08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1741 í B-deild Alþingistíðinda. (1971)

120. mál, áfengislög

Auður Auðuns:

Herra forseti. Ég hef leyft mér á þskj. 594 að flytja brtt. við frv. Mín brtt. er ofur einföld og er efni hennar það, að aftan við 15. gr. frv. komi ákvæði um heimild til handa dómsmrh. til að fela félagsmálaráði, ef sveitarstjórn utan Reykjavíkur ákveður að koma slíku á stofn hjá sér, störf áfengisvarnanefndar að nokkru leyti.

Á s. l. hausti var haldin ráðstefna Sambands ísl. sveitarfélaga um félagsmál, og þar var samþykkt ályktun, þar sem því var beint til stjórnar sambandsins, að hún ynni að því, að gerðar yrðu þær breytingar á lögunum, sem nauðsynlegar væru til þess að sveitarstjórnir fengju heimild til að fella undir eina stjórn meðferð félagsmála í sveitarfélögunum með stofnun sérstaks félagsmálaráðs, og falla þá að sjálfsögðu störf áfengisvarnanefndar undir þann flokk mála, félagsmál, og er þessi brtt. flutt að beiðni stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

Hv. síðasti ræðumaður, 11. þm. Reykv., flutti hér skriflega brtt. áðan, og eins og kom fram í hans ræðu, — ég kom nú reyndar ekki í þd. fyrr en eitthvað var liðið á ræðuna, — þá lét hann þess getið, að í þd., sem hefur til meðferðar frv., sem hann er 1. flm. að, þar sem lagt er til, að framlag til Gæzluvistarsjóðs verði ákveðið sem hundraðshluti af tekjum Áfengisverzlunarinnar, þar hef ég lýst mig fylgjandi því, að þeirri till. yrði vísað til ríkisstj., og get ég þegar lýst því yfir í samræmi við þá afstöðu mína þar, að ég mun ekki sjá mér fært að greiða hans till. atkv., og skal ég ekki fjölyrða frekar um það.