14.12.1968
Efri deild: 28. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1912)

108. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Benóný Arnórsson):

Herra forseti. Frv. því, sem hér er flutt á þskj. 139, um breyt. á l. nr. 19 10. maí 1965, um Húsnæðismálastofnun ríkisins, er ætlað að koma því til leiðar, að sveitarfélög, þar sem svo er ástatt, að þéttbýliskjarnar eru að myndast eða talið er æskilegt, að myndist, geti gerzt aðilar að lánum húsnæðismálastjórnar. Nú hef ég verið spurður að því, eftir að ég lagði frv. þetta fram, hvort ég héldi, að fátækir hreppar í sveitum landsins geti byggt leiguhúsnæði. Það er rétt, að flestir sveitahreppar eiga mjög erfitt með að ná endum saman fjárhagslega, en frumskilyrði fyrir því, að þeir geti eflzt, er, að þeir hafi möguleika á að laða til sín fólk. Það þarf að renna ýmsum stoðum undir sveitarfélögin nú á tímum, ekki síður en atvinnuvegina, slíkar byrðar eru nú lagðar á þau ár frá ári. Þess vegna er það stórt atriði, að hrepparnir geti haldið því fólki, sem áfram vill eiga heima í sveitunum, þótt það hafi ekki aðstöðu til búskapar. Íbúðabyggingar eru ekki neitt smáfyrirtæki í dag hér á okkar blessaða landi, og er þá ekki nein furða, þótt fólk vilji hafa nokkuð örugga endursölumöguleika á slíku fyrirtæki, en þeir eru vissulega mjög takmarkaðir meðan byggðakjarnar eru að myndast og festa að komast í athafnalíf þeirra.

Í því sveitarfélagi, sem ég þekki bezt til hefur á undanförnum árum verið að myndast smábyggðakjarni. Ég tel mig því hafa nokkra þekkingu á, hversu mikið atriði það er, að slík þróun eigi sér stað. Þess vegna er ég ekki í nokkrum vafa um, að sú aðstoð, sem sveitarfélögin geta veitt, ef frv. þetta verður að lögum, komi margföld aftur. Þá má gera ráð fyrir því, að eigi landbúnaður á Íslandi framtíð fyrir sér, myndist hér stétt landbúnaðarverkamanna, og er hennar raunar þörf í dag, þótt afkoma búanna hafi verið á þann veg, að þau hafa ekki þolað, að slík vinna væri keypt, og máske hafa líka húsnæðismálin ráðið nokkru þar um. Þá má og benda á, að þéttbýlismyndun í sveitum landsins ætti að auka líkur á því, að læknar fengjust til þess að starfa úti á landsbyggðinni, og væri þá vel. En það mál er að komast í þann rembihnút, að valdið getur straumhvörfum í íslenzku þjóðlífi, og verður að taka þau mál föstum tökum nú þegar og á þann hátt, að læknarnir þjóni fólkinu, en ekki fólkið læknunum.

Ég mun nú ekki hafa þessi orð öllu fleiri, því að ég hygg, að hv. þm. sé ljóst, hvað átt er við með frv. þessu. En benda vil ég þó á, að hætta er á, ef atvinnuleysisvofan færist yfir og langvarandi kreppuástand myndast, að skollið geti yfir annað fólksflutningatímabil úr sveitum og hinum strjálbýlli stöðum landsins, þá er aftur fer að lifna um atvinnu, því að sennilegt er, að það verði fyrr, þar sem þéttbýlið er mest. En hinar dreifðu byggðir þola ekki nýja blóðtöku í þeim efnum. Og skilji ráðamenn þjóðarinnar tímans kall, ættu þeir að vinna að því eftir mætti að færa smáiðnað og annan atvinnurekstur, er henta þætti, í sveitir landsins og fá í staðinn gróandi þjóðlíf.

Herra forseti. Ég legg til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. heilbr.- og félmn.