14.04.1969
Efri deild: 73. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (2068)

198. mál, loðdýrarækt

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég bjóst nú kannske við því, að einhver andstæðingur loðdýraræktar stæði hér upp til þess að koma fram með aths. við þetta frv.

Má vera, að þeir eigi eftir að gera það. En ég stend ekki hér upp beinlínis til þess að hafa á móti því, að loðdýrarækt verði reynd hér að nýju, heldur vil ég gera grein fyrir því, hvernig á því stendur, að ég er ekki einn af meðflm. þessa frv., þó að ég eigi sæti í hv. allshn., en meiri hl. þeirrar n., 5 af 7, flytur frv., eins og þskj. 403 ber með sér.

Ég ætla að leyfa mér að rekja örlítið aðdragandann að því, hvernig þessi flutningur er til kominn. Eins og hv. frsm. gat um hér áðan, hv. 7. landsk. þm., skipaði landbrh. þann 16. des. 1968 5 manna n. til að endurskoða frv. til 1. um loðdýrarækt, sem var til meðferðar á síðasta Alþ. og þá vísað til ríkisstj. vegna of lítils undirbúnings og fleiri atriða. Þessari n. var enn fremur falið að athuga þau atriði, sem máli kynnu að skipta í sambandi við loðdýraeldi hér á landi, og gera till. til rn. um, hvort leyfa skuli minkaeldi hér á landi eða ekki. Ef n. kæmist að jákvæðri niðurstöðu, skyldi hún gera till. um, hvernig um minkabú skuli búið og um aðrar varúðarráðstafanir, er skipta kynnu máli til þess að verja þessa nýju atvinnugrein áföllum og náttúru landsins tjóni. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um störf þessarar n., þá eru þau þannig, að hún hóf störf 10. janúar s. l. og hefur haldið nokkra fundi. Hún boðaði til sín nokkra menn til að upplýsa málið, en eftir því, sem mér er frá skýrt, mun ekkert nýtt hafa komið þar fram frá því, sem áður var komið fram í fyrra, þegar landbn. Nd. Alþingis hafði málið til meðferðar, enda má kannske segja, að þess hafi ekki verið að vænta, þar sem n. ræddi við sömu aðila og landbn. gerði. N. varð svo ekki sammála um afgreiðslu málsins, eins og hv. frsm. greindi frá. Meiri hl., þeir Ásberg Sigurðsson, Jónas Pétursson og Bragi Sigurjónsson, sem munu hafa verið, a. m. k. tveir þeirra, flm. að því loðdýraræktarfrv., sem fyrir Nd. var í fyrra, leggja vitanlega til, að loðdýrarækt verði leyfð, en minni hl., sem í áttu sæti Stefán Valgeirsson alþm. og Örnólfur Thorlacius menntaskólakennari, lítur svo á, að n. hafi alls ekki haft aðstöðu til að kanna málið eins og landbrh. hafði lagt fyrir n. að gera og þess vegna sé ekkert á því að byggja, sem frá n. kemur á þessu stigi.

Í grg., sem ég hef undir höndum frá þessum tveimur nm. í minni hl., í bréfi, sem þeir munu hafa skrifað hæstv. landbrh., segja þeir m. a., með leyfi forseta; ég sé ekki annað en rétt sé, að þeirra álit komi hér fram, þar sem þegar er búið að prenta og vísa til álits meiri hl., og ég leyfi mér þess vegna að lesa hér dálítinn kafla úr þessari skýrslu. Það er þá svona:

„Enginn nm. hefur neina reynslu eða sérþekkingu varðandi minkarækt, og því hlýtur n. að þurfa talsverðan tíma til þess að kynna sér málið, ef hún á að vera þess umkomin að taka afstöðu til þess, sem byggð sé á könnun, eða gera till. um gerð mannvirkja, þar sem fyllsta öryggis sé gætt, eftir því sem það er hægt, og hins, að kostnaður fari ekki úr hófi fram, hvað þá um annað, sem málið varðar. Benda má á ýmis atriði í grg. meiri hl., sem þarfnast frekari athugunar. Þar er t. d. fullyrt, að fóðurkostnaður standi því fyrir þrifum, að minkarækt hafi aukizt á Norðurlöndum og í Kanada undanfarin ár. Minni hl. bendir á þann möguleika, að markaðsörðugleikar ráði hér miklu og telur fráleitt, að flutt verði frv. um minkarækt fyrr en markaðsmálin eru betur könnuð. Mjög ábatasamur liður í loðdýrarækt og verzlun er fólginn í sölu lífdýra til annarra búa, einkum nýrra loðdýrabúa. Ber því að taka með varúð áhuga erlendra aðila á endurvakningu minkaræktar á Íslandi á þessum tímum, þegar girt virðist fyrir útþenslu möguleika þessarar atvinnugreinar innanlands hjá þeim. Frá því að minkarækt var lögð niður á Íslandi, hafa miklar framfarir orðið í fræðilegri fóðrun, hirðingu og kynbótum aliminka, svo sem fram kemur í grg. meiri hl. Frumskilyrði þess, að minkaeldi verði arðvænlegur atvinnuvegur hér á landi er vitanlega, að íslenzkir minkaræktendur tileinki sér þessi vísindalegu vinnubrögð. Erlendis munu aliminkar aldir á fóðurblöndum með þekktri og mjög jafnri samsetningu. Þó að fiskúrgangur frá sumaraflanum ásamt ýmsum úrgangi og ruslafiski, svo að vitnað sé í grg. meiri hl, geti eflaust orðið undirstaða verðmæts minkafóðurs, þarf að auka þessa undirstöðufæðu ýmsum steinefnum og bætiefnum. Búast má við, að þessi viðbót þurfi að vera breytileg eftir efnasamsetningu úrgangsfisksins og ekki fáist úrvalsskinn af minkum nema óslitið fræðilegt eftirlit sé haft með blöndun fóðursins. Ef miðað verður við erlenda reynslu, yrði trúlega hagkvæmast að setja upp sérstakar blöndunarstöðvar, þar sem úr fisk- og sláturúrgangi ásamt tilskildum viðbótarefnum væri framleitt fullgilt minkafóður í stað þess, að fiskúrgangur af breytilegri samsetningu færi beint í hakkavélina, eins og meiri hl. gerir ráð fyrir í grg. sinni. Hér er greinilega svo sem í fleiri atriðum þörf frekari könnunar, og búast má þarna við kostnaði, sem ekki er gert ráð fyrir í lauslegri athugun Efnahagsstofnunarinnar. Að athuguðu máli leggur minni hl. til. að n. fái málið til endurskoðunar, byggi afstöðu sína á könnun, en ekki trú eða trúleysi á þýðingu þess fyrir þjóðina og verði búin að ljúka störfum fyrir næsta reglulegt Alþingi, enda er það í fullu samræmi við erindisbréf nefndarinnar.“

Þetta var úr skýrslu minni hl. þeirrar n., sem hæstv. landbrh. skipaði til þess að athuga fram komið frv. frá í fyrra um loðdýrarækt, en auk þessa sameiginlega álits hefur svo einn nm., Örnólfur Thorlacius, skilað sérstöku áliti til landbrh„ þar sem hann fjallar fyrst og fremst um málið frá náttúruverndarlegu sjónarmiði. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að lesa þetta bréf í heild. Það er alllangt, en með leyfi forseta vil ég vekja athygli á fáeinum atriðum, sem í því eru:

„Ýmis umsvif i atvinnulífi nútíma þjóðfélags eru þess eðlis, að náttúru lands eða sjávar er af þeim nokkur hætta. Með vaxandi menntun almennings og auknum tómstundum eykst skilningur manna á þeim auði, sem fólginn er í óspilltri náttúru, auk þess sem rányrkju á náttúruauðlindum fylgir oft fjárhagslegt tjón. Þegar innflutningur minka hófst hér fyrir 40 árum tæpum, urðu náttúrufræðingar og ýmsir fleiri aðilar til að vara við því tjóni, sem af þessu dýri mundi hljótast, ef það næði að ílendast hér. Þessum viðvörunum var ekki sinnt, en þær hafa nú löngu sannazt.

Þegar nú er íhugað, hvort leyfa skuli minkaeldi á nýjan leik hérlendis, ber að athuga, hver hætta náttúru landsins geti enn stafað af þessari atvinnugrein og meta, hvort ágóði af minkaeldi verði slíkur, að hann réttlæti, að banninu gegn minkaeldi á Íslandi verði aflétt.“

Síðar segir hér í þessu bréfi: „Aliminkar, sem úr haldi sleppa, hegða sér á allt annan veg en villiminkar, sem fyrir eru í landinu og aðhæfzt hafa hér aðstæðum. Nægir í þessu sambandi að vekja athygli á því, að á meðan minkarækt var stunduð hérlendis, bárust tíðar fréttir af spjöllum, sem minkar unnu á alifuglum, auk þess sem minka varð oft vart í þéttbýli, jafnvel inni í höfuðborginni. Nú er minkastofninn í landinu mun stærri og útbreiddari en þá var, en samt fréttist sjaldan um ásókn minka í hænsn eða aðra alifugla, og menn verða á allan hátt minna varir við villiminka en áður. Ástæða er til að ætla, að spjöll þau, sem nýsloppnir minkar valda á villtri náttúru landsins, einkum á fuglalífi, séu líka meiri en búsifjar af völdum hagvanra villiminka. Ýmsir vísindamenn telja t. d., að nýsloppnir aliminkar æxlist örar en minkar, sem komnir eru í jafnvægi við umhverfið.“

Ég sé ekki ástæðu til þess að svo stöddu að vitna frekar í þetta bréf. En framhaldið að því er snertir hv. allshn. er svo það, að formaður n. kemur með þau tilmæli á fund frá hæstv. landbrh., að n. flytji það frv., sem meiri hl. þeirrar n., sem ég áður vísaði í, stendur að. Ég tel þessi vinnubrögð mjög einkennileg, satt að segja. Frv. er vísað til hæstv. landbrh. til athugunar vegna ónógs undirbúnings, eins og ég hef rakið. Það fer fram nokkur athugun á því frv. í n„ sem ekki verður sammála um niðurstöður þess. Hæstv. landbrh. tekur við frv. á ný og fær svo hv. allshn. Ed., til að flytja það frv. Ég átta mig ekki fyllilega á þessu. Hver er afstaða hæstv. landbrh. til frv.? Ber þá að skilja þetta frv. og þessa málsmeðferð svo, að hæstv. landbrh. hafi ekki treyst sér til sjálfur að flytja þetta frv. eða hver er meiningin? Ég sé, að hæstv. landbrh. er ekki viðstaddur, enda telur hann sjálfsagt þetta ekki lengur sitt mál. Aðrir hafa tekið það upp á sína arma, og er ekkert við því að segja. Þeir svara þá kannske fyrir hann, ef þeim finnst það ómaksins vert. En þessi vinnubrögð voru nú því valdandi, að ég sá enga ástæðu til þess að taka þetta ómak af hæstv. landbrh. að flytja þetta frv. og þess vegna er ég nú ekki meðflm. að því, en alls ekki vegna þess, að ég hafi endanlega myndað mér þá ákveðnu skoðun, að alls ekki megi taka hér upp loðdýrarækt. Ég er t. d. algerlega sammála hv. 7. landsk. þm. um það, að fordómar, sem byggðir eru á fyrri mistökum, eru varasamir. Ég er alls ekki þeirrar skoðunar, að þó að við höfum ekki getað sinnt minkarækt fyrir 30–40 árum og ekki haft ástæður, fjármagn eða kannske þekkingu til þess að loka þá inni í nægilega tryggum búrum, þannig að þeir slyppu ekki, þá getum við það ekki í dag. Það er ekki það, sem ég er hræddastur við í þessu sambandi, alls ekki. Og ég tek alveg undir hans ummæli um það. Aftur á móti er ég alls ekki eins viss og hann virðist vera um það, að hér sé um arðvænlega atvinnugrein að ræða. Ég er ekki kunnugur þessu máli erlendis, engan veginn. En ég hef þó ekki komizt hjá því að sjá fregnir af því, t. d. á s. l. ári, að loðdýrabændur á Norðurlöndum, a. m. k. í Danmörku og Noregi, urðu að drepa helminginn af stofninum til þess að halda uppi verðinu. Eitthvað virðist mér þessar fréttir geta kannske bent til þess, að markaðsmöguleikar íslenzkra loðskinna, ekki sízt þá á meðan þau eru á einhverju frumstigi, geti verið erfiðir. Ég skal þó ekkert fullyrða um það. Þá tek ég alveg undir það, sem sagði í skýrslu minni hl., að ég tel þessa áætlun frá Efnahagsstofnuninni, — rekstraráætlun um rekstur minkabús — mjög lauslega, mjög svo lauslega, svo að ekki sé meira sagt.

Hv. 7. landsk. sagði, að n. sú, sem sett var að tilhlutan landbrh. til þess að athuga þessi mál. hefði kvatt á fund sinn ýmsa menn. Ég rengi það ekki á nokkurn hátt. En hvað sögðu þessir menn? Það liggur ekki fyrir t. d. í nál. eða í grg. Það liggur ekkert fyrir. Hvaða menn voru þetta? Hv. 7. landsk. upplýsti það að nokkru. Minni hl. n. segir, að það hafi verið sömu mennirnir og voru búnir að láta í té umsögn um frv., þegar það var fyrr á ferð í hv. Nd., og ég veit ekki, hvort menn hafa búizt við því, að þeir hefðu aðra skoðun á málinu 6 mánuðum síðar, en þeir virðast ekki hafa haft það.

Ég skal svo ekki vera að halda hér langa ræðu um þetta mál. sérstaklega vegna þess, að eins og ég segi, þá hef ég ekki enn þá gert það upp við mig, hver afstaða mín er til frv., og það, að ég flutti ekki frv., er af öðrum ástæðum, eins og ég hef rætt hér, en ekki það, að ég væri endilega eindregið mótfallinn því. En ég tel alveg fráleitt, að frv. fari ekki til n., alveg fráleitt. Frv. er ekki flutt af n. Það er flutt af nokkrum mönnum í n. Ég man ekki betur, þegar n. var að koma sér saman um það að flytja frv., að þá væru margir nm., sem létu þess getið, að þeir vildu hafa fyrirvara um það, hvort þeir fylgdu því raunverulega eða ekki. Þeir gerðu þetta í þægðarskyni og greiðaskyni við hæstv. landbrh. og ég get skilið það að ýmsu leyti. En ég man ekki betur heldur en a. m. k. sumir nm. væru óákveðnir í því þá, hvort þeir mundu fylgja því til endaloka eða ekki. Þess vegna tel ég, að frv. eigi að fara til n. Og satt að segja tel ég, að þetta frv. eigi að fara til landbn., þó að það sé flutt af nokkrum mönnum í allshn. og ég rökstyð það á þann hátt, að loðdýrabúskapur samkv. eldri l. a. m. k. heyrði undir landbrn. og Búnaðarfélagið að nokkru leyti. Ég veit, að það er ekki gert ráð fyrir því beinlínis í þessu frv., en væntanlega verður nú eitthvert rn. að fjalla um þetta. Hafa menn gert sér það ljóst, hvaða rn. það er, sem á að hafa endanlegt úrskurðarvald um ýmis atriði, sem frv. varðar? Er það kannske viðskmrn. vegna gjaldeyrisins, sem aflast, eða kannske sjútvmrn. vegna þess, að úrgangurinn kemur aðallega þaðan? Nei, það er landbrn. Og er þá ekki réttast, að hv. landbn. fjalli um þetta mál eins og önnur mál. sem landbúnað varða? Þar að auki er það hæstv. landbrh., sem hefur beitt sér fyrir flutningi þessa frv., eins og kom fram af framsöguræðu hv. 7. landsk. Og þó að honum finnist kannske afkvæmið ekki sérlega frítt, þá er hann ekkert of góður, finnst mér, til þess að bera ábyrgð á því, því að að hans frumkvæði er málið flutt, og eins og önnur mál. sem frá honum koma, álít ég eindregið, að málið eigi að fara til hv. landbn. og það er till. mín.