm. dyljist, að landhelgismálið er mjög vandmeðfarið og á því eru margar hliðar. Ég vil fyrst nefna þá hlið, sem ég hygg, að enginn hv. ræðumaður hafi enn þá nefnt í þessum umr., sem fram hafa farið, en það er samhengið milli nútíðar og fortíðar í landhelgismálinu og þó ekki hvað sízt samhengið milli fortíðar og framtíðar. Við vitum það allir, að við þurftum mikið fyrir því að hafa að færa landhelgina út í 12 mílur miðað við þá grunnlínustaði, sem nú eru í gildi. Þetta kostaði langa og harða baráttu, og þá baráttu byggðum við á því sjónarmiði, að það væri landi og þjóð lífsnauðsyn að friða fiskimiðin næst ströndum landsins. Við vitum það líka, að það er í fullu gildi samþykkt, sem hv. Alþ. hefur gert um áframhald þessarar baráttu — áframhald, sem miðar að því að fá allt landgrunnið umhverfis landið friðað. Ég lít þess vegna þannig á, að allt, sem við gerum í landhelgismálinu, verðum við að miða við það, hvernig áhrif það hefur í þessu sambandi. Getur það skaðað málstað okkar við frekari aðgerðir við útfærslu landhelginnar, eða skiptir það engu máli?

Ég álít, að einhvern mesta sigur í landhelgismálinu hafi Íslendingar unnið með útfærslunni í 4 mílur, þegar grunnlínupunktarnir, sem þá voru ákveðnir, voru settir. Með þeirri aðgerð var í raun og veru stigið stærsta sporið í landhelgismálinu. Þá voru helztu flóar og firðir allt í kringum landið friðaðir, og mér er það mjög til efs, að það sé æskilegt spor í landhelgismálinu að ganga svo langt til móts við þá, sem nú heimta aukin réttindi til togveiða í landhelgi, að fara inn fyrir 4 mílur frá þeim grunnlínustöðum, sem nú gilda. En í því frv., sem hér liggur fyrir til umr., er gert ráð fyrir, að á Húnaflóa verði leyfðar togveiðar í landhelgi miðað við grunnlínupunkta, sem í gildi voru til 1. sept. 1958. Reyndar er lengra gengið í þessu efni, að því er tekur til suðurstrandarinnar. Þar er gert ráð fyrir, að farið verði allt upp að 3 sjómílum frá strandlengju.

Nú skal ég taka það fram, að mér er það vel ljóst, að staðhættir á hinum ýmsu stöðum á landinu eru ekki alls staðar þeir sömu. Þeir eru mjög breytilegir. Það er ekki sama aðstaða t. d. við Vestfirði eins og við suðurströndina einfaldlega vegna þess, hvernig landið er í lögun. Ég get vel skilið óskir þeirra sjómanna og útgerðarmanna við suðurströndina, sem telja sér ekki nægja minna en það, sem kallað hefur verið manna á milli að fara alla leið upp í kálgarðana. En þá kemur þetta, sem ég nefndi áðan, að við verðum að skoða þessa hluti í samhengi. Við höfum einsett okkur að vinna að því áfram — og ríkisstj. Íslands hefur unnið að því — að undirbúa nýja sókn í landhelgismálinu. Við höfum einsett okkur að vinna að því að fá allt landgrunnið friðað, og mér finnst þess vegna spurningin vera þessi: Geta ekki aðgerðir eins og þessar skaðað okkur í því máli? Ég mun þess vegna, þegar þetta mál kemur til hv. sjútvn., óska eftir því, að á fundi n. mæti sérfræðingar ríkisstj. í alþjóðarétti til þess að láta í ljós álit sitt á þessu atriði. Mín afstaða til þess, hvort komið verði til móts við óskir manna hér við suðurströndina að þessu leyti, mun byggjast á því, hvaða upplýsingar við fáum frá sérfræðingi ríkisstj. í alþjóðarétti. Varðandi Húnaflóa tel ég ekki koma til mála að taka upp grunnlínupunktana, sem í gildi voru til 1. sept. 1958, og mun reyna í sjútvn. hv. d. að fá því ákvæði frv. breytt.

Annað atriði, sem snertir Vestfirðina í þessu máli, er það, að takmörkin, sem togveiðarnar miðast við, eru miðuð við línu, sem á að vera dregin beint í norður frá Horni. Ég áskil mér einnig rétt til að flytja brtt. við það ákvæði að færa þá línu norðar. Eftir núgildandi reglum um grunnlínustaði hygg ég, að næsti grunnlínupunktur þar fyrir austan sé Skagatá. Ég viðurkenni fúslega, að auk þess, sem það er vandamál fyrir fiskvinnslustöðvar og einstök byggðarlög eins og Vestmannaeyjar og Grindavík, að fiskimiðin þar í nánd séu hagnýtt á sem skynsamlegastan hátt, hvort heldur er með togveiðum eða á annan hátt, þá er líka um að ræða í sambandi við þetta mál mikinn vanda allt í kringum landið hjá bátum, sem byggðir voru upphaflega fyrir síldveiðar. Látum okkur segja, að þetta séu allt að 200 tonna bátar, sem nú eru orðnir of litlir til að stunda þær veiðar, eftir að síldin hefur fjarlægzt landið eins mikið og raun ber vitni. Ég tel að við verðum í sambandi við þetta mál að skoða einnig vanda þessara báta.

Það hefur verið deilt um það hér, hvort störf stjórnskipuðu nefndarinnar, sem hefur haft þetta mál til athugunar, væru ekki trufluð með flutningi þessa frv., og sumir hv. ræðumenn hafa tekið svo djúpt í árinni að segja, að þeir teldu, að með flutningi þessa frv. væri nefndarstörfunum í raun og veru lokið. Ég get nú ekki alveg fallizt á þetta sjónarmið. Ég álít, að við verðum, eins og ástandið er, að skoða þetta mál mjög vandlega og athuga, hvort ekki sé hægt að komast að einhverri niðurstöðu, sem geti gilt til bráðabirgða. Eins og atvinnuástandið er í landinu, getum við ekki skotið okkur undan þessum vanda, þó að hann sé mikill. eins og ég hef tekið fram. Ég veit, að öllum hv. alþm. er ljóst, að þetta mál er ákaflega vandleyst, þannig að hvort tveggja sé gert að leysa vandamál augnabliksins, ef svo mætti segja, og halda í horfinu með áframhaldandi sókn í málinu. Þennan vanda, álít ég, að Alþ. komist ekki hjá að glíma við, og ég skal þess vegna ekki skorast undan því að fjalla um þetta frv. í sjútvn., þótt tíminn til þess sé naumur.

Ég vil samt vænta þess, að landhelgismálanefndin, sem hæstv. ríkisstj. hefur skipað, verði látin halda áfram störfum. Þótt okkur takist að komast að einhverri niðurstöðu — sem mjög æskilegt væri, að víðtæk samstaða næðist um, þ. e. um þessa bráðabirgðalausn — þá álít ég, að það eigi að halda áfram að vinna að málinu á þeim grundvelli, sem landhelgismálanefndin hefur þegar lagt með víðtækri upplýsingasöfnun og viðræðum við þá aðila, sem mestra hagsmuna eiga að gæta.

En allt, sem við gerum í þessu efni, verður að vera þannig fram sett af okkar hálfu, að við getum sannfært aðrar þjóðir um, að við stefnum að því hvort tveggja að vernda fiskstofnana við Ísland og hafa af þeim hámarksarð og við séum einfærir um það, en ætlum okkur ekki að eyða fiskstofnunum við Ísland. Ef svo fer, sem margir halda fram, að auknar togveiðar nær ströndinni þýði aukið dráp á smáfiski, þá hygg ég, að það sé verr af stað farið en heima setið. Við höfum verið að undirbúa till. um það á alþjóðavettvangi að fá friðuð stór svæði út af Norðurl. e., þar sem talið er, að séu uppeldisstöðvar ókynþroska fisks. Fiskifræðingar okkar hafa sýnt fram á, að það eru fyrst og fremst Englendingar, sem veiða þennan ungfisk í miklu stærra mæli en við, og við höfum þegar bent á hættuna, sem þessu er samfara. Það mundi ekki bæta okkar málstað að þessu leyti, ef við tækjum nú sjálfir upp á því að veiða ungfiskinn í enn þá stærra mæli en við höfum gert. Það hefur verið nefnt af hv. flm. þessa frv., að þeir væru til viðtals um það að setja í frv. ákvæði um aukna möskvastærð. Ég álít, að það sé skynsamleg till. og hana eigi að taka upp í sjútvn.