17.03.1969
Neðri deild: 65. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1700 í B-deild Alþingistíðinda. (1935)

120. mál, áfengislög

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Allshn. hefur lagt fram brtt. á þskj. 346 við frv. það, sem hér liggur fyrir til 2. umr., og ég vil taka það fram, að einstakir nm. áskilja sér rétt til að hafa óbundnar hendur í sambandi við atkvgr. um einstakar brtt., en n. í heild þykir þó rétt að flytja þessar till. Höfuðbreytingin í þeim er breyting sektarákvæða. Þau eru hækkuð, sérstaklega við þær greinar áfengislaganna, sem uppraunalega frv. nær ekki til, og þar eru sektarákvæði um 2½-földuð frá gildandi l. Eins eru allmargar brtt. um það, að í stað orðanna „Áfengisverzlun ríkisins“ komi: Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins. Fyrsta till. af þeim þremur, sem eru hér nýjar, er sú, að í 4. mgr. 12. gr. l. skuli í stað orðanna „ef telja má, að veitingahúsarekstur sé aðallega fyrir erlenda ferðamenn“ koma: á þeim tíma, sem heimsóknir erlendra ferðamanna eru að jafnaði mestar, þ. e. frá 1. júní til 30. sept. Þessi breyting er flutt fyrir beiðni Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda, en á aðalfundi þeirra samtaka, sem haldinn var 1968, er skorað á dómsmrn. að láta endurskoða áfengislöggjöfina varðandi vínsöluleyfi til handa þeim veitingahúsum, sem staðsett eru í þeim byggðarlögum, sem engin áfengisútsala er starfrækt í, en veitingahúsin annars talin fullnægja þeim kröfum, sem gerðar eru til vínveitingahúsa. Dómsmrn. sendi allshn. þessa beiðni Sambands veitinga- og gistihúsaeigenda og óskaði eftir því, að n. tæki upp þessa breytingu við áfengislögin.

Önnur breytingin, sem er nýmæli, er um það, að í 4. mgr., 1. tölul. 33. gr. áfengislaganna skuli í stað orðanna „skal skipið gert upptækt handa ríkissjóði með dómi“ koma: skal heimilt að gera skipið upptækt handa ríkissjóði með dómi. Ég tel, að ég þurfi ekki að fara um það mörgum orðum, að þegar líkt stendur á eins og í sambandi við hið svonefnda Ásmundarmál, þá hygg ég, að það sé skynsamlegra og réttara að hafa þetta orðalag þannig, að það skal heimilt í stað þess að hafa það skilyrðislaust, að skipið sé gert upptækt.

Þriðja brtt. er við 38. gr. áfengisl., á þá leið, að í stað orðanna „svo og með því að selja áfengi, án þess að neytt sé á staðnum“ komi: svo og með því að selja eða afhenda áfengi, án þess að neytt sé á staðnum, eða hann brýtur á annan hátt fyrirmæli, sem um áfengisveitingar gilda.

Að öðru leyti tel ég, að brtt. skýri sig sjálfar, en ég vil aðeins vekja athygli á því, sem ég raunar sagði, þegar ég fylgdi þessu frv. úr hlaði fyrir hönd allshn. við 1. umr., að allshn. hefur flutt þetta frv. að verulegu leyti óbreytt frá því, sem áfengismálanefndin lagði til, að öðru leyti en því, að við í allshn. höfum tekið úr alveg eina till. áfengismálanefndar um það, að hvert vínveitingahús, er vínveitingaleyfi hefur, skuli halda uppi fullkominni þjónustu án vínveitinga a. m. k. eitt laugardagskvöld af hverjum 4 eftir kl. 8 síðdegis samkv. reglum, sem ráðh. setur að fengnum till. áfengisvarnaráðs. Meiri hl. allshn. hefur ekki talið rétt að þröngva þannig kosti vínveitingahúsa af þeirri ástæðu, að hún telur það ekki vera til bóta, því að ásókn á hina staðina, sem opnir eru, yrði þá miklu meiri, og ég vil því bæta við, að ég tel að með því að leggja slíkar hömlur á veitingahúsin, geri það auðvitað meira heldur en að snerta mjög alvarlega þeirra rekstur. Hitt er miklu veigameira, að við komumst ekki framhjá þeirri staðreynd, að áfengisneyzla er allalmenn, og ég hygg, að það sé ekki spor í rétta átt að loka þessum vínveitingahúsum til þess að færa áfengisneyzluna enn meira inn á heimilin. Og ég hygg, að það muni hafa ráðið mestu um þá skoðun nm. í allshn. að vilja ekki taka þetta ákvæði upp í frv.

Að svo mæltu ætla ég ekki að hafa fleiri orð um þetta, en vil þó að lokum bæta því við, að eitt erindi hefur borizt enn til allshn., sem ekki hefur verið lagt fyrir n., en mun verða gert á milli 2. og 3. umr., svo að ef n. sýnist svo, getur enn komið ein brtt. við þetta frv.