14.04.1969
Efri deild: 73. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1763 í B-deild Alþingistíðinda. (2069)

198. mál, loðdýrarækt

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég vildi nú aðeins leggja hér fáein orð í belg, eingöngu vegna þess, að ég er formaður þeirrar n., sem þetta mál fékk til meðferðar frá landbrn., þ. e. formaður allshn. Í fyrstu leit nú út fyrir það, að allshn. yrði sammála um að flytja þetta frv., en þá með þeim áskilnaði, að hver nm. hefði frjálsar hendur, eins og það er kallað og er nú nokkuð tíðkað, þegar n. flytja frv., þannig að nm. skuldbindi sig ekki um stuðning við frv., þegar það kæmi hér til kasta þd. En þessi varð ekki niðurstaðan. Það varð þannig, að n. klofnaði og 5 nm. stóðu að flutningi frv., en tveir stóðu ekki að þeim flutningi. Ég skildi þetta þannig, þegar málið var afgreitt, að þessir nm., sem skipuðu meiri hl. allshn., skuldbundu sig þar með til þess að styðja málið í grundvallaratriðum, þ. e. að þeir hefðu frjálsar hendur um einhverjar minni háttar breytingar, en að þeir væru í grundvallaratriðum fylgjandi frv., en hefðu ekki eins frjálsar hendur og annars tíðkast eða hefði verið gert, ef öll n. hefði flutt frv. Auðvitað má um það deila, fyrir hvaða n. slíkt frv. á að bera, en þetta var sent allshn. og ef hv. 11. þm. Reykv. hefði þá verið eindregið þeirrar skoðunar, að það væri landbn., sem ætti að fjalla um málið, — ég viðurkenni vel að þetta getur verið matsatriði, — þá finnst mér, að það hefði átt að koma fram í allshn., eða hún hefði átt að taka þá afstöðu og segja: N. telur ekki eðlilegt, að hún fjalli um þetta mál og sendir það aftur til baka til rn. Það var ekki gert, heldur tók n. þá afstöðu, eða meiri hl. hennar, að flytja málið. Mér finnst þess vegna mjög óeðlilegt, að eftir að meiri hl. tiltekinnar n. hefur flutt mál, sé því vísað til annarrar n. hér í hv. d., og mér finnst raunar óþarft, úr því að meiri hl. n. flytur málið, að vísa því formlega til n. Hitt finnst mér hins vegar eðlilegt, ef hér koma fram við 1. eða 2. umr. málsins aths. við frv. og till. til breytinga, að þá komi allshn. saman og fjalli um það, án þess að um formlega vísun til n. sé að ræða. Það held ég, að hafi oft verið tíðkað, og það fyndist mér eðlilegast í þessum tilvikum.

Hv. 11. þm. Reykv. var nú að gagnrýna þessa meðferð hæstv. landbrh. að senda málið til allshn. og taldi, að eiginlega hefði n. verið að taka af honum vandann. Hann hefði þá átt að flytja þetta sjálfur. Það er nú allalgengt, að rn. og ráðh. sendi mál til n. og óski eftir því, að n. flytji það. Og þess vegna er það ekkert nýtt í þessu efni. Um skoðanir landbrh. veit ég ekki. En mér skilst þó samt sem áður, að ef hv. 11. þm. Reykv. hefði verið landbrh. í þessu tilfelli, þá hefði hann nú farið eitthvað svipað að, því að hann hefur ekki, að mér skilst, og ég er ekkert að álasa honum fyrir það, gert upp hug sinn endanlega til málsins. Hvað ætti t. d. ráðh. að gera, sem ekki væri búinn að gera upp við sig sjálfur, hvort hann styddi mál eða ekki? Væri ekki eðlilegast að reyna að koma þessu á framfæri við þingið á þennan hátt, eins og gert var hér. En ég vil sem sagt undirstrika það, að ég tel alveg óþarft að vísa málinu til n., eins og það er fram borið, og alls ekki viðeigandi, að það lendi þá hjá annarri n. heldur en þeirri, sem fjallaði um það frá upphafi.