10.04.1969
Efri deild: 71. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

108. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Í þessu frv. til breyt. á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, sem flutt var af Benóný Arnórssyni, felst sú breyting, að húsnæðismálastjórn verði heimilað að veita lán til einstakra sveitarfélaga til byggingar leiguhúsnæðis utan kaupstaða og kauptúna, þar sem svo er ástatt, að þéttbýliskjarnar hafa myndazt, ef talið er æskilegt, að þeir myndist í sambandi við atvinnufyrirtæki eða menntasetur, en óvissir endursölumöguleikar íbúða hindra eðlilega byggingarstarfsemi að mati sveitarstjórnar, eins og í frv. segir. En eins og l. eru nú, er húsnæðismálastjórn einungis heimilt að veita þessi lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum og kauptúnum, en ekki utan þeirra, en það er sem sagt markmið frv. að víkka þessa heimild þannig, að hún geti í ýmsum tilfellum náð til húsnæðis, sem er byggt utan kaupstaða og kauptúna.

Þessu frv. var vísað til heilbr.- og félmn., og sendi n. það til umsagnar bæði til húsnæðismálastjórnar og til Sambands ísl. sveitarfélaga. Húsnæðismálastjórn sendi aldrei neina umsögn, en stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga mælti með því, að þetta frv. yrði samþ., en gaf um leið ábendingu um breyt., sem felst í því, að miða þetta fyrst og fremst við skipulagsskylda staði. Heilbr.- og félmn. tók upp þessa till. Sambands ísl. sveitarfélaga lítið breytta og gerði hana að sinni till., og hún kemur fram á þskj. 412, þar sem nál. er birt og þar sem segir, að n. hafi athugað frv. og mæli með samþykkt þess með þeirri breyt., sem þar greinir á eftir. En sú breyting felur það í sér, að húsnæðismálastjórn geti veitt sveitarfélögum lán til byggingar leiguhúsnæðis í kaupstöðum, kauptúnum og öðrum skipulagsbundnum stöðum, þannig að þetta er gert miklu einfaldara heldur en í frv. sjálfu. En með skipulagsbundnum stöðum er átt við þá staði, sem greinir í 4. gr. skipulagslaga, en í þeirri gr. segir, að skylt sé að gera skipulagsuppdrætti af öllum kaupstöðum, kauptúnum og þorpum, þar sem búa hundrað íbúar eða fleiri. Ráðh. getur að fengnu leyfi skipulagsstjóra úrskurðað, að ákvæði laga þessara nái til annarra staða heldur en um ræðir í 1. mgr. Þetta segja skipulagslögin og þar sem í okkar brtt. er talað um skipulagsbundna staði, eigum við við þá staði, þar sem skipulag hefur verið gert, annaðhvort vegna þess að það hefur verið skylt eða vegna þess, að ráðh. hafi úrskurðað svo.

Að vísu má segja, að við þessa orðalagsbreytingu á frv., sem n. gerir, komi það fram, að húsnæðismálastjórn geti einnig veitt lán til Öryrkjabandalags Íslands og til byggingar elliheimila á þessum skipulagsbundnu stöðum, sem er umfram það, sem stóð í frv. En nm. töldu alveg rétt, að þetta fylgdist allt saman að eins og verið hefur í l. En niðurstaða n. var sem sagt sú að mæla með því, að þetta frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem fram kemur á þskj. 412 og ég hef hér að framan lýst.