18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1711 í B-deild Alþingistíðinda. (1941)

120. mál, áfengislög

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Það kemur að sjálfsögðu engum á óvart, þó að það komi enn einu sinni í ljós, að öldungadeildin í Framsfl. samanstendur af íhaldssömustu mönnum í þessu þjóðfélagi, m. a. í hlutum eins og þeim, sem við höfum verið að tala um. En ég get sagt eftir reynslu mína af útvarps- og sjónvarpsmálum og raunar í blaðamennsku yfirleitt, að sem betur fer gildir þetta ekki um nema lítið brot af Framsfl. T. d. sitja tveir framsóknarmenn í útvarpsráði, sem hafa reynzt frjálslyndir og tekið þátt í að gera þar ýmsar breytingar. Hingað til hafa þeir ekki haldið uppi gagnrýni á neitt svipaðan hátt og hv. þm. gerir hér. Það verður fróðlegt að sjá á útvarpsráðsfundi, sem verður seinna í dag, hvort fulltrúar Framsfl. taka upp þá kröfu 1. þm. Vestf., að Ríkisútvarpinu verði lokað fyrir Árna Gunnarssyni fréttamanni.

Hv. þm. gat ekki gert sér grein fyrir því, að orðið skoðanakönnun væri farið að hafa sérstaka merkingu, þ. e. að reynt er með úrtaki að komast að því, hvað allur fjöldinn telji um eitt eða annað málefni. Það er allt annað en viðtöl á förnum vegi. Viðtöl á förnum vegi við almennt fólk, sem valið er á ýmsan hátt, er þekkt fyrirbrigði bæði í blaðamennsku, útvarpi og sjónvarpi og þykir hvarvetna geta veitt hið ágætasta efni. Tilgangurinn með slíkum viðtölum í þætti Árna Gunnarssonar er fyrst og fremst að vekja umræður. Ef einhver heldur, að viðtöl við 4, 5 eða 6 menn, sem sagt er að séu valdir af handahófi, eigi að vera mynd af skoðun einhvers fjölda, þá er það hreinn misskilningur. Ég held, að hv. þm. ætti þá að reyna að hlusta betur og skilja, hvað stjórnendur þessara þátta segja. Hann hélt því fram, að óhlutdrægni Ríkisútvarpsins hefði verið brotin, af því að í einum viðtalsþætti reyndust fleiri vera fylgjandi hinum svokölluðu næturklúbbum en á móti þeim. Við erum að tala um áfengismál. og ég vil ítreka, að ég óska eftir því, að Ríkisútvarpið sé þá dæmt sem heild, hvort það sýni almennt hlutdrægni á móti bindindissemi og baráttu gegn áfengi. Ríkisútvarpið sem heild flytur svo mikið efni, sem lýsir áhuga og stuðningi við þá baráttu, sem háð er gegn áfengi og því tjóni, sem það veldur, að það er alveg fráleitt að halda því fram, að Ríkisútvarpið hafi sýnt nokkra slíka hlutdrægni.