22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1677 í B-deild Alþingistíðinda. (1819)

150. mál, skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Fyrir liggur nál. á þskj. 380 frá meiri hl. fjhn. Í þessum meiri hl. eru 4 menn úr 4 þingflokkum. Nál. þeirra er tvær línur prentaðar og eitt orð þar að auki. Þar eru engar skýringar á afstöðu meiri hl., og þær komu heldur ekki fram í framsöguræðu fyrirliðans, hv. 1. þm. Reykn. Hverjir eiga að borga skatta til hins opinbera, ef þeir ríku eiga að vera leystir frá þeirri kvöð? Meiri hl. fjhn. nefnir ekki slíka smámuni. Þetta er þó atriði, sem hv. þdm. mættu gjarnan íhuga.

Ríkissjóður okkar er búinn að vera 10 ár undir handarjaðri Sjálfstfl.- og Alþfl.-manna. Hann er illa kominn eftir vistina hjá þeim. Getur ekki verið, að sá frægi höfundur Halldór Laxness hafi löngun til að hlaupa undir bagga með vesalings ríkissjóðnum? Veit meiri hl. fjhn. nokkuð um hug skáldsins? Halldór Laxness slapp við skattgreiðslur af Nóbelsverðlaunum, sem hann hlaut fyrir 12–13 árum. Ætli hann kæri sig um meiri góðgerðir af því tagi? Getur ekki verið, að hann sé orðinn leiður á sætabrauðinu, eins og Umbi vinur hans, þegar hann var sendimaður á Snæfellsnesinu sællar minningar? Veit meiri hl. nokkuð um þetta? Líklega veit meiri hl. n. ekkert um þetta og önnur höfuðatriði málsins, þó að hann mæli með því, að frv. verði samþykkt.

Ég lagði fram nál. um þetta frv. fyrir rúmum mánuði. Það er prentað á þskj. 373. Þegar eftir að þetta nál. mitt kom fram, sagði Morgunblaðið frá því, að blaðamaður þar hefði átt tal við skáldið í Gljúfrasteini. Blaðamaðurinn lýsti áliti mínu fyrir rithöfundinum og spurði um álit hans. Og það stóð á prenti í þessu blaði, að rithöfundurinn hefði m. a. sagt, að hann hefði ekkert við þetta að athuga.

Í nál. mínu hef ég leyft mér að flytja dagskrártill. og dagskráin er rökstudd í nál. Ég vænti þess, að hæstv. forseti beri dagskrártill. mína undir atkv. þdm., þegar umr. er lokið, eins og venjulegt er, og ég óska eftir nafnakalli um dagskrártill. mína.