19.12.1968
Efri deild: 36. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1660 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

112. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Eins og nál. á þskj. 21 l ber með sér, virðist vera ákaflega takmörkuð ánægja hjá meiri hl. nm. með þetta frv., því að meiri hl. nm. hefur skrifað undir meðmæli með frv. með fyrirvara. Ég er á meðal þeirra, sem hafa skrifað undir með fyrirvara, og ég vil aðeins með örfáum orðum gera grein fyrir því, hvers vegna ég hef hér fyrirvara á, en mun ekki fara að ræða þetta mál mjög almennt nú.

Ég verð að segja það, að ég er á engan hátt ánægður með afgreiðslu þessa máls. Og ég er ekki ánægður með þetta frv., eins og frá því er gengið og til þess er stofnað. En ég vil þó ekki leggjast gegn því, úr því sem komið er, og þar sem hér er aðeins um bráðabirgðaákvæði að ræða, sem ætlað er að gilda um mjög takmarkaðan tíma, eins og margbent hefur verið á af öðrum í þessum umr., hefðu það verið eðlilegust vinnubrögð í þessu máli, að landhelgisnefnd sem svo hefur verið kölluð, hefði verið gefið færi á að ljúka sínu starfi og að aðgerðir hefðu verið látnar bíða á meðan. Ég tel að í þessu máli verði að fara mjög varlega bæði vegna friðunarsjónarmiða og til þess, að möguleikum til frekari útfærslu sé ekki á nokkurn hátt spillt. Ég tel, að hér í d. hafi ekkert tóm gefizt til þess að athuga þetta mál. Ég hefði t. d. talið æskilegt, að tal hefði verið haft af fiskifræðingum og þeir látnir gera sjútvn. grein fyrir sínum sjónarmiðum. Til þess hefur ekki gefizt neitt tóm, þar sem áherzla er lögð á að afgreiða þetta mál fyrir þingfrestun.

Ég hefði líka gjarnan viljað athuga um breytingar á þessu frv. til enn frekara öryggis því, að fiskimiðum og fiskstofnum yrði ekki spillt. Ég hefði gjarnan viljað — eða ég hefði gjarnan getað hugsað mér það, að veiðileyfi yrðu bundin þeim skilyrðum, að lagt yrði upp á tilteknum stöðum. Til þess hefur heldur ekkert ráðrúm gefízt, því að ljóst er, að slíkar breytingar, ef gera ætti, þyrfti að athuga mjög gaumgæfilega, og ég vil fyrir mitt leyti ekki hrapa að því að gera brtt. við þetta mál. Ég viðurkenni hins vegar, að vandræðaástand hefur skapazt í þessum málefnum. Mér eru ljósir hagsmunir ýmissa útgerðarstaða í þessu sambandi, og af þeim sökum — og þar sem samkomulag varð í Nd. a. m. k. að verulegu leyti um þetta mál — þá vil ég, eins og ég hef áður sagt, ekki leggjast gegn því, að mál þetta sé nú afgreitt, en vissulega er hér um mjög þýðingarmikið og vandasamt mál að ræða.

Hér er um viðkvæmt hagsmunamál að tefla, sem verður að vega og meta út frá ýmsum sjónarmiðum, og ég held, að það megi ekki líta á þetta mál út frá neinum stundarhagsmunum, heldur verði að horfa á það með framtíðina í huga. Auðvitað eigum við að nýta landhelgina á sem skynsamlegastan hátt, um það eru sjálfsagt allir sammála, en hins vegar eru ekki allir jafnsammála um það, hvort þær veiðiaðferðir, sem hér er um að tefla séu hættulausar fyrir fiskstofnana og fiskimiðin. Sumir líta svo á, að hætta sé á því, að um rányrkju verði að tefla, ef þessar veiðiaðferðir verði notaðar. Ég skal engan dóm leggja á það. En sé litið til þess atriðis, sem hv. síðasti ræðumaður ræddi um til samanburðar, þ. e. túnin, þá er það að vísu góðra gjalda vert, að túnin hafa verið færð út og stækkuð á síðari árum. En hitt skiptir nú líka verulegu máli, hvernig með túnin er farið. Arður sá, sem þau gefa af sér, fer nokkuð mikið eftir því, og ekki held ég, að það mundi þykja búmannlegt, ef farið yrði að beita hrossum á túnin. Kýrnar þykja skaðlausar, en deildar meiningar, held ég, séu um það, hversu hyggilegt það sé í raun og veru fyrir afrakstur túnanna að beita sauðfé á þau í stórum stíl. En hvað um það. Það er sjálfsagt að nýta þau auðæfi, sem hér eru við strendur landsins á sem skynsamlegastan hátt, en þó þannig, að það sé ekki gert á kostnað framtíðarinnar. Þess verðum við vel að gæta, og þess vegna tel ég, að hvert og eitt skref í þessu máli þurfi vel að athuga.

En sá fyrirvari, sem ég vil alveg sérstaklega leggja áherzlu á í þessu sambandi, er sá, að ég lít svo á, að hér sé um hreint bráðabirgðaúrræði að tefla til lausnar á neyðaraðstöðu, sem skapazt hefur fyrir það, hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Ég lít svo á og vil taka það sérstaklega fram, að mitt atkvæði með þessu ber ekki að skoða á þann hátt, að ég taki á nokkurn hátt afstöðu til þess, hvernig með mál þetta verður farið, þegar n. margumtalaða hefur lokið starfi sínu og málið allt í heild sinni verður lagt fyrir Alþ. Ég vil ekki skoða þetta mál og þær ákvarðanir, sem teknar eru í þessu frv., á neinn hátt sem fordæmi fyrir frambúðarlausn þessa máls. Bæði af því, að hér er um þmfrv. að ræða og a. m. k. sumir af aðstandendum þess munu starfa í þessari landhelgisnefnd, og svo af hinu, að hv. frsm. lagði nokkra áherzlu á það hér áðan, að hér væri verið að stíga eitthvert fyrsta skrefið í þessu máli, undirstrika ég það alveg sérstaklega, að frá mínu sjónarmiði er með þessu skrefi, sem hér er stigið, ekkert fordæmi skapað. Og með þeim fyrirvara vil ég þó gefa þessu frv. mitt atkv.