10.02.1969
Neðri deild: 42. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1671 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

50. mál, sala landspildu úr prestssetursjörðinni Hálsi í Hálshreppi

Frsm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið til athugunar hjá landbn. hv. d., og svo sem fram kemur í nál. á þskj. 214, þá leggja undirritaðir fjórir nm. til, að frv. verði samþ. með breyt., sem þar er tilgreind. Ég sé það, að það hefur láðst í nál. að geta um það, að þeir 3 nm., sem ekki hafa undirritað nál., voru fjarstaddir við afgreiðslu málsins. Þetta mál var sent ýmsum aðilum til umsagnar, svo sem venja er. Það var sent landnámsstjóra, biskupi og kirkjumálaráðuneytinu, og það bárust umsagnir frá þessum aðilum öllum. sem mæltu með því, að sala þessa lands, sem um er rætt í frv., verði heimiluð. En það kom fram í öllum þessum umsögnum sú ábending, að ef landspildan lægi að Fnjóská, þá skyldi undanskilinn veiðiréttur í ánni. Enn fremur er lögð áherzla á það hjá biskupi, að andvirði hins selda lands verði látið koma staðnum að gagni á þann hátt, sem héraðsprófastur og sóknarprestur staðarins leggja til. Og í samræmi við þessar ábendingar umsagnanna er sú brtt., sem hér er flutt af n. á þskj. 214.

Nefndin leggur sem sagt til að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem þar greinir.