08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1731 í B-deild Alþingistíðinda. (1966)

120. mál, áfengislög

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta til breyt. á áfengislögum, sem er allumfangsmikið mál. hefur alllengi verið til meðferðar á hv. Alþ., en það hefur nú legið svo að segja tvo vetur í Nd., hlaut ekki afgreiðslu þar á þinginu í fyrra, en nú fyrir skömmu var það afgr. úr Nd. hingað til hv. Ed. Ég hygg, að menn ættu að geta orðið sammála um, að það sé nauðsyn á að fara að ljúka þessu máli og afgreiða þennan lagabálk og kannske alls óviðeigandi að láta þetta mál vera miklu lengur til meðferðar Alþ. og mikil nauðsyn að reyna að ljúka því á þessu þingi, þó að vissulega sé ekki hægt að neita því, að Ed. hafi hér æðiskamman tíma til stefnu til þess að kryfja svo viðamikið mál til mergjar og óhjákvæmilegt sé að hraða afgreiðslunni hér og tími vinnist ekki til þess að athuga þetta mál eins gaumgæfilega og efni gætu staðið til. Auk þess, þar sem mjög er nú orðið stutt til þingslita, þá verður á það að líta, að alltaf er sá möguleiki fyrir hendi, að hér verði gerðar breyt. á þessu frv., þannig að það þurfi aftur að fara fyrir Nd., áður en málinu verður endanlega lokið.

Þetta frv. er upphaflega samið af mþn., sem Alþ. kaus á árinu 1964. Það frv., sem sú n. samdi, var síðan lagt fram í Nd. af allshn., en allshn. þeirrar d. mun hafa gert einhverjar breyt. á hinu upphaflega frv. mþn., áður en það var lagt fram. Síðar hafa svo í meðförum Nd. orðið ýmsar breyt. á frv. og ég skal ekki rekja hér, hvernig og frá hvaða tíma þessar breyt. eru eða hvað upphaflega kom frá mþn., hvað frá allshn., sem breytti því, áður en hún lagði það fram, og hvaða breyt. hafi síðan orðið í Nd., ég skal ekki fara að sundurliða það hér, heldur að ræða frv., eins og það nú liggur fyrir.

Þetta frv. liggur hér fyrir Ed. á tveimur þskj., þ. e. a. s. á þskj. 382 og þskj. 484. Það er vissulega nokkuð óaðgengilegt fyrir hv. dm., að menn skuli ekki hafa frv. í þeim búningi, sem það nú er, á einu skjali og verða þess vegna að lesa saman tvö skjöl til þess að átta sig á því, hvernig málið stendur.

Eins og sjá má, eru hér gerðar margvíslegar breyt. á áfengislöggjöfinni. Menn geta kannske haft skiptar skoðanir um það, hvort þessar breyt. séu út af fyrir sig róttækar, og sú breyt., sem róttækust var og kom fram í Nd., var þar felld, tillaga um þjóðaratkvæðagreiðslu um sterka bjórinn.

Ég skal nú leitast við að gera grein fyrir því í stuttu máli, í hverju helztu breyt. frá gildandi löggjöf eru fólgnar í þessu frv. Í nokkrum ákvæðum þessa frv. er einungis um þá breyt. að tefla, að sett er inn Áfengis- og tóbaksverzlun ríkisins í staðinn fyrir Áfengisverzlun ríkisins, og þarf ekki að fjölyrða um þá breyt. Einnig eru nokkur ákvæði um breyt. á sektum, þar sem krónutala sekta er yfirleitt nokkuð hækkuð, og tel ég ekki þörf á að gera þau ákvæði sérstaklega að umtalsefni.

En þá skal ég víkja að öðrum breyt., sem í þessu frv. felast. Það er þá fyrst 5. gr. frv., sem í sinni núverandi mynd er á þskj. 484 og er breyt. við 12. gr. gildandi áfengislaga. En í upphafi 12. gr. áfengislaga, eins og þau eru nú, segir: „Í kaupstöðum, þar sem áfengisútsala er, getur dómsmrh. veitt veitingahúsum leyfi til vínveitinga, þegar eftirtalin skilyrði eru fyrir hendi.“ — Þarna er í lögunum tekið skýrt fram: í kaupstöðum, þar sem áfengisútsala er, þannig að óheimilt hefur verið samkv. áfengislögum að veita vínveitingaleyfi veitingahúsum í kaupstöðum, þar sem áfengisútsala er ekki. Hins vegar er þessu breytt hér með 5. gr. frv. en í því segir, að dómsmrh. sé heimilt að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga, þegar eftirfarandi skilyrði eru fyrir hendi: að veitingahúsið hafi á boðstólum mat og fjölbreytta óáfenga drykki við hóflegu verði, og að veitingahúsið sé fyrsta flokks, að því er snertir húsakynni, veitingar og þjónustu. Þarna er sem sagt fellt niður það skilyrði, að það þurfi að vera áfengisútsala á þeim stað, þar sem veitingahúsið er.

Svo kemur enn fremur í niðurlagi þessarar 5. gr. frv. ákvæði, þar sem segir, að áður en vínveitingaleyfi er veitt, skuli leita umsagnar bæjarstjórnar eða sýslunefndar í þeim kaupstað eða sýslu, er í hlut á, og ráðh. er óheimilt að veita slíkt leyfi, ef hlutaðeigandi bæjarstjórn eða sýslunefnd reynist leyfisveitingu mótfallin. Og í niðurlagi þessarar 5. gr. segir: Utan kaupstaða er einungis heimilt að veita vínveitingaleyfi á þeim árstíma, sem heimsóknir erlendra ferðamanna eru að jafnaði mestar, þ. e. á tímabilinu frá 1. júní til 30. sept. Þetta á sem sagt við utan kaupstaða. En þetta er nokkuð breytt frá gildandi lögum, því að í 12. gr. áfengislaganna segir um þetta, að það sé heimilt utan kaupstaða að uppfylltum áður greindum skilyrðum að veita veitingahúsum leyfi til vínveitinga, ef telja má, að veitingahúsareksturinn sé aðallega fyrir erlenda ferðamenn. Þá er sem sagt ekki tiltekinn í lögunum neinn sérstakur árstími, eins og er í frv.

Þá er næsta breyt., sem ég vil gera hér grein fyrir. Það er 7. gr. frv. Hún er á þskj. 484, og í henni felst breyting við 14. gr. gildandi áfengislaga í fyrsta lagi varðandi lokun áfengisbúða. Í þessari gr. laganna hafa verið taldir upp þeir dagar, sem áfengisverzlanir eiga að vera lokaðar: 1. maí, 17. júní, sumardagurinn fyrsti o. s. frv., en þarna í frv. er bætt við fyrsta mánudeginum í ágúst, þ. e. frídegi verzlunarmanna. Og í C-lið 7. gr. frv. er sett fram nýtt ákvæði til viðbótar 14. gr. laganna, en í síðustu mgr. þessarar 14. gr. segir í gildandi lögum:

„Lögreglustjórum er heimilt að loka áfengisútsölu eða banna vínveitingar á veitingastöðum, sem leyfi hafa til áfengisveitinga, fyrirvaralaust um lengri eða skemmri tíma, þegar sérstaklega stendur á. Áfengisverzlun ríkisins eða veitingamaður, sem í hlut á, getur skotið ákvörðun lögreglustjóra til dómsmrh.

En hér er bætt við: „Á sama hátt er lögreglustjórum heimilt, ef sérstaklega stendur á, að banna um stundarsakir afhendingu áfengissendinga, þ. á m. úr pósti.“ Þetta ákvæði hygg ég að sé sérstaklega sett vegna verstöðvanna og síldarbæjanna, þar sem í fyrsta lagi kann nú að vera, að engin áfengisútsala sé, og í landlegum fá menn pantað vín annaðhvort í pósti eða á annan hátt, og jafnvel þar sem áfengisútsölur eru, en þeim er svo með þessu skilyrði lokað, þá vilja menn bæta sér þetta upp með því að fá sendar í skyndingu stórar sendingar, og það var talið, sérstaklega af lögreglustjórum á þessum stöðum, að það væri alveg nauðsynlegt að fá þessa viðbótarheimild til þess að þetta bann 14. gr. kæmi að fullum notum, þegar það á við.

Næsta breyting, sem ég ætla að gera hér að umtalsefni, er við 16. gr. áfengislaganna, þ. e. 9. gr. frv. á þskj. 382, en í henni segir:

„Áfengi má ekki afhenda né veita neinum, sem er bersýnilega ölvaður. Óheimilt er að selja þeim manni áfengi, sem sekur hefur gerzt um óleyfilega sölu eða bruggun áfengis. Skylt er að tilkynna útsölustöðum Áfengis- og tóbaksverzlunar ríkisins jafnóðum, hverjir gerzt hafa sekir um ólöglega sölu eða bruggun áfengis.“

Þetta er í sjálfu sér ekki sérstakt nýmæli, sem ég hef enn lesið, en það er áframhaldið, sem segir í þessari 9. gr. frv.:

„Yngri mönnum en 20 ára má ekki selja, veita eða afhenda áfengi með nokkrum hætti. Ávallt þegar ástæða er til að ætla, að kaupandi eða viðtakandi áfengis hafi ekki náð þessum aldri, skal sá, sem selur, veitir eða afhendir það, láta hlutaðeiganda sanna aldur sinn á þann hátt að sýna nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt.“

Aðalbreytingin hér er sú, að aldursmörkin eru lækkuð úr 21 ári niður í 20 ár og er það að sjálfsögðu til samræmis við þær breytingar á aldursmörkum, sem gerðar hafa verið á undanförnum árum að því er varðar kosningarrétt og kjörgengi, lögræði, hjúskap og annað þess háttar, og var auðvitað talið eðlilegt, að við það aldursmark yrði einnig miðað hér, þ. e. að 21 ár yrði lækkað í 20 ár eins og undir öðrum tilvikum. Í þessari gr., sem ég las, er líka hert nokkuð á þessu, þannig að það er tekið fram, að yngri mönnum en 20 ára megi ekki selja, veita eða afhenda áfengi með nokkrum hætti. En þetta er nýmæli og kveðið þarna nokkuð fastara að orði heldur en í gildandi lögum.

Þá er næsta breyting, sem ég geri hér að umtalsefni, 10. gr. frv. á þskj. 382, og það er einkum b-liðurinn, en í þessari 10. gr. felst breyting við 17. gr. áfengislaga, en við þá grein skal bæta nýrri mgr. svo hljóðandi samkv. frv.: „Áfengissendingar skulu greinilega merktar þannig, að séð verði á umbúðum, að innihald sendingarinnar sé áfengi ætlað til neyzlu. Nú leikur vafi á, hvort áfengi sé í sendingu, og skal þá hlutaðeigandi afgreiðslumaður, þ. á m. póstafgreiðslumaður, neita að taka við sendingu.“ Það er auðvitað nauðsynlegt í sambandi við það, sem áður er fram komið, að hægt er að stöðva afgreiðslu áfengissendinga úr pósti eða áfengissendinga yfirleitt, hvort sem það er úr pósti eða á annan hátt, að áfengissendingarnar séu greinilega merktar.

Þá kem ég að 11. gr. frv., sem er á þessu sama þskj. 382. Í henni felst breyting við 19. gr. áfengislaga, og með þessari 11. gr. er lagt til að ný mgr. bætist aftan við l9. gr., sem hljóði þannig:

„Ökumönnum leigubifreiða og annarra almenningsbifreiða er bannað að taka ölvuð ungmenni yngri en 20 ára til flutnings í bifreiðum sínum eða leyfa þeim áfengisneyzlu þar. Þó skal heimilt að flytja slík ungmenni án tafar til heimila þeirra, til lögregluyfirvalda og á sjúkrahús. Þá er ölvaður maður óskar flutnings með leigubifreið eða annarri almenningsbifreið, eða farþegi í slíku farartæki neytir áfengis í því, skal bifreiðarstjóri krefjast þess, að hlutaðeigandi sanni aldur sinn með nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt, ef hann hefur ástæðu til að ætla, að hlutaðeigandi hafi ekki náð 20 ára aldri.“

Ég hygg nú, að þetta ákvæði sé upphaflega tilkomið vegna almennrar ölvunar ungmenna á útiskemmtistöðum á sumrin og menn hafi litið svo á, að þarna vantaði nauðsynlega lagaheimild til að hamla gegn þessu. Kann að vera álitamál, hvort það sé alls kostar auðvelt að framkvæma þessa lagagr., eins og hún hljóðar hér.

Þá kem ég að 12. gr. frv., en í henni felast breytingar við 20. gr. laganna. Við þessa 20. gr. á samkv. frv. að bæta tveimur nýjum mgr. sem hljóða þannig:

„Bannað er að bera með sér áfengi inn á veitingastað, annað en það, sem þangað er flutt til heimilla veitinga. Á sama hátt er bannað að bera með sér áfengi út af veitingastað.“

Þetta hefur ekki áður verið í lögunum, en ég geri nú ráð fyrir, að eftir slíkum reglum hafi verið farið, þó að þær hafi e. t. v. ekki stuðzt við alveg skýra lagaheimild. En það er 2. mgr. þessarar 12. gr., sem er ein þýðingarmesta breytingin við þessi lög, en í henni segir: „Ungmennum yngri en 18 ára er óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem vínveitingar eru leyfðar, nema í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Dyraverðir, eftirlitsmenn og framreiðslumenn skulu láta ungmenni, er koma á slíka staði eða dveljast þar eftir kl. 8 að kvöldi án samfylgdar foreldra sinna eða maka, sanna aldur sinn á þann hátt að sýna nafnskírteini með mynd eða á annan fullnægjandi hátt, enda sé ástæða til að ætla, að hlutaðeigandi hafi ekki náð 18 ára aldri.“

Það er þá fyrst þessi regla, að ungmennum yngri en 18 ára sé óheimil dvöl eftir kl. 8 að kvöldi á veitingastað, þar sem vínveitingar eru leyfðar. Þetta er aðalreglan eftir frv. og undantekningar einungis leyfðar, ef þessi ungmenni eru í fylgd með foreldrum sínum eða maka. Ég hygg, að á veitingastöðum hafi gilt sú regla, að það megi hleypa inn ungmennum allt niður í 16 ára aldur. Í áfengislögunum eins og þau eru nú er að vísu sagt, að ekki megi veita neinum, sem er yngri en 21 árs áfengi, en í lögunum hefur ekki, að því er ég bezt fæ séð, verið sett nein regla niður á við, sem segir, hvað menn mega yngstir koma þarna inn. Um þetta efni hefur verið farið eftir lögreglusamþykktum, sem, held ég, almennast leyfa 16 ára ungmennum og eldri að fara á veitingastaði, þó að vín sé haft þar um hönd. Að vísu munu kannske einhverjir vínveitingastaðir hafa sett sjálfir aðrar reglur og jafnvel í sumum tilfellum ekki hleypt þeim, sem eru yngri en 21 árs, inn. Þetta er auðvitað mikið vandamál, eins og allir sjá, að á veitingastað, þar sem vín er haft um hönd og vínveitingar eru heimilar, skuli reglan vera sú, að þeir, sem eru orðnir 21 árs, mega kaupa þar áfengi og neyta þess, en hinir, sem hafa rétt til að vera þar og eru yngri, hafa ekki rétt til þess að njóta þar áfengisveitinga. Það er auðvitað alveg augljóst mál, að þetta hlýtur að vera mjög örðugt í framkvæmd og fyrir þá, sem reka veitingahús og vinna við veitingastarfsemi á slíkum stöðum, má segja, að þetta hljóti eiginlega að vera nær óframkvæmanlegt að gæta lagareglnanna að þessu leyti. En það má þó segja, að miðað við það, sem verið hefur, þar sem 21 árs menn mega njóta áfengis, en 16 ára unglingar mega koma inn, sem ég hygg að sé nú aðalreglan, þó að þetta kunni nú að vera eitthvað breytilegt eftir stöðum, og ég þekki þetta nú ekki svo nákvæmlega, að ég geti fullyrt þetta alveg, þá má segja, að bilið minnkar þó anzi mikið með þessu frv., þannig að nú mega þeir, sem eru 20 ára, neyta áfengis og þeir, sem eru yngri en 18 ára, mega ekki koma inn á staðina nema alveg í sérstökum undantekningartilfellum, þegar þeir eru í fylgd með foreldrum eða maka, þannig að það má vissulega segja, að samkv. frv. sé nokkuð dregið úr vandanum, þó að hann sé alls ekki leystur að fullu.

Þá vík ég að 13. gr. frv. Hún snertir eingöngu kjör áfengisvarnaráðunauts og segir þar, að hann taki laun samkv. kjarasamningum opinberra starfsmanna.

Um 14. gr. er nú ekkert sérstakt að segja. Þar er einungis vitnað til laga um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra og breytinga, sem gerðar hafa verið á þeim, frá því að áfengislögunum síðast var breytt á Alþ.

Í 15. gr. þessa frv. er nýmæli, sem segir, að dómsmrh. sé heimilt að fela félagsmálaráði Reykjavíkur störf áfengisvarnanefndar í Reykjavík að nokkru eða öllu leyti. Ráðh. kveður á um starfssvið í reglugerð. Skipan félagsmálaráðs, fjöldi ráðsmanna og kjörtímabil ákvarðast af borgarstjórn Reykjavíkur. Það er eðlilegt, þar sem í Reykjavík hefur verið stofnað sérstakt félagsmálaráð, sem fer með störf áfengisvarnanefndar og reyndar fleiri, þá sé þessi lagabreyting þörf og ráðinu heimilað að fara með áfengisvarnir samkv. áfengislögum.

Önnur ákvæði skal ég ekki fara hér út í. Það, sem eftir er að rekja, varðar nær eingöngu brot á lögunum, þar sem krónutala sekta er hækkuð, eins og eðlilegt er, og auðvitað sett sektarákvæði við þeim nýmælum, sem í þessu frv. greinir.

Þessu frv. var vísað til allshn., og ræddi allshn. það nokkuð, þó að tími væri heldur naumur til stefnu miðað við það, að þetta mál þarf helzt að afgreiðast frá þessu þingi. Ég hygg, að einstakir nm. hafi nokkuð mismunandi skoðanir á þessu frv. eða einstökum ákvæðum þess, og niðurstaðan í n. varð því sú í þessu máli, eins og oft vill verða undir hliðstæðum kringumstæðum, að n. mælti með því, að þetta frv. yrði samþ., en einstakir nm. áskildu sér þó allan rétt til þess að flytja brtt. við frv. eða fylgja brtt. við það, sem fram kynnu að koma.