18.12.1968
Efri deild: 33. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 198 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

116. mál, skólakostnaður

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem hv. þm. er áreiðanlega kunnugt, samþykkti Alþ. vorið 1967 ný lög um skólakostnað. Í þeim lögum voru mörg nýmæli, m.a. var í lögunum það nýmæli, að framlag ríkisins til skólabygginga, sem kostaðar eru sameiginlega af ríki og sveitarfélögum, skyldi greiðast á tveim til þrem árum. Fyrirhugað hafði verið að miða fjárveitingu til nýrra skóla á fjárlögum ársins 1969 við þriggja ára greiðslutímabil af hálfu ríkisins. Við umr. í fjvn. um framlög til nýrra skólabygginga á árinu 1969 kom í ljós, að ef fylgt væri þessu ákvæði skólakostnaðarlaga um þriggja ára greiðslutímabil af hálfu ríkisins vegna hverrar framkvæmdar, þá mundi vera hægt að hefja byggingu á færri nýjum skólum en æskilegt var talið. Sú fjárveiting, sem til ráðstöfunar er til nýrra skóla, er 33. 1 millj. kr., og ef teknir eru þeir skólar, sem æskilegast var talið að hefja byggingu á 1969, þá hefðu ýmsir skólar mætt afgangi, sem mjög sterkar óskir voru um að leyfa upphaf byggingar á á árinu 1969. Þess vegna hefur sá kostur verið tekinn og ríkisstj. ákveðið að leggja til við hið háa Alþ., að stökkið frá 5 ára greiðslutímabili af hálfu ríkisins, sem í gildi hefur verið fram til þessa og í rauninni hefur verið 8 ára greiðslutímabil, vegna þess að upphaflegur kostnaður hefur greiðzt á fimm árum en kostnaður við hækkanir, meðan á byggingu hefur staðið, á þremur árum til viðbótar — að þetta 5–8 ára tímabil niður í þrjú ár verði stigið í tveimur sporum, ef svo mætti segja, þ.e.a.s. tekið fyrir eitt millibilsár næsta ár, þar sem framlög ríkisins til nýrra skólabygginga verði greidd á fjórum árum, en fyrirhuguð regla um þriggja ára greiðslutímabil komi til framkvæmda á árinu 1970.

Til viðbótar þessu skal ég geta þess, að það ákvæði skólakostnaðarlaganna er látið haldast, sem ekki var í gömlu skólakostnaðarlögunum, að hækkun byggingarkostnaðar skuli jafnan greidd árlega, svo að gert er ráð fyrir því, að núverandi áætlaður byggingarkostnaður hækki um 18.5% á næsta ári og er gert ráð fyrir því, að sú hækkun verði greidd þegar á næsta ári, svo að aukning greiðslutímabils ríkissjóðs úr fyrirhuguðum þrem árum í fjögur ár afnemur ekki þessa reglu, svo í raun og veru er styttingin á greiðslutímabili ríkissjóðs meiri en fram kemur af því, að hún sé stytt úr fimm árum í fjögur ár, hún er stytt úr fimm til átta árum í raunveruleg fjögur ár og verður stytt í raunveruleg þrjú ár, ef þetta nær fram að ganga á árinu 1970. Efni málsins er ekki það flókið, að ég vona, að þessi fáu orð hafi skýrt það til hlítar og leyfi mér þess vegna, herra forseti, að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. menntmn.