18.03.1969
Neðri deild: 66. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1712 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

120. mál, áfengislög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef í raun og veru fáu að svara hv. 5. þm. Vesturl., vegna þess að hann gerði ekkert annað en að endurtaka það, sem hann var búinn að segja áður. Hann byrjaði bara á afturendanum og endaði á þeim fyrri. En það er ekkert við því að segja. Hann endurtók fullyrðingar sínar um það, að ég væri að ráðast á Árna Gunnarsson. Ég vissi ekki, hvað þessi maður hét, sem var að tala um klúbbana, auk heldur meira og hef aldrei þennan mann séð og veit ekkert um hann. Ég deili á Ríkisútvarpið, en ekki neinn starfsmann. Það er Ríkisútvarpið sjálft, það er útvarpsráð, það er m. a. þessi hv. þm., sem ber ábyrgð á því, 'sem birt er í útvarpinu. Hann var að tala um öldungadeildina í Framsfl. Er það þá unglingadeildin í Alþfl., sem stendur fyrir þessari skoðanakönnun þarna í útvarpinu eða hvað er það? Kannske það sé skýring í málinu. Hann sagði, að þetta væru bara viðtöl á förnum vegi, en þau koma í útvarpið, öll þjóðin hlustar. Er þá óhætt að koma með hvað sem er með því að kalla það viðtöl á förnum vegi? Það væri laglegt, ef menn tækju sér það fyrir hendur að fara að ræða t. d. stjórnarfarið í landinu, verðlagsuppbót á laun, skuldirnar við útlönd og fleira, en gerðu það bara á förnum vegi. Þá er það gott. Ég skal láta þetta duga.

Annar hv. útvarpsráðsmaður hefur tekið hér til máls og þó að hann langi auðheyrilega til þess að bera blak af útvarpsráði, þá varð hann að viðurkenna, að þetta væri vafasöm starfsemi. Jæja, það er þá í áttina. Ég hef þá haft eitthvað fyrir mér, fyrst ég fæ slíka játningu frá aðila úr „æðsta ráðinu“ þarna innfrá.

Hv. 4. þm. Vestf. drap á tvö atriði í brtt. okkar þremenninga við áfengislagafrv. Annað var það sem hann hneykslaðist alveg hroðalega á, að það væri gert ráð fyrir allt að 30 daga fangelsi fyrir að selja unglingum áfengi og taldi þetta eitthvert gífurlegt hneyksli. Ætli hann hafi lesið mikið áfengislögin? Í 39. gr. áfengislaga, sem nú eru í gildi, eru ákvæði um það, að hafi maður brotið gegn ákvæðum 18. gr. l. ítrekað, þá varðar það auk sektar fangelsi, allt að 3 mánuðum. Þar er átt við smygl. Þó að smygl sé út af fyrir sig ekki neinn virðingarverður atvinnuvegur, þá álít ég, að hinn sé þó enn þá verri, að temja sér að selja unglingum áfengi, og það sé ekki of djúpt tekið í árinni, að þeir, sem það gera, eigi á hættu 30 daga fangelsi, fyrst menn eiga á hættu þriggja mánaða fangelsi fyrir smygl. svo hér er ekki um neitt einsdæmi að ræða. Hv. þm. nefndi annað atriði sem sé það, að það væri ekki nóg að nefna nafnskírteini og ökuskírteini, það gæti komið einhver unglingur utan úr heimi, sem hefði þetta hvorugt, en hefði aftur á móti vegabréf og þess vegna þyrfti að standa í l., að menn sönnuðu aldur sinn á annan fullnægjandi hátt. Ég skal gera þann samning við hv. þm. undir eins að bæta inn í frv. vegabréfi, en fella niður orðin „á annan fullnægjandi hátt“, sem þýðir það, að áfengissalarnir sjálfir eiga að meta það, hvernig menn sanna aldur sinn, en þetta er ekki viðvíkjandi því að fá inngöngu í veitingahús, heldur aðeins hvort það er leyfilegt að selja unglingum áfengi. Ég get því mjög vel fallizt á þá hugmynd hans að bæta þessu inn, ef honum þykið það betra, vegabréf í staðinn fyrir orðin „á fullnægjandi hátt“.