20.03.1969
Efri deild: 61. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1689 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

185. mál, sala Þykkvabæjar I í Landbroti

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt af okkur hv. 5. þm. Sunnl. og flutt að beiðni hreppsnefndar Kirkjubæjarhrepps í Vestur-Skaftafellssýslu. Frv. þetta fjallar um heimild hreppsnefndar Kirkjubæjarhrepps í Vestur-Skaftafellssýslu til þess að selja jörðina Þykkvabæ I í Landbroti Ingu Þórarinsdóttur, núv. ábúanda jarðarinnar, en með nokkuð sérstökum hætti, sem byggist á því, að hreppurinn fékk á sínum tíma jörðina Þykkvabæ I að gjöf með vissum skilyrðum. Og vil ég nú fjalla um þessar sérstöku aðstæður, sem eru fyrir hendi í þessu máli.

Með gjafabréfi hjónanna Helga Þórarinssonar og Höllu Einarsdóttur, dags. 15. des. 1913, afhentu þau Kirkjubæjarhreppi hálfa jörðina Þykkvabæ til eignar með vissum skilyrðum. Meginskilyrði voru þessi: Jörðin skyldi vera ævarandi eign þessa hrepps, Kirkjubæjarhrepps og því mætti eigi selja jörðina, gefa eða veðsetja. Ættingjar gefanda hefðu forgangsrétt um ábúð jarðarinnar. Að jörðin yrði bætt og prýdd svo sem kostur er hverju sinni. Afgjöld af jörðinni féllu þannig: 1/4 hluti þeirra til sveitarsjóðs Kirkjubæjarhrepps, en 3/4 hlutar til Ræktunarsjóðs Þykkvabæjar I, sem í gjafabréfinu er sett skipulagsskrá um með tilheyrandi ákvæðum að því er varðar tekjuöflun þessa ræktunarsjóðs og starfsemi að öðru leyti. Sjóðnum er ætlað að hafa það hlutverk á hendi að bæta jörðina og enn fremur og í öðru lagi að verðlauna bændur innan Kirkjubæjarhrepps fyrir jarðabætur, húsabætur og aðrar nytsamar búnaðarframkvæmdir á ábýlisjörðum þeirra. Hreppsnefndin þáði svo þessa gjöf, sem var fram sett í nefndu gjafabréfi, hinn 14. jan. 1914, og gjafabréfið hlaut konungsstaðfestingu 14. ágúst s. á., og skömmu síðar var skipulagsskrá sjóðsins birt í Stjórnartíðindum. Gefendurnir bjuggu á jörðinni, þar til Helgi Þórarinsson dó 18.11. 1915. Þá tók Þórarinn, sonur þeirra hjóna, við búsforráðum og sat jörðina með samþykki allra hlutaðeigenda. Var á þeim tíma, þegar Þórarinn Helgason sat jörðina, lagt fé mjög í jarðabætur og húsabætur.

Núverandi ábúandi þessarar jarðar er Inga Þórarinsdóttir, dóttir Þórarins Helgasonar, þ. e. a. s. sonardóttir gefendanna. Hún hefur lýst yfir, að hún geti ekki lengur búið á þessari jörð, nema hún fái hana keypta, og það skal líka tekið fram, að það eru engir aðrir, sem vitað er um, sem hafa hug á að taka þessa jörð til ábúðar við þau skilyrði, sem sett hafa verið. En talið er, að endurbyggja þurfi öll hús jarðarinnar meira og minna, og að sjálfsögðu er ekki hægt að leggja í slíkar framkvæmdir, nema lán séu fengin, og þá þarf auðvitað að setja jörðina að veði.

Nú hefur ábúandinn, Inga Þórarinsdóttir, fengið loforð um það frá hreppsnefndinni, að hreppsnefndin sé fús til að selja henni jörðina fyrir sitt leyti. En að því tilskildu, að söluverðinu verði varið í sem nánustu samræmi við tilgang gjafabréfsins. Að óbreyttu virðist það ljóst öllum þeim, sem nærri þessu máli koma, að enginn ábúandi fáist á þessa jörð. Hún níðist aðeins niður og endar sem umkomulítil eyðijörð. Búnaðarhættir og ábúðarreglur eru almennt þannig í dag, að þær eru með allt öðru sniði en þegar gjafabréfið fyrir mörgum tugum ára var samið og hreppurinn tók við gjöfinni. Hinn almenni tilgangur með gjöfinni næst því engan veginn, og þau hlunnindi, sem gjöfin átti annars vegar að veita gefendum og ættmennum þeirra um framtíð og hreppnum áttu að verða til framfara og hagnaðar, má segja, að séu úr sögunni með öllu. Hins vegar verður þessi gjöf til erfiðleika á marga lund, ekki sízt fyrir eigandann, hreppsnefndina, og svo til sárra leiðinda öllum aðilum, ef eigi verður að gert.

En nú vill svo vel til, og það er ekki ævinlega í skipulagsskrám eða gjafabréfum, sem skipulagsskrár hafa verið gerðar um, að ákvæði séu um, hvernig fara skuli, ef eitthvað ber út af með þær aðstæður, sem fyrir hendi voru í upphafi og breytzt hafa verulega. En það vill svo vel til, að í gjafabréfinu, sem er undirstaða alls í þessu máli, eru ákvæði, þar sem segir:

„Reglum þeim, sem settar eru að framan um gjöf þessa, getur enginn breytt nema löggjafarþing Íslendinga, og þó því aðeins, að eigi verði hjá því komizt sakir breyttrar tíðar eða óviðráðanlegra atvika, en gæta skal þess þá vandlega, að breytingin samrýmist, svo sem auðið er, tilgangi okkar (þ. e. a. s. gefendanna) með gjöfinni.“

Og með hliðsjón af þessu ákvæði í skipulagsskránni er þetta frv., sem hér liggur fyrir, fram borið. Við flm. vitum ekki betur en allir ættmenn gefenda, sem látið hafa sig nokkuð varða þetta mál. séu sammála um, að sú breyting verði gerð, sem frv. gerir ráð fyrir. Og ég vil geta þess, að annar gefendanna, frú Halla Einarsdóttir, sagði í bréfi til hreppsnefndar Kirkjubæjarhrepps árið 1946 m. a., að vegna breyttra aðstæðna óski hún eftir því, að hreppurinn gefi eftir sinn eignarrétt samkv. gjafabréfinu, ef auðið er. Annar gefenda var sem sagt á því ári, 1946, alveg inni á því, að hér þyrfti gerbreyting á að verða.

Í frv., eins og það liggur hér fyrir d., eru sérstök ákvæði um ráðstöfun jarðarinnar, sem eigi verður annað séð en fyllilega séu í anda megintilgangs gjafabréfsins, þ. e. að náinn ættingi, sem ábúð hefur haft um nokkuð langan tíma á jörðinni, — ég held, að ég megi segja 17 ár — eignist jörðina og hún verði séreign þessa ættingja og þar um gerður sérstakur kaupmáli, enn fremur að kaupandi skuldbindi sig til þess að gera jörðina að ættaróðali. Með betri hætti verður vart að okkar áliti flm. a. m. k., betur hægt að tryggja annan megintilgang gjafabréfsins, þ. e. að jörðinni verði vel viðhaldið og henni verði sýndur sá sómi, sem til er ætlazt af gefendum. Þá er enn fremur ákvæði í frv. um skyldur hreppsnefndarinnar, þ. e. seljanda, ef til þess kemur, að heimildin fáist til sölu á jörðinni, að sjá svo um, að söluverðinu skuli varið í sem nánustu samræmi við vilja gefendanna. En um söluverð fari eftir samningum milli aðila eða, ef þeir ekki nást, þá að mati dómkvaddra manna. Með þessu móti þykir nokkuð vel séð fyrir þörfum ræktunarsjóðs jarðarinnar. En stofnun hans, Ræktunarsjóðs Þykkvabæjar, var og er hitt meginatriði gjafabréfsins. Og okkur sýnist, að þeim hagsmunum, sem sjóðnum er ætlað að þjóna, sé þannig nægilega vel fyrir séð. Ef kaupverð jarðarinnar verður eitthvað nálægt því, sem gerist og gengur um jarðarverð almennt, ekki sízt á þeim slóðum, sem hér um ræðir, í Skaftafellssýslu, þá hlotnast sjóðnum þegar allálitleg fúlga, sem að öðrum kosti væri býsna langt í. Með bezta vilja verður því eigi annað álitið en sú ráðstöfun, sem frv. greinir um þessa gerð, sé tiltækari eins og máli er háttað en aðrar og mjög eðlileg eftir öllum atvikum.

Þetta frv. var til meðferðar á síðasta þingi, en hlaut ekki afgreiðslu, og ég vil geta þess, að þá voru ekki öll þau skilyrði í frv., sem nú eru þar sett að beztu manna yfirsýn. Það er ósk okkar flm., að frv. geti fengið fullnaðarafgreiðslu á því þingi, sem nú situr, og við væntum þess, að slíkur ágreiningur verði ekki uppi, að orðið geti til tafar framgangi málsins, eins og það er útlistað í grg., en henni fylgja ýmis fskj., sem eiga að upplýsa til fulls eðli málsins.

Að lokinni þessari umr. er þess óskað, að það verði látið ganga til 2. umr. og hv. landbn.