24.02.1969
Efri deild: 50. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1673 í B-deild Alþingistíðinda. (1808)

150. mál, skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness

Frsm. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Fjhn. Ed. flytur þetta frv. í samráði við ríkisstjórnina, og er efni þess það, að verðlaun Sonnings, sem Halldóri Laxness voru veitt í Danmörku snemma árs 1969, skuli undanþegin tekjuskatti og útsvari.

Þessi meðferð málsins er sama eðlis og þá er sama manni voru veitt Nóbelsverðlaunin 1956. Þá sýndist einhlítt að draga ekki úr þeim sóma, sem skáldinu var sýndur, með því að láta ríkis- og sveitarsjóði taka til sín helming verðlaunanna eða vel það. Bæði flm. og ríkisstj. virðist einsýnt að fara eins að, að þessu sinni.

Verðlaun þau, sem hér um ræðir, eru kennd við stofnanda sjóðsins, C. J. Sonning, sem var lengst af blaðamaður og var stofnandi blaðsins Hovedstaden í Kaupmannahöfn. Það mun hafa verið einhvern tíma snemma á öldinni. Seinna bjó hann lengi í Lundúnum, og síðar í Hamborg, og var tengdur ýmsum dönskum blöðum sem fréttaritari á mörgum sviðum, skrifaði einnig töluvert af skáldsögum undir dulnefni, og ennfremur var hann a. m. k. á síðari árum ævi sinnar, en hann lézt fyrir um það bil 20 árum, aðili að byggingu húsa og mun hafa auðgazt vel á þeirri starfsemi.

Þessi verðlaun skulu samkv. stofnskránni ekki vera undir 100 þús. dönskum kr. hverju sinni og geta verið hærri, munu nú vera, eftir því sem blaðafregnir segja, kringum 15O þús. d. kr. Þeim er úthlutað af Kaupmannahafnarháskóla til Dana eða útlendings, sem unnið hefur störf menningu Evrópu til þurftar. Ég kann ekki nöfn þeirra allra, sem áður hafa hlotið verðlaunin, en í þeirra hópi eru ekki lakari nöfn en Sir Winston Churchill, Niels Bohr, Bertrand Russel, Alvar Aalto, sem teiknaði Norræna húsið hérna úti í mýrinni, og Albert Schweitzer. Ég tel, að landi voru sé mikill sómi sýndur með því, að höfuðskáld vort og rithöfundur hefur verið sæmdur þessum verðlaunum og tekinn í þennan hóp merkra og frægra manna fyrir sína verðleika, og ég álít, að við getum ekki þakkað það betur en með því, að hinir opinberu sjóðir falli frá kröfu sinni um hlutdeild í verðlaununum.

Í viðtali við Morgunblaðið komst Halldór Laxness svo að orði, að hann hafi „þakkað játandi“, þegar honum hafði verið skýrt frá þessum verðlaunum. Á sama hátt „játaði ég þakkandi“, þegar mér gafst kostur á að flytja þetta mál. Þar sem það er flutt af fjhn., þá hygg ég ekki að ástæða sé til að vísa því til n., en legg til, að því verði vísað til 2. umr. og að það megi öðlast skjóta og jákvæða afgreiðslu í hv. þd.