29.04.1969
Neðri deild: 84. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1684 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

242. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. (Birgir Finnsson):

Herra forseti. Svo sem kunnugt er, liggur fyrir hér í hv. d. annað frv. til l. um breyt. á l. nr. 62 frá 18. maí 1967, um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Það frv. er árangur af miklu starfi, sem svokölluð landhelgisnefnd hefur unnið að undanförnu. Frv. var í gær vísað til sjútvn. d., og sjútvn. hefur þegar haldið um það einn fund.

Fyrr á þinginu, eða fyrir áramót, voru leyfðar meiri undanþágur til togveiða innan landhelginnar en áður hafa gilt, og er af afgreiðslu þess máls augljóst, að þingvilji er fyrir því, að botnvörpuveiðar innan landhelginnar verði leyfðar í auknum mæli frá því, sem verið hefur. Hins vegar munu vera nokkuð skiptar skoðanir um einstök atriði í framkvæmd málsins, þ. e. a. s. varðandi það, á hvaða stöðum togveiðar skuli leyfðar og á hvaða tímum. Þær undanþágur, sem samþ. voru á þinginu í haust, renna út annað kvöld, þ. e. 30. apríl. Það er augljóst, að Alþ. vinnst ekki tími til þess að fjalla um hið nýja frv., sem nú liggur hér fyrir, á svo skömmum tíma. Í sjútvn. varð þess vegna um það algert samkomulag í morgun, að flytja það frv., sem hér liggur fyrir, til þess að Alþ. gefist tóm til að athuga nánar og afgreiða frv. á þskj. 551. Ég vil geta þess, að ákveðinn hefur verið fundur í sjútvn. d. í fyrramálið kl. 11 og ef ekki kemur neitt sérstakt fyrir, þá er reiknað með, að n. geti gengið frá nál. sínu um það frv. á morgun.

Það frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af þessum ástæðum. Fyrir hönd sjútvn. mæli ég eindregið með því, að frv. hljóti afgreiðslu hér í hv. d. í dag. Frv. er flutt af n. og þarf því ekki að fara til n. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. forseta og hv. þdm., að þeir greiði fyrir afgreiðslu málsins.