18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1642 í B-deild Alþingistíðinda. (1768)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Jón Árm. Héðinsson:

Herra forseti. Mér þykir rétt að segja hér nokkur orð í sambandi við þetta mál. þó að ég sé ekki flm. að málinu, eins og það kemur fyrir, þar sem það kemur frá Nd. Þó er málið að sumu leyti tengt þeirri n., sem skipuð var 2. okt. af hæstv. sjútvmrh. og kölluð hefur verið manna á meðal landhelgisn. Það mætti nú fjalla um breyt. á botnvörpu í hinni ísl. fiskveiðilögsögu í löngu máli, en tími er víst naumur, og ég mun þess vegna reyna að stikla á mjög stóru og aðeins drepa á örfá atriði. Það er öllum ljóst, sem fylgzt hafa með fiskveiðum okkar undanfarin ár, að mikil breyting hefur átt sér stað í útgerð bæði stórra og smárra skipa. Síldveiðin tók til sín stóran hluta flotans um tíma, síðan dvínaði hún, bátarnir áttu í vök að verjast með rekstur og menn hurfu þá að bolfiskveiðunum aftur. Línuveiði hafði farið þverrandi mörg undanfarin ár og hafði mjög dregið úr henni þegar árið 1960, en netaveiði vaxið hins vegar mjög mikið. Aftur á móti er kostnaður við netaveiðar allur mjög mikill og tekur til sín miklu fleiri menn um borð en togveiðin gerir. Nú hagar víða þannig til, að litlir bátar kunna að ná sæmilegum árangri á togveiðum, ef þeir fá að fiska á grynnra vatni, en þeir höfðu ekki tök á því að fiska á grynnra vatni nema fara inn fyrir hina ísl. fiskveiðilandhelgi. Hægt og bítandi seig í þá átt, að fjöldi manna fór inn í fiskveiðilögsöguna. Ekkert var að gert. Menn voru teknir og sektaðir, en síðan sat við það. Þessa sögu þekkja allir hv. þm. Ég þarf ekki að rekja hana mikið lengra, en þannig var komið, að mönnum víða af landinu, sem hugsa um þessi mál, fannst þetta orðið óþolandi ástand. Þá varð uppi hreyfing á s.l. þingi meðal nokkurra þm. að breyta landhelgislögunum í betra horf, að því er okkur fannst, sem vildum gera það, þ. e. að rýmka togveiðiheimildina í fiskveiðilögsögunni. Það náði ekki fram að ganga, en á móti var okkur lofað, að það yrði gerð sérstök athugun á þessum málum, og það er vonandi, að það gæti orðið svo fljótt, að sú athugun lægi fyrir á þessu þingi.

Í haust, 2. okt. s. l., skipaði hæstv. sjútvmrh. fimm manna n., og áttu sæti í þessari n. fulltrúar allra þingflokka, og var ég skipaður formaður umræddrar n. Mér þykir ástæða til að taka það fram hér, þó að ég vilji síður fara að munnhöggvast við kollega í Nd., að ekki er alls kostar rétt frá sagt hjá hæstv. þm. þar, Lúðvík Jósefssyni, er hann segir orðrétt um mig: „En honum vannst heldur ekki tími til þess að kalla saman þessa n. fyrr en 31. okt.“ Ég hafði reynt að ná n. saman, eins og ég sagði frá á fundi í Sþ. fyrir nokkru, en vegna anna bæði hans og annars nm. var það ekki hægt fyrr en 31. okt., þó að við hinir þrír í n. hefðum tök á því að koma fyrr saman. Það má deila um svona smáatriði í löngu máli, ef menn hafa ánægju af því, en mér þykir rétt að leiðrétta það. Ef menn vilja tína ýmislegt til sem miður hefur farið, eða finna að, þá geta menn gamnað sér við það, en ég sé ekki, að það færi lausn málsins miklu nær að vera með slíka hluti. Hins vegar var nm. öllum ljóst, að þetta mál þyrfti gaumgæfilega athugun, og ég er á því, eins og fram kemur í ræðu hv. þm„ að nauðsynlegt er að fara að öllu með gát. Við settum því upp ákveðna vinnuáætlun, sem flestum þm. er kunnugt, og stefndum að því að geta skilað áliti í byrjun febrúar. Ég vænti þess, að það muni takast, og við munum halda áfram að vinna í þessu máli, þó að þetta frv. komi fram.

Hins vegar breyttust nokkuð viðhorf og gangur mála við sakaruppgjöf 1. des„ og þess vegna komu fram víða ályktanir, að það þyrfti að gera eitthvað til bráðabirgða, og ég reikna með, að umrætt frv. sé árangur af því, að menn töldu sér margir hverjir ekki fært annað en reyna að leysa málið til bráðabirgða, því að hin lausnin er miklu víðtækari og þarf að ná yfir fiskveiðilögsöguna alla eftir erindisbréfinu og með henni þarf að taka tillit til hagnýtingar fiskveiðilögsögunnar, auðvitað mismunandi veiðiaðferða, kostnaðar og þar fram eftir götunum og gæða fisksins. Engu að síður held ég miðað við það, sem ég hef heyrt og séð í n. og á fundum nokkuð víða og fengið að vita í fjölmörgum símtölum, að þetta sé skref í rétta átt til að leysa mikið vandamál sérstaklega hér sunnanlands og að verulegu leyti fyrir Norðurlandi einnig. En þess er að gæta, að hagsmunir manna fara ekki alls staðar saman, og því er málið alltaf viðkvæmt. Með þeirri brtt., sem liggur fyrir á þskj. 191, sýnist mér, að það sé gengið verulega til móts við þá, sem eru hræddari og kunna að óttast, að þeir beri skarðan hlut frá borði, ef aukning á togveiðum verður fyrir hendi. Ég held, að Hafrannsóknastofnunin og Fiskifélag Íslands ættu að geta gert skynsamlegar till., eins og gert er ráð fyrir í brtt. til hæstv. ráðh. um að nýta þessa spildu, sem við viljum auka togveiðar á með fullri gætni og með fullkominni varúð, þannig að ekki verði leiðindaárekstrar.

Okkur er það öllum ljóst, að stór hluti bátaflotans verður að sækja á þessi mið og ódýrasta og bezta hráefnið fæst með toginu. Það mundi skapa víða verulegt atvinnuleysi, ef þessir bátar fengju ekki að njóta sín, og þó að erfitt sé að setja ákveðin mörk um stærð bátanna — 200 tonn fremur en eitthvað minna eða eitthvað stærra — þá er þetta málamiðlunartill. í bili, því að það er mjög viðkvæmt mál gagnvart þegnum landsins að segja: Þú skalt fá að starfa hérna, en ekki þarna. Engu að síður held ég, að það sé hægt að sætta sig við 200 tonna stærðarmörkin í bili, þó að ég fullyrði ekkert um það, hvaða stærðarmörk — ef einhver verða — landhelgisnefndin mun setja fram á sínum tíma.

Ég tel ekki ástæðu til að fara að lesa upp ýmsar samþykktir, sem maður hefur fengið um það að flýta þessu, þ. e. að koma bráðabirgðalausn til leiðar, því að það er óhugsandi, að við getum í þessari n. náð skyndilega niðurstöðu, sem við mættum vel við una. Við höfum sett okkur það takmark að hafa hagsmuni sem flestra í huga og leita þess vegna eftir ráðum vítt um land, fá menn á fundi annaðhvort hingað eða ferðast til þeirra út um land og heyra viðhorf þeirra. En ég held, að það sé rétt að stuðla að því, að þessi lausn náist fram, eins og hún liggur fyrir núna, og vil því ekki tefja umr. lengi, en vænti þess, að málinu verði vísað áfram til hæstv. sjútvn.