18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1769)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Það hefur verið á það minnt hér af hv. 5. landsk. þm„ að tíminn væri nú naumur á hv. Alþ. og það væri helzt ekki ástæða til þess að ræða málin af þeim sökum. Þetta hefur verið undirstrikað með því, að ekki hefur verið unnt að ræða þetta mál í samhengi, heldur hefur orðið að fresta umr. um það hér til þess að afgreiða sjö stjórnarfrv. á hálftíma að mestu leyti án nokkurrar framsögu af hálfu þeirra, sem þau flytja, þ. e. hæstv. ráðh. Þrátt fyrir þessar augljósu annir og það flaustur, sem þessi vinnubrögð sýna á afgreiðslu mála hér á hv. Alþ. nú síðustu dagana, ætla ég að leyfa mér að ræða þetta mikilsverða mál. sem hér er til umr., með nokkrum orðum og tel mig ekki þurfa að biðja afsökunar á því svo mikilsvert sem þetta mál er.

Það hefur verið rakið hér að vísu í örstuttu máli, hver aðdragandinn er að flutningi þessa frv. Eins og allir hv. dm. vita, hefur þetta mál verið mikið vandamál og deilumál á undanförnum árum, þ. e. að hve miklu leyti þætti fært að hagnýta landhelgina til fiskveiða og hvernig þeim málum yrði fyrir komið. Og ég minnist þess, að á þeim stutta tíma, sem ég hef átt sæti hér á Alþ., hafa margsinnis verið fluttar till. um það af stjórnarandstæðingum — og ég hygg þó oftast framsóknarmönnum — að settar yrðu niður nefndir til þess að skoða þessi mál í heild. Á þetta hefur ekki verið fallizt. Það hefur ekki þótt ástæða til þess lengi vel a. m. k., að nein sameiginleg athugun á vegum þingflokkanna færi fram á þessu merka máli. Í fyrra, held ég, að það hafi verið, sem mjög margir þm. á þeim svæðum a. m. k., þar sem þessi mál eru kannske hvað viðkvæmust, fengu bréf frá útgerðarmönnum og frá ýmsum aðilum í sínum kjördæmum, þar sem þess var krafizt, að þm. beittu sér fyrir einhvers konar sameiginlegri lausn þessara mála. Og í framhaldi af þeim áskorunum í fyrra komu saman þm. úr, að ég hygg, upphaflega þrem kjördæmum, Reykjavík, Reykjaneskjördæmi og Suðurlandi, til þess sjálfir að reyna að mynda sér einhverja skoðun og freista þess, hvort hægt væri að ná sameiginlegu áliti þessara manna.

Upp úr þessu, hygg ég, að komið hafi það, að hæstv. sjútvmrh. gekkst fyrir því, að sett yrði á laggirnar þingnefnd allra flokka til þess að skoða málið, og eins og hv. 5. landsk. sagði hér áðan, var það ætlunin, að þessi n. gæti skilað áliti það fljótt, að málið næði afgreiðslu á þessu þingi. Ég skal ekkert blanda mér í þær deilur, sem virðast hafa orðið um það, við hvern sé að sakast um, að n. tók ekki fyrr til starfa en raun ber vitni, en upplýst er þó, að hæstv. sjútvmrh. mun hafa skipað n. þann 2. okt. s. l. og að fyrsti fundur n. hafi síðan verið haldinn 31. okt. Verkefni þessarar n. var það að gera till. til ríkisstj. um fiskveiðar í fiskveiðilandhelgi. Till. eiga að miðast við sem bezta hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar fyrir sjávarútveginn í heild og einstök útgerðarsvæði, og skulu þær ná til allra skipastærða og veiðiaðferða. Við tillögugerð sína skal n. gæta þess sérstaklega, að nauðsynlegt er að forðast ofveiði nytjafiska. Hér er sem sé sett n. til þess að reyna að fá heildarniðurstöðu í þetta mikilsverða mál. og ég hygg, að allir þingflokkar hafi mjög greiðlega skipað eða tilnefnt þessa menn og gengið til þessa samstarfs af heilum hug, vegna þess að þeir vissu, hve nauðsynlegt það var að fá niðurstöðu í málinu.

Þessi n. var búin að koma sér saman um ákveðna vinnuáætlun. Hún hafði ákveðið það í sinn hóp að hafa náið samráð við þingflokkana um hvað eina, sem að þessu máli lyti, og eftir því, hvað málinu miðaði áfram, og það get ég sagt hér, að a. m. k. fulltrúi Framsfl. í n. hafði þetta samráð við sinn þingflokk. Hann lét okkur vita það jafnóðum og n. tók skref fyrir skref í þessu máli. Og þessi vinnuáætlun var þannig, eins og hér hefur raunar aðeins verið drepið á, að n. ætlaði sér að hafa samráð við sem flesta aðila víðs vegar um landið og skrifaði af því tilefni bréf til 1. þm. hvers kjördæmis, þar sem samstarfs þeirra var leitað og þeir beðnir að tilnefna menn úr kjördæmum sínum, sem n. gæti haft samráð við — 3–5 menn. Í bréfi n. segir, að tilkynning um tilnefningu þessara manna þurfi að hafa borizt n. fyrir 15. jan. n. k., þar sem n. gerir þá ráð fyrir sérstökum fundahöldum með þessum fulltrúum og þm. til að móta endanlegar till. Jafnhliða því að kveðja til þessa menn á hinum einstöku stöðum hafði n. ráðgert samtöl hér í Reykjavík og ferðalög víðs vegar um landið til þess að kynna sér þessi mál. Og ég verð að segja það, að ég tel að þessi vinnubrögð hafi verið mjög til fyrirmyndar.

Ég legg engan dóm á það, hvort mátt hefði byrja á þessu eitthvað fyrr. Það má alltaf segja það. En ég held, að þarna hafi verið myndarlega af stað farið og það sé ástæða til þess að geta þess. Þessi áætlun var mjög skynsamleg og hefði að mínum dómi átt að framfylgja henni. En síðan er sagt, að á meðan hafi gerzt þeir atburðir, sem hafi óhjákvæmilega kallað á það, að nýjar till. yrðu settar fram. — [Fundarhlé].

Herra forseti. Þegar ég gerði hlé á ræðunni áðan, minnir mig, að ég væri staddur þar í sögunni, að þann 1. des. hefðu verið gerðar ráðstafanir, sem samkv. túlkun flm. og aðstandenda þessa frv. gerbreyttu svo öllum aðstæðum, að til bráðabirgða- og skyndiráðstafana varð að gripa. Þær ráðstafanir, sem hér mun vera átt við, er sú ákvörðun dómsmrh. að fara fram á það við forseta landsins, að hann gefi upp sakir öllum þeim, sem fram að þeim tíma hefðu brotið landhelgislöggjöfina, og jafnframt sú ákvörðun hæstv. ráðh„ að þar eftir skyldi öllum, sem gerðu sig seka um landhelgisbrot, refsað eftir fyllstu landsins lögum.

Hér virðist vera starfað þannig, að vinstri höndin viti ekki, hvað sú hægri gerir, því að rétt áður en þessi ákvörðun dómsmrh. er birt, hefur hæstv. sjútvmrh., eins og ég áðan lýsti, gefið fyrirskipanir um það, að öll landhelgismálin skuli endurskoðuð af þar til kjörinni þingnefnd, og skipað þá n. og afmarkað henni starfssvið. Sú n. hefur lagt á ráðin um það, hvernig þetta verk eigi að vinna, en hún er sem sé stöðvuð þarna í miðju starfi og gripið fram fyrir hendurnar á henni með stjórnvaldaráðstöfunum, og í kjölfar þeirra er svo lagt fram það frv., sem hér um ræðir á þskj. 197 um breyt. á l. nr. 62 1967 um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Mér finnst þessi vinnubrögð mjög svo einkennileg, að ekki sé meira sagt. Þetta ástand, sem hæstv. dómsmrh. ætlaði að kippa í liðinn, er hann þó búinn að láta viðgangast árum saman án þess að gera nokkuð til þess að lagfæra það. Þegar svo loksins er kominn skriður á það í sjútvmrn. að koma þessum málum á einhvern skynsamlegan grundvöll og það er búið að kjósa til þess og skipa til þess góða menn, sem hafa sýnt, að þeir hafa góðan vilja til þess að leysa málið og voru komnir á rekspöl með að gera það, þá er tekið fram fyrir hendurnar á þeim á þennan hátt. Mér finnst þessi vinnubrögð mjög ámælisverð og vil átelja þau.

Hv. 5. landsk. þm., formaður þessarar landhelgisnefndar, lýsti því hér yfir áðan, að þrátt fyrir þetta mundi n. halda áfram störfum og hún gæti skilað áliti, að mér skildist, í byrjun febrúar eða um leið og þing kemur saman. Hér er því aðeins um eins mánaðar tímabil að tefla, sem þessum bráðabirgðaráðstöfunum er ætlað að gilda í raun og veru, þó að í frv. segi, að þau skuli gilda til 30. apríl n. k. En ég er alveg sannfærður um það, að það verður miklu erfiðara fyrir þessa hv. n. og fyrir Alþ. að breyta þessum reglum, ef það kynni nú að koma í ljós við athugun n., að þess þyrfti, eftir að búið er að veita þær undanþágur, sem frv. gerir ráð fyrir. Og það mun sýna sig, að það verður erfitt.

Hér er um bráðabirgðalausn svokallaða að ræða bráðabirgðalausn, sem tekur til tiltekins afmarkaðs landshluta í tiltekinn tíma. Þegar þetta frv. kom fyrst fram í hv. Nd., var gegn því mjög sterk andstaða sérstaklega frá þm. af vissum landsvæðum. Nú er búið að breyta þessu talsvert, teygja þetta og toga, þannig að sjútvn. Nd. hefur staðið að sameiginlegu nál. Það má vel vera. Ég vil ekkert draga úr því, að þær breytingar, sem n. gerði á frv., séu til einhverra bóta. En þessar breytingar eru þær, að bætt er inn, þar sem rætt er um undanþágurnar fyrir Suðurlandi og Norðurlandi, að tillit sé tekið til nauðsynlegrar friðunar fyrir botnvörpu á svæðinu frá Rauðanúp vestur að Gjögurtá. Þetta á við um Norðurland, en fyrir sunnan eru þær undanþágur settar inn, að togveiðar skuli ekki heimilaðar á svæðinu frá Stokksnesi að Skaftárósum á tímabilinu frá 1. marz til 30. apríl og leyfi til togveiða megi að öðru leyti takmarka hverju sinni við tíma og svæði, m. a. til þess að forða frá árekstrum á veiðisvæðum við báta með önnur veiðifæri svo sem línu og net. Hér eru settar inn nýjar undanþágur frá þeim undanþágum, sem frv. gengur út á að veita, og það getur vel verið, að þetta sé til mikilla bóta. Ég vil ekki gera lítið úr því. En ég hygg, að landhelgisgæzla verði nú allerfið, þegar búið er að búta veiðisvæðin jafnmikið niður og hér er gert ráð fyrir og þegar þar að auki veiðiskipin eru af vissri stærð, sem þarna mega vera. En það má vel vera, að það sé hægt að leysa það. Ég er viss um það, að undanþágan, sem lýtur að því að banna togveiðarnar á tilteknum tíma á tilteknum svæðum til þess að forða frá árekstrum við báta með önnur veiðarfæri svo sem línu eða net, er algerlega nauðsynleg, því að það gæti virzt, að flm. frv. hefðu gleymt því, að nokkur afli bærist á land frá þeim veiðarfærum, sem þar eru tiltekin. En það hefur rifjazt upp í n., og er það þá vel.

Þessi till. gengur út á það, að það séu það, sem ég kalla nú stóra báta — allt að 200 smálestum, sem eigi að fá að fiska allt að 3 mílum frá landi. Ég segi það sem mína skoðun og hef áður sagt það hér á hv. Alþ., að ég er hræddur við þessa tilslökun, sem sífellt er verið að leita á með. Það er ekkert langt síðan við heyrðum það, að landhelgisútfærslan hefði tekið af togurunum svo til allan rekstrargrundvöll. Það væru ný stór togaramið, sem áður hefðu verið þeim opin, en væru þeim lokuð nú, og þetta væri m. a. ástæðan fyrir því, hvernig togaraútgerð hefur gengið hér að undanförnu. Og ég minnist þess, að það hafa komið fram háværar kröfur frá útgerðarmönnum togara um, að það yrðu gerðar undanþágur fyrir þá. Það kann að vera, að það sé mikill munur á togara og 200 tonna bát. Það er nokkur stærðarmunur, en ég tók eftir því, að í þeirri ræðu, sem hv. 5. landsk. hélt hér áðan, sagði hann það, að það væri algerlega óákveðið — sem eðlilegt er — hjá landhelgisnefndinni, við hvaða stærð yrði miðað — ég tók svo eftir, að hann orðaði það svo — þ. e. hvaða stærðarmörk ætti að ákveða, ef einhver yrðu. Og þetta skil ég svo, þangað til það verður leiðrétt, að það sé — a. m. k. í hans hug — alls ekki fráleitt, að stærðarmörkin verði miklu hærri en þetta — jafnvel upp í það, að a. m. k. minnstu togarar fengju að fara þar inn. En ég skal fúslega viðurkenna það, að ég hef ekki mikið vit á sjósókn og ætla þess vegna ekki að fara að halda neinn fræðilegan fyrirlestur um það. En ég þykist þó skilja það, að til þess höfum við togara og önnur stærri skip að sækja aflann þangað, sem lengra er að fara, fyrst og fremst vegna þess að minni skipin hafa sýnt það, að þau henta ekkert síður fyrir þær veiðar — upp í landsteinum nánast — sem hér er fyrst og fremst verið að fjalla um.

Ég skal líka kannast við það, að ég hef verið hræddur við togveiðar á ýmsum af þessum svæðum, sem hér er ráðgert að taka þær upp á — hræddur við þær vegna þess, að þær spilltu uppeldissvæðum fisksins. Ég skal fúslega viðurkenna það, og ég mun einhvern tíma hafa sagt það hér og kannske oftar en einu sinni. En ég skal gera þá játningu hér, að síðustu greinar, sem ég hef lesið um þessi mál. og þá kannske alveg sérstaklega grein eftir Aðalstein Sigurðsson, fiskifræðing, sem birtist í tímaritinu Ægi ekki alls fyrir löngu, hafa dregið nokkuð úr þessari hræðslu minni við það, að togveiðarnar væru hættulegar í þessu tilliti. Og ég tel auðvitað sjálfsagt að hafa það, sem sannast reynist í þessu, og fara eftir því, sem færustu sérfræðingar okkar leggja til, þannig að ég ætla ekki hér að halda því fram, að togveiðar innan þessara marka megi í engum tilfellum eiga sér stað.

Það er sífellt verið að auka annir og áhyggjur hæstv. sjútvmrh. Nú er síðast verið að leggja það á hann, að hann eigi að setja reglur um allar þessar veiðar og undanþágur frá þeim. Ég öfunda hann ekki af því að fá þessa sendingu. Ég tók svo eftir um daginn, þegar við vorum að ræða hér um ráðstöfun á gengishagnaði, að hæstv. sjútvmrh. kallaði þetta kvöð, sem á sig væri lögð að úthlutá fjárveitingum til sjávarútvegsins eftir sinni yfirsýn. Hvað kallar hann þá þetta, þegar honum er fengið alræðisvald í því að ákveða, hvað fiskstofninn við strendur landsins þoli af slíkum veiðum? Kvöð er a. m. k. tæplega nægilega sterkt orð um það. En það er nú ekki ástæða til þess að vorkenna honum. Ég mun heldur ekki gera það, því að hann á að hafa hér við hlið sér Hafrannsóknastofnunina, sem er skipuð væntanlega færustu sérfræðingum í þessu máli.

Það getur vel verið, að það sé óhjákvæmilegt, að við göngum enn nær fiskstofninum en gert hefur verið á undanförnum árum og við sjáum enga leið út úr efnahagsvandamálum þjóðarinnar aðra en þá að veiða innar og innar — nær og nær landi. Þótt við gerum þetta, hvort sem það er nú með leyfi yfirvaldanna eða ekki, þá gengur aflinn saman, og það gerist á sama tíma, sem aðrar þjóðir bæta stórkostlega við sig í aflamagni a. m. k. — ég tel víst í úrvinnslu aflans líka — og það er svo komið fyrir þeirri miklu fiskveiðiþjóð, Íslendingum, að Danir eru farnir að fiska meira en við, og ég hygg, að það sé tæpast heppilegur samanburður. Þetta finnst mér gefa það til kynna, að hér hafi ekki verið nægilega fylgzt með nýjum aðferðum á fjarlægari miðum, en menn hafi fremur einbeitt sér að því að fá undanþágur frá þeirri friðun fiskstofnanna, sem lögleidd var hér 1958. En það getur vel skeð, að við höfum ekki aðrar leiðir til þess að sjá þjóðinni farborða en þær að tæma það forðabúr, sem okkur er fengið hér við strendur landsins, áður en við höfum manndóm í okkur til þess að koma hér á nýjum atvinnugreinum, sem gætu a. m. k. létt undir, en skemmtileg tilhugsun er það ekki.

Ég vil aðeins, áður en ég lýk máli mínu, minna á það, sem mér er þó kannske efst í huga í sambandi við öll þessi mál. en það eru þeir möguleikar, sem við Íslendingar höfum í framtíðinni á því að stækka friðunarsvæðin, þ. e. að færa út landhelgina. Þegar við gerðum þetta á sínum tíma 1958, þá vorum við frjálsir að því samkv. alþjóðarétti að gera þessa útfærslu einhliða. Við spurðum engan að því, og við þurftum engan að því að spyrja. Síðan hafa aðstæður í þessu tilliti breytzt. Við höfum gert samning, sem leiðir það af sér, að við getum ekki lengur farið okkar máli einhliða fram. Við verðum að sækja til annarra um það, hvort við fáum þessa útfærslu eða ekki. Ég held þrátt fyrir það, sem haft er eftir þjóðréttarfræðingum hér á þskj. 192, að sterkustu rök Íslendinga hafi verið og verði fyrir útfærslu landhelginnar þau, að það séu friðunarráðstafanir, sem þar er stefnt að. Og ef við spillum á einhvern hátt möguleikum okkar til þess, er illa farið, og þá er það spor, sem getur orðið erfitt að leiðrétta.

Ég geri ekki ráð fyrir því, að það þýði úr því, sem komið er, að halda hér uppi löngum ræðuhöldum í tilefni af þessu frv. Sjútvn. hv. Nd. er orðin sammála, og ég þykist vita, að meiri hl. hér í Ed. sé einnig fyrir því, að þetta frv. fái fram að ganga. En ég endurtek það, sem ég hef áður sagt í þessari stuttu ræðu, að ég vil nú koma til móts við þá, sem ráða þinghaldinu með því að halda ekki langa ræðu á síðustu dögum þess, og ég tel mig hafa staðið við það, en niðurstaðan verði sú, að hér séu óskynsamleg vinnubrögð viðhöfð. Skynsamlegustu vinnubrögðin hefðu að mínum dómi verið þau, að n. hefði fengið að halda áfram óslitið sínu starfi og taka við málunum eins og þau þá voru, en sé ekki bundin af nýrri lagasetningu, sem flaustrað er af á Alþ. á síðustu dögum þess í algjöru tímaleysi.