24.03.1969
Efri deild: 62. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2002)

186. mál, útflutningur hrossa

Frsm. (Steinþór Gestsson):

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að þessu sinni að rekja svo mjög efnisatriði þessa frv. Það er, eins og fram kemur í grg„ flutt af landbn. að beiðni Ræktunar- og útflutningsfélags stóðbænda. Þær breytingartill., sem Búnaðarþing gerði á s. l. vetri við þær till., hefur landbn. fellt saman, og er frv. flutt samkv. því. En ég sé ástæðu til að fara nokkrum almennum orðum um þessi mál, ef það gæti orðið til þess að skýra þau nokkuð fyrir hv. alþm.

Það mun vera öllum kunnugt, að á fyrstu 2–3 áratugum þessarar aldar var allmikill útflutningur á hrossum héðan frá Íslandi. Voru hrossin fyrst og fremst notuð í kolanámum í Stóra-Bretlandi, og varð þarna um verulegan útflutning að ræða og sæmilegt verð, að því er talið var þá, fyrir þau hross, sem út voru flutt. Eins og allir þekkja, þá eru þessi verkefni úr sögunni fyrir hestana. Vélar hafa verið teknar til þess að leysa þá af hólmi í þessum efnum. Féll því sú sala niður með öllu, og var enginn útflutningur á hrossum frá Íslandi um skeið. Útflutningur mun hafa hafizt að nýju eftir 1950. Þá var breytt um vinnu fyrir hrossin, þannig að nú voru þau seld til þess að vera sporthestar fyrir fólk ýmist á meginlandinu ellegar á Bretlandi. Höfuðútflutningurinn hefur beinzt til V.-Þýzkalands, nokkuð til Hollands, Sviss og nú að síðustu til Danmerkur og til Bandaríkjanna. Þetta munu vera helztu löndin, sem hafa keypt hross héðan frá Íslandi. Á árinu 1968 munu hafa verið flutt út 650 hross, ung og gömul. Fyrir þennan útflutning mun hafa fengizt á árinu 1960 nokkuð á 10. millj. kr., og er því meðalverð á hross rúmlega 13 þús. kr. Þetta meðalverð er ekki hátt miðað við það, sem er hér á hrossum innanlands, en þess ber þó að gæta í þessu sambandi, að nokkuð verulegur hluti af útflutningshrossunum mun hafa verið folöld, og að sjálfsögðu hefur það dregið verðið nokkuð niður. En þó er það svo, að almennt er það álit þeirra, sem þarna þekkja til, að þetta verð hefði getað verið nokkuð hærra, ef verulega vel hefði verið staðið að þessum málum af okkar hendi.

Horfurnar í þessum útflutningsmálum eru þær nú, að eftirspurn er allmikil eftir hrossum og einkum frá þeim löndum, sem áður hafa keypt af okkur. Í V.-Þýzkalandi og Bandaríkjunum er vaxandi eftirspurn, í Danmörku er hún miklu meiri en hún hefur verið að undanförnu og í Hollandi er nokkur eftirspurn. Að sjálfsögðu hefur gengisbreytingin, sem gerð var á s.l. hausti, haft nokkur áhrif á verðið til framleiðenda hérna heima fyrir, þannig að ég hygg, að nú fáist fyrir hross, sem verið er að kaupa og flytja úr landi um þessar mundir frá 20 þús. og upp í 60 þús. kr., þ. e. þegar miðað er við tamin hross. Þarna er allmiklu betra og mikið betra verð um að ræða en verið hefur áður. Verðið er hækkandi erlendis. Þessi útflutningsvara er lúxusvara, og sölumöguleikar okkar eru til þess að gera góðir á þessu sviði vegna þess, hversu framleiðslan hér er lítil miðað við stærð þess markaðar, sem við förum inn á. Þetta verð, sem ég hef nefnt hér — 20 þús. til 60 þús. kr., er að sjálfsögðu miðað við, að þetta séu valin hross, sem fara úr landi. Og ég verð að segja, að mér finnst, að það sé það, sem við þurfum fyrst og fremst að keppa að, þ. e. að flytja út sem allra bezta vöru á þessu sviði, því að það segir sig sjálft, að í þessari verzlun eins og annarri, þá hefur það úrslitaáhrif á sölumöguleikana í framtíðinni, að vandað sé til þeirrar vöru, sem verið er að selja. Hins vegar hefur það viljað brenna við á undanförnum árum, að farið hefur gripur og gripur, sem hefur langt frá því staðizt þær kröfur, sem gerðar hafa verið til þeirra af kaupandanum, og hefur að sjálfsögðu rýrt álit á þeirri framleiðslu, sem við höfum verið að koma í verð. Eins og getið er um í grg. með þessu frv. þá er það einn megintilgangur með flutningi þessara till. að koma við þeirri vöruvöndun, sem líkleg væri til þess að stuðla að því, að við ynnum og kæmumst inn á tryggari markað en fram til þessa hefur verið.

Og annar liður í þessu efni, sem ekki er hægt að ganga fram hjá, þegar rætt er um útflutning á hrossum, er, að nú er svo komið, að úti á meginlandi Evrópu — a. m. k. í V.-Þýzkalandi og Danmörku og e. t. v. víðar — er hafin nokkur ræktun á íslenzka hestinum. Þeir hafa fengið útflutta kynbótagripi og geta því ræktað hross af okkar stofni, og það er komið af stað á nokkrum stöðum, og um það hefur nokkuð verið deilt, hvort þar hafi verið farið inn á rétta braut eða ekki. Ýmsir telja, að eðlilegra hefði verið, að við hefðum einir haft ræktun hrossanna með höndum, en aðeins selt gelta hesta úr landi, svo að öðrum gæfist ekki kostur á að hefja ræktun hrossa af íslenzkum stofni. Því er til að svara, að mér er ekki kunnugt um, að það þekkist nokkurs staðar um víða veröld að einoka ræktun á einstökum kynjum. Kynbótakýr eru fluttar milli landa hvarvetna og af ýmsum búfjárkynjum, og reynslan virðist vera sú, þegar litið er á þetta mál í heild, að þar sem sérstakir stofnar hafa verið ræktaðir í heimalandi, virðist vera mjög erfitt að koma fram jafngóðri ræktun í nýju umhverfi og fá það sama út úr ræktun kynjanna í nýju umhverfi og hægt er í þeirra heimalandi. Þetta á ekki einungis við um hesta. Þetta á við um flest þau búfjárkyn, sem ræktuð hafa verið.

Mér er kunnugt um það t. d., að sá mjólkurkúastofn, sem einna mest hefur verið sótzt eftir í veröldinni, er ræktaður hingað og þangað út um heimsbyggðina, en það er ævarandi, að alltaf er verið að kaupa nýja kynbótagripi frá heimalandinu til þess að halda við þeim kostum, sem ræktaðir voru heima í upprunalegu heimalandi þessa búfjárkyns. Ég hygg því, að það fari ekki á milli mála, að við eigum einmitt að nota okkur af þessu sama. Við eigum að stuðla að því, að það sé mögulegt að rækta íslenzka hesta annars staðar en hér heima, og ef sú ræktun tekst sæmilega hjá okkar viðskiptaþjóðum, þá hygg ég, að þetta verði fyrst og fremst til þess að auka hróður okkar hestakyns og það verði aldrei til þess, að við lendum í hættulegri samkeppni vegna þess, eins og ég gat um áðan, hvað markaðssvæðið er stórt, sem við þurfum að fara inn á, en okkar framleiðsla lítil. Auk þess hygg ég, þó að ég kunni ekki að sanna það hér með dæmum, að á erlendri grund verði ekki hægt að framleiða nákvæmlega sömu gerð af íslenzka hestinum og við framleiðum hér heima. Einmitt þessi svipur, sem er á honum, þegar við komum honum héðan úr landi, virðist vera mjög eftirsóknarverður hjá þeim, sem njóta hestsins erlendis, og ef við stöndum nægilega fast saman um það og tryggjum nægilega vel okkar kynbótastarfsemi hér heima fyrir, þá hygg ég, að við munum eiga á þessum vettvangi mikið verk að vinna — verk, sem á að svara þeim kostnaði, sem til þess verður lagður. Hvar sem okkar íslenzki hestur hefur verið tekinn í notkun meðal annarra þjóða, þá hefur hann þótt sérstæður og hefur unnið sér hylli hvarvetna, þar sem hann hefur komið, sem sérlega góður og þægilegur reiðhestur.

Ég hygg, að það frv., sem hér er flutt, muni stuðla að því, að meiri festa komist á útflutning á þessum verðmæta varningi, sem við getum flutt úr landi og tryggt okkur sölumöguleika á í framtíðinni betur en nú er hægt að gera. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þetta að sinni, herra forseti, en ég legg til að frv. verði vísað til 2. umr.