22.04.1969
Neðri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1822)

150. mál, skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Maður er dálítið feiminn að koma hér í stólinn eftir þessa skemmtilegu framlengingu á þingveizluræðuhöldum og því miður get ég ekki haldið áfram í sömu tóntegund og hæstv. menntmrh. Mér fannst, þegar þetta frv. var lagt fram, að það væri heldur óhönduglega fram borið. Á sínum tíma voru sett sérstök lög um Nóbelsverðlaun Halldórs Laxness, og þar var um alveg sjálfsagða lagasetningu að ræða. Þar var um að ræða einstæðan stórviðburð. Ég hygg ekki, að það sé nein ástæða til þess að ætla eða gera sér vonir um, að sá atburður endurtaki sig á þessari öld. En Sonningsverðlaun þau, sem Halldór Laxness fékk frá Kaupmannahafnarháskóla eru hliðstæð mörgum öðrum verðlaunum, sem mjög er hugsanlegt, að Íslendingar muni fá á næstunni. Þessi Sonningsverðlaunasjóður sker sig ekki á neinn hátt úr ýmsum öðrum sjóðum, sem starfandi eru t. d. á Norðurlöndum og Íslendingar munu hafa aðgang að. Ég vil minna á það í því sambandi, að árlega taka Íslendingar þátt í störfum nefndar, sem ákveður bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, sem er allveruleg upphæð. Á vegum Norðurlandaráðs er einnig starfandi tónskáldasjóður og ekki er það neitt ólíklegt, að heiðursverðlaun úr honum falli einhvern tíma Íslendingi í skaut, og þannig er um ýmsa fleiri verðlaunasjóði. Hér innanlands er einnig farið að veita nokkuð há heiðursverðlaun. Mig minnir, að um síðustu áramót hafi t. d. fjórum mönnum verið veitt úr bókasafnssjóði upphæð, sem var held ég 100 þús. kr. á mann, og þó að þar sé um að ræða allmiklu minni upphæð en Sonningsverðlaunin eru, þá getur það engu að síður verið býsna há upphæð fyrir þá, sem hreppa hána. Þess vegna virtist mér einsætt, að setja þyrfti í lög ákvæði um það, að slík heiðursverðlaun, sem veitt eru án umsóknar, væru undanþegin sköttum. Slík ákvæði eru í lögum víða í grannlöndum okkar, ýmist ákvæði um, að slík heiðursverðlaun, sem veitt eru án umsóknar, séu alveg skattfrjáls eða um þau gildi sérstakar reglur. Mér þykir rétt að leggja áherzlu á það, vegna ræðu þeirrar, sem hv. 3. þm. Sunnl. flutti hér áðan, þar sem hann taldi, að skattfrelsi á þessu sviði mundi opna fyrir fjölmörg önnur svið, að um það er ég ekki á sömu skoðun Hér er um að ræða heiðursverðlaun, eins og ég sagði áðan, sem veitt eru án umsóknar mönnum, sem hafa skarað sérstaklega fram úr, og þó að Íslendingar séu góðum gáfum gæddir, þá gerast slíkir atburðir ekki oft. Ég tel að það sé sjálfsagt, að stjórnarvöld og þjóðin samfagni slíkum mönnum með því að afsala sér því, að verulegur hluti upphæðarinnar renni í opinbera sjóði. Ef það gerist, missa slík heiðursverðlaun að verulegu leyti tilgang sinn. Þarna held ég, að sé um að ræða undantekningu, sem hafi það mikla sérstöðu, að við séum ekki að opna fyrir annað með þessu móti.

Hv. frsm. fjhn. greindi frá því, að forsvarsmenn Bandalags ísl. listamanna hefðu komið á fund n. og mælzt til þess, að frv. yrði breytt í sömu átt og felst í brtt. þeirri, sem ég flyt á þskj. 384. Svo var að heyra á frsm. n„ að meiri hl. n. hefði í rauninni ekki verið andvígur þessari málaleitan. Aðeins hefði hann talið, að málið þyrfti nánari undirbúning og athugun, annaðhvort á vegum þingsins eða rn. Ég á dálítið bágt með að sætta mig við það, að þessi hv. n. hefði ekki getað leyst úr jafnlitlu vandamáli og þetta er í raun og veru. Hér er um að ræða að orða tiltekna hugsun í lagaformi og þeir 4 þm., sem skipa meiri hl. þessarar n., eru orðnir það vanir löggjafar, að þetta hefði ekki átt að vera ofverk þeirra, ef þeir hefðu haft áhuga á því að leysa málið á þennan hátt. Ég vil t. d. minna á það, að hv. frsm. n. er nýbúinn að leggja hér fram frv. á þingi með ákvæði um það, að arður af hlutabréfum skuli vera skattfrjáls og hlutabréf skuli undanþegin eignarskatti. Ég held, að það hefði ekki verið neitt flóknara vandamál að orða þessa hugmynd um almenna undanþágu á heiðurslaunum en þetta áhugamál hv. þm. um sérstaka ívilnun fyrir arð og hlutabréf. Ég get sem sé ekki sætt mig við, að þetta viðhorf meiri hl. n. sé raunverulegt. Ég er sannfærður um það, að þessum ágætu og vel verki förnu alþm. hefði verið í lófa lagið að orða þessa hugsun í lagabúningi, ef þeir hefðu haft áhuga á því.

Hins vegar tel ég það mjög óeðlilegt að afgreiða þetta frv. til l. um skattfrelsi Sonningsverðlauna Halldórs Laxness nema því aðeins, að menn ætli sér að ganga þannig frá málum, að aðrir þeir, sem kunna að fá hliðstæð heiðursverðlaun án umsókna njóti sömu fyrirgreiðslu hér á Alþ. Allt annað væri ósæmilegt með öllu. Og ég held líka, að það væru fráleit vinnubrögð, ef menn ætluðust til þess, að flutt skuli frv. á Alþ. í hverju slíku tilviki í stað þess að setja almenna reglu. Ég er hræddur um, að af því gætu oft spunnizt heldur leiðinlegar umr. og kannski engan veginn jafn skáldlegar og þær umr., sem orðið hafa um þetta mál. Og inn í það gæti hreinlega blandazt afstaða hv. alþm. til þess manns, sem í hlut ætti í það og það skipti, persónulegt mat manna á verðleikum hans sem einstaklings. Það væru algerlega fráleit vinnubrögð.

Það má vel vera, að mönnum finnist, að það orðalag, sem ég geri till. um í brtt. minni, hitti ekki í mark. Mönnum kunna að finnast þau of ströng eða of víðtæk, og mér hefði raunar þótt fróðlegt, ef menn hefðu viljað lýsa skoðunum sínum á því atriði. En ef Alþ. er á því, að við setjum tilteknar reglur um skattfrelsi slíkra heiðursverðlauna, þá finnst mér, að við eigum að gera það nú. Og það er fullt ráðrúm til þess, annað hvort á þeim tíma, sem eftir er af þessu þingi eða í byrjun þinghaldsins í haust, því að úr því, sem komið er, kemur þetta ekki til framkvæmda fyrr en í sambandi við skattgreiðslur á næsta ári. Og ég held, að Alþ. leysi þetta mál helzt á sómasamlegan hátt með því að taka upp þessi vinnubrögð, og vildi mjög eindregið beina því til manna, hvort þeir vildu ekki hafa þennan hátt á.