08.05.1969
Neðri deild: 90. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

211. mál, heimild að selja Keflavíkurkaupstað landssvæði sem tilheyrði samningssvæði varnarliðsins

Frsm. (Friðjón Þórðarson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. þessarar hv. d. hefur fjallað um frv. þetta til l. um heimild fyrir ríkisstj. til að selja Keflavíkurkaupstað landssvæði, sem áður tilheyrði samningssvæði varnarliðsins. Flm. eru úr röðum þm. í öllum flokkum. Frv. var sent til umsagnar jarðeignadeildar ríkisins, landnámsstjóra og varnarmáladeildar utanrrn. Umsagnir hafa borizt frá þessum aðilum og eru allar á einn veg, að ekkert sé við frv. þetta að athuga. Á hinn bóginn hefur borizt bréf frá lögmanni Keflavíkur h.f., en jörðin Keflavík átti hluta af því landi, sem tekið var eignarnámi samkv. heimild í 8. gr. l. nr. 24 frá 12. febr. 1945. Telur hann eða umbjóðendur hans, að brostin sé forsenda fyrir eignarnáminu, ef hinu eignarnumda landi sé skilað aftur eða það selt öðrum. Eigi þá fyrri eigandi rétt til þess að leysa til sín landið á ný — a. m. k. sé það til athugunar. Af umsögn varnarmáladeildar kemur fram, að land þetta hafi verið eignarnumið með yfirvirðingargerð dags. 12. jan. 1948. Séu því nú liðin rúmlega 21 ár, síðan eignarnámið fór fram. Almennt er litið svo á, að eignarnám sé eigi látið ganga til baka á umræddan veg, enda þótt aðstæður breytist á líkan hátt og hér er um að ræða, enda eru engin ákvæði um forkaupsrétt eignarnámsþola að finna í eignarheimildum að þessum landssvæðum. Að þessu athuguðu ákvað n. að mæla með samþykkt frv.