14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1632 í B-deild Alþingistíðinda. (1753)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Flm. (Guðlaugur Gíslason):

Herra forseti. Ég gerði allítarlega grein fyrir ástæðunni fyrir flutningi frv., um leið og frv. var lagt hér fyrir þessa hv. deild í gær, og einnig gerði ég þá grein fyrir efni frv. og ræddi þessi mál nokkuð í heild. Ég þarf því ekki að vera langorður um málið að þessu sinni, enda á ég sæti í sjútvn., þannig að mér gefst þar eins og öðrum nm. kostur á að gera enn ítarlegri grein fyrir málinu og koma þá við þeim sjónarmiðum, sem ég tel, að þar þurfi að koma til viðbótar.

Áður en ég geri grein fyrir þeirri till., sem flm. frv. hafa hér lagt fram á þskj. 177, eru það tvö atriði, sem ég vildi aðeins í örstuttu máli koma inn á: 1. Það hefur komið fram hér hjá a. m. k. tveimur — ef ekki þremur — hv. þm., að flutningur þessa frv. yrði til þess að torvelda störf þeirrar n., sem hæstv. sjútvmrh. skipaði með bréfi dagsettu 2. okt. Ég hélt, að ég hefði undirstrikað mjög ítarlega í framsöguræðu fyrir frv. í gær, að þetta er ekki hugmynd okkar, sem að frv. stöndum. Við teljum ekki, að nokkur sáttmáli um starfstilhögun n. hafi verið rofinn, heldur eigi og muni n. halda áfram að starfa á þeim grundáelli og eftir þeim reglum, sem hún sjálf hafði sett sér um þetta. Upplýsingasöfnun og fundahöld í einstökum kjördæmum eða hjá einstökum þm. geta alveg haldið áfram í jólafríinu eftir sem áður, þó að þetta frv. hafi verið lagt hér fram og þó að það yrði samþ., því að að því er stefnt að reyna að koma varanlegri heildarskipun á málið, en hér er aðeins um tímabundna bráðabirgðalausn að ræða. 2. Það hefur komið fram hér, að menn hafa látið í ljós efa um það, hvort ástæða hafi verið til að flytja þetta frv. Ég gerði einnig í framsögu grein fyrir ástæðunni fyrir flutningi frv. og þarf því ekki að vera langorður um það, en ég hygg þó, að það hljóti öllum alþm. að vera ljóst, að Alþ. getur ekki deilt á neinn ráðh., þó að hann framfylgi þeim l., sem Alþ. hefur sett. En þessi staðreynd lá fyrir eftir 1. des., að þetta verður gert, og flutningur frv. byggist mjög — það vil ég undirstrika — á samhljóða samþykkt aðalfundar L. Í. Ú., sem haldinn var 4.–6. des., þar sem þeir leggja höfuðáherzlu á það, að bráðabirgðalausn verði fundin á þessu máli nú þegar fyrir áramót.

Ástandið, sem skapazt hafði, og samþykkt landsfundar hlaut að vera og er ástæðan fyrir flutningi þessa frv. Till. sú, sem við flytjum á þskj. 177, er flutt til þess að undirstrika það enn frekar, sem við töldum þó, að í frv. væri. Ég sagði hér í framsögu í gær, að við teldum, að í frv. fælist heimild til ráðh. til að gera hvaða takmarkanir, sem eðlilegt væri að gera í sambandi við veiðar með botnvörpu. Hér hefur það komið fram bæði hjá hv. 1. þm. Austf. og einnig hjá hv. 4. þm. Austf., að þeir eru mjög uggandi yfir því, að á því netasvæði Austfjarðabáta eða á því netasvæði, sem Austfjarðabátar hafa mest stundað netaveiðar á að undanförnu, yrðu leyfðar togveiðar. Við tilgreinum í till., sem hér liggur fyrir, einmitt netasvæðið vestan Stokksness og ætlumst til, að það verði tekið sérstaklega til athugunar, þegar takmarka verður leyfi dragnótabáta á þeim svæðum, þar sem hætta er á, að árekstrar geti orðið milli neta- og botnvörpuveiða. Till. er beinlínis flutt til þess að undirstrika þetta, til þess að það fari ekkert á milli mála með það, að flm. meina það, að hæstv. sjútvmrh. geti bæði á þessum stað og annars staðar takmarkað veiði togbáta, ef það væri álitið, að hætta væri á árekstri milli þeirra og þeirra báta, sem veiða með netum.

Svæðið vestan Rauðanúps er tilgreint sérstaklega í till. vegna þess, að ábending hafði komið fram um það frá nokkrum hv. þm. úr Norðurl. e., að svæðið vestan Rauðanúps og allt vestur að Gjögurtá væri aðalveiðisvæði Húsavíkurbáta. Að áliti flm. gilti alveg sama um þetta og hið fyrra svæði, sem ég nefndi, að við töldum, að ráðh. hefði einurð til þess að gera ráðstafanir til verndar þessu svæði fyrir togveiðum, ef það væri talið nauðsynlegt. En við erum í till. að undirstrika það sérstaklega, að ráðh. hafi það í huga, þegar að því kemur að veita leyfin, að ábendingar og óskir hafa komið fram um þetta frá einstaka þm. og n. telur sjálfsagt, að þeim óskum verði mætt eftir því, sem ástæða þykir, eða eftir því, sem aðstæður eru til og eðlilegt kann að þykja.

Aðeins örfá orð viðvíkjandi því, sem hv. 5. þm. Vestf. sagði um tilganginn með friðun fiskveiðilandhelginnar. Ég hef oftar en einu sinni hlustað á einn aðila, sem kom þar nokkuð við sögu eða fylgdist mjög náið með því, þegar verið var að vinna að útfærslu landhelginnar í 12 mílur 1958. Ég hef hlustað á hann segja það oftar en einu sinni, að ein af röksemdunum fyrir því, að Íslendingar vildu fá þetta stóra svæði friðað, væri sú, að þeir yrðu afkomu þjóðarinnar vegna að hagnýta það sjálfir eftir þeim leiðum, sem þeir á hverjum tíma teldu þjóðinni fyrir beztu, þannig að ég hygg, að þá a. m. k. hafi legið fyrir, að það fari ekki milli mála, að þeim erlendu aðilum, sem þá var rætt við, hafi verið gert það ljóst, að Íslendingar mundu í framtíðinni nytja þetta svæði til bjargar þjóðinni, þannig að um það ættu varla að verða deilur.

Eins og ég sagði í upphafi, þarf ég ekki að tala lengra mál nú, því að þetta mál kemur vonandi fyrir þessa hv. d. aftur, þegar það er búið að vera í n., og gefst þá aðstaða til að ræða það frekar, ef ástæða er þá til. Ég bara vona, að hv. sjútvn. finni leið til þess að koma málunum þannig fyrir, að það þurfi ekki að vekja ótta manna við þessar aðgerðir og þurfi ekki að vekja frekar deilur um það en orðið hafa.