13.05.1969
Efri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1746 í B-deild Alþingistíðinda. (1993)

218. mál, skólakostnaður

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Frv. þetta er komið frá Nd. og fékk þar þá afgreiðslu, að það var samþ. einróma. Menntmn. hv. Ed. hefur rætt frv. og var sammála um að mæla með því, að þeir héraðsskólar, sem reistir hafa verið af ríki og sveitarfélögum og ekki hafa verið afhentir ríkinu samkv. l. nr. 34 frá 18. apríl 1962, skuli sitja við sama borð og húsmæðraskólar, en um þá segir svo í 29. gr. skólakostnaðarlaga: „Þó geta sveitarfélög, sem að húsmæðraskóla standa, að fengnum till. skólanefndar fyrir 1. sept. 1968, ákveðið, að skipting rekstrarkostnaðar skólans skuli áfram fara eftir reglum l. nr. 41/1955.“

Frv. það, sem hér liggur fyrir til umr., er hins vegar ónákvæmt orðað, að því er varðar skiptingu kostnaðar, þar sem sagt er í 1. gr., að slíkir héraðsskólar skuli starfa áfram eftir l. frá 1955. Menntmn. hefur orðið ásátt um að bera fram brtt. á þskj. 711, þar sem orðalag er bundið við rekstrarkostnað og því í fullu samræmi við undanþáguheimildir þær, sem húsmæðraskólar hafa í skólakostnaðarlögum. Mér þykir rétt að vekja athygli hv. dm. á umsögn Aðalsteins Eiríkssonar, eftirlitsmanns fjármála skóla, sem er að finna í álitsgerð hans, er barst hv. menntmn. Nd. Þar segir hann m. a.: „Við afgreiðslu l. nr. 49/1967 var, svo sem kunnugt er, samþykkt, að húsmæðraskólar mættu vera áfram undir ákvæðum l. nr. 41/1955, ef sveitarfélög óskuðu þess, þar sem sýnt þótti, að ákvæði hinna nýju l. yrðu sveitarfélögum mjög í óhag, hvað snerti þennan skólakostnað. Sama gildir og um skóla eins og héraðsskólann á Laugum. Var það raunar vangá ein, að ekki var vakin athygli á þessum eina héraðsskóla, sem nú er kostaður sameiginlega af ríki og sveitarfélögum.“ Þetta er álit eftirlitsmanns með fjármálum skóla og studdi það mjög að þessu áliti menntmn. d., að það bæri að mæla með þessari breyt., sem hér er borin fram. En eins og ég gat um áðan, þá sýndist n. orðalag 1. gr. frv. vera ónákvæmt, og hefur n. því komið sér saman um það orðalag, sem er á gr. á brtt. á þskj. 711. Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta frv. að sinni, en ég vil leggja áherzlu á þá till. menntmn., að frv. verði samþ. með þeirri breyt., sem er að finna á þskj. nr. 711.