17.12.1968
Neðri deild: 32. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

98. mál, ráðstafanir vegna landbúnaðarins

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Mér kom það dálítið á óvart áðan, hvað 2. umr. um þetta mál lauk með snöggum hætti; ég vissi ekki betur, þegar umr. var frestað um daginn, en að hér væru menn á mælendaskrá. Þeir virðast hafa fallið frá því að flytja ræður sínar. Ég hef haft hug á því að koma á framfæri örlítilli fsp., áður en málið færi frá okkur í þd. Einn nefndarmanna í meiri hl. landbn., hv. 5. þm. Vesturl., skrifar undir nál. með fyrirvara. Hv. þm. hefur hins vegar ekki gert neina grein fyrir því, hvað í fyrirvaranum felst. Mér er mikil forvitni á því að fá vitneskju um þetta. Og ég ber þá fsp. ekki fram að ástæðulausu; það er alkunnugt, að verið hefur verulegur ágreiningur milli stjórnarflokkanna um afstöðuna til landbúnaðarmála. Á flokksþingi Alþfl. í haust voru samþykkt eins konar skilyrði fyrir áframhaldandi stjórnarsamstarfi í 8 liðum, tveir þessara liða fjölluðu um landbúnaðarmál, og síðasti liðurinn var svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ákvörðun um að breyta stefnunni í landbúnaðarmálum smám saman í það horf, að landbúnaðurinn framleiði fyrst og fremst fyrir innanlandsmarkað, þannig að útflutningsbætur sparist og sömuleiðis þeir núverandi styrkir, sem einkum hvetja til offramleiðslu.“

Þegar þetta frv. kom fram frá hæstv. ríkisstj., minntust margir þess, að hliðstæð upphæð hafði í fyrra verið notuð til þess að auka útflutningsuppbætur. Og þegar þetta frv. kom fram, gerast þau tíðindi, að forystugrein birtist í Alþýðublaðinu, málgagni hv. 5. þm. Vesturl. Ég vil einnig leyfa mér að lesa upp þá forystugrein, hún er stutt, með leyfi hæstv. forseta. Hún er svo hljóðandi:

„Miklar birgðir eru nú til af landbúnaðarafurðum, aðallega kjöt, sem flytja á út. Við gengisbreytinguna hækkaði verðmæti þessara afurða í ísl. kr. verulega og skapaðist þar allmikill ágóði. Nú hefur verið flutt á þingi stjfrv. þess efnis, að gengisgróða þessum skuli ráðstafað í þágu landbúnaðarins, samkvæmt ákvörðun landbrn. Þetta virðist harla einkennilegt frv. Hafa menn gleymt því, að ríkissjóður verður að greiða mörg hundruð millj. kr. með þessari útflutningsvöru? Er ætlunin, að ríkið haldi áfram að greiða útflutningsuppbætur, en að landbúnaðurinn eigi að taka til sín gengisgróðann? Heilbrigð skynsemi virðist benda til þess, að auðvitað eigi útflutningsuppbætur að lækka sem nemur gengisgróðanum.“

Þetta er sú stefna, sem mörkuð var í Alþýðublaðinu gagnstæð tilgangi þessa frv. Og því vil ég spyrja hv. þm. Benedikt Gröndal, hvort það felist í fyrirvara hans, að hann hafi fengið tryggingu fyrir því, að þessari upphæð verði varið á þennan hátt.