25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1767 í B-deild Alþingistíðinda. (2076)

198. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni hl. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Eins og hv. frsm. meiri hl. allshn. hv. d. hefur getið um, varð ekki samkomulag í n. um þetta mál. Það var aðeins einn fundur í þessu máli haldinn og hann skammur og engir til kallaðir til athugunar málsins, og meiri hl. n., 6 nm. af 7, leggur til að frv., eins og það hér liggur fyrir, verði samþ. Ég gat ekki fallizt á þessa afgreiðslu málsins og leyfði mér því að skila séráliti sem minni hl. allshn. Frv. um sama efni, loðdýrarækt, hefur tvívegis áður með nokkru millibili legið fyrir Alþ. og verið um það nokkur ágreiningur. Hinn 16. des. s. l. skipaði hv. landbrh. 5 manna n. til að endurskoða frv. til l. um loðdýrarækt, sem borið hafði verið fram af nokkrum þm. á þingi 1965–1966. N. skipuðu þeir Ásberg Sigurðsson borgarfógeti, form., og alþm. Bragi Sigurjónsson, Jónas Pétursson og Stefán Valgeirsson og Örnólfur Thorlacius menntaskólakennari. Þessi mþn. mun hafa tekið til starfa 10. jan. s. l. og síðan haldið nokkra fundi. Hún mun hafa kallað nokkra menn á sinn fund til athugunar og ráðagerða í sambandi við þetta frv. Flestir, ef ekki allir, þessir menn hafa oft og sumir æði oft verið kvaddir til álitsgerðar um þetta sama efni. Eigi kemur það fram í grg. fyrir þessu frv. né í áliti meiri hl. mþn., hvað þessir menn, sem kvaddir voru til fundar við mþn., hafi álitið um þetta mál. Ég segi fyrir mig, að mér þætti t. d. fróðlegt að vita, hvað yfirdýralæknir hefur sagt, því hann mun hafa verið kvaddur á fund mþn. En svo, þegar til kom, var mþn. alls ekki samdóma. Meiri hl., Ásberg Sigurðsson, Bragi Sigurjónsson og Jónas Pétursson, samþykkti að mæla með framgangi þessa frv., sem nú liggur hér fyrir hv. Ed., en þeir Stefán Valgeirsson og Örnólfur Thorlacius lögðu til, að mþn. hefði málið áfram til frekari könnunar.

Í grg. minni hl. mþn. er lagt til, að nefndin fái málið til endurskoðunar og byggi afstöðu sína til þessa frv. og málsins í heild ekki á trú eða trúleysi á þýðingu þess fyrir þjóðina, heldur á gagngerðri rannsókn málsins allt til botns, og enn fremur gerir minni hl. till. um það í sinni álitsgerð, að mþn. verði búin að ljúka störfum fyrir næsta reglulegt Alþ., enda sé það í samræmi við skipunarbréf mþn. Engar nýjar upplýsingar virðast liggja fyrir fram yfir það, sem áður hefur verið, að öðru leyti en því, að frv. fylgir nú lausleg áætlun um rekstur þúsund læðna minkabús á Íslandi, og þessi áætlun er gerð af Efnahagsstofnun ríkisins í febr. s. l.

Ég vil enn minnast á nokkur atriði úr álitsgerð minni hl. Þar segir t. d., að n. hafi haft allt of skamman tíma til starfa, til þess að tóm gæfist til að kynna sér málið, t. d. hjá erlendum aðilum, svo að nokkuð sé á að byggja, en aðeins er getið um einn erlendan aðila í grg. með frv., sem gagna kvað hafa verið leitað hjá, og það er „Dansk Pelsdyravlerforening“. En um innlenda sérfræðinga er víst væntanlega ekki að ræða, því að við eigum enga slíka, sem eru sérfróðir um minkaeldi, ekki enn sem komið er. Enn fremur segir í álitsgerð minni hl., að hann líti svo á, að mþn. hafi alls ekki haft aðstöðu til að kanna málið eins og landbrh. lagði fyrir hana að gera, og því ekkert á því að byggja, sem frá mþn. kemur á þessu stigi málsins. Þetta segir í álitsgerð minni hl. mþn. Og þetta er sagt nokkrum vikum áður en frv. það, sem hér liggur fyrir, er lagt fyrir Alþ. Hér þykir mér vægast sagt fast að orði kveðið af hálfu minni hl. mþn., en af þessari yfirlýsingu verður vart annað ráðið en að mþn. hafi alls ekki í dag lokið sínu áætlunarverki. Og það er nokkurt alvörumál. ef mþn. hefur skotið sér undan því að sinna því, sem fyrir hana var lagt í erindisbréfinu. Þó ekki væri nema af þessari sök einni, þá er að mínu áliti sú ein aðferð rétt hér hjá okkur í hv. Ed. að ljúka málsmeðferð að sinni og að málsefnið allt í heild verði tekið til gagngerðrar og ítarlegrar athugunar af hálfu þeirra, sem höfðu það verkefni á hendi og var fengið það í hendur af hálfu hv. landbrh. Eftir þá könnun mætti ætla, að nokkurn veginn fengist heildarsýn yfir þetta mál, þannig að allir megindrættir a. m. k. væru nægilega ljósir.

En til viðbótar þessu, sem ég hef nú rakið um störf n. og álit minni hl. mþn., vil ég leyfa mér að bæta örfáum atriðum við, sem mættu verða til umhugsunar við frekari könnun málsins, ef til þess kæmi.

Í grg. frv. er að því vikið, að ekki sé ólíklegt, að minkaeldi sé fremur á fallanda fæti, a. m. k. í þrem ríkjum, ef ekki fjórum, þ. e. a. s. í Danmörku, Finnlandi og Kanada og jafnvel Svíþjóð, og er talið, að orsökin muni vera sú, að fóðurkostnaður í minkaeldi sé orðinn svo mikill og reksturinn því svo dýr, að það sé vafasamt a. m. k., að nokkur framför verði eða drift í minkaeldi í þessum ríkjum. En mætti ég spyrja: gætu ekki enn fremur komið aðrar orsakir til? Ég hygg, að í Danmörku t. d. vanti ekki sláturúrgang. Danir eru með fiskveiðar og þær eru ekki á fallanda fæti. Þær eru fremur í framför, og það mætti segja mér, að fiskúrgangur mundi e. t. v. fremur aukast, a. m. k. hjá Dönum og ég gæti trúað hjá Kanadamönnum líka, því að þar er mikil fiskrækt stunduð, eins og við vitum öll. Þetta er sem sagt alveg ókannað, en því er slegið fram, að aukinn fóðurkostnaður geti leitt til þess, að minkaeldi verði miður stundað á næstu árum en verið hefur í þessum fjórum ríkjum, sem ég minntist á.

Það er hvergi getið um það í grg., hvorki hjá meiri hl. mþn. né í grg. fyrir frv. hér, með hverjum hætti væri líklegast, að við kæmumst inn á yfirfyllta og mjög viðkvæma grávörumarkaði víðs vegar í heimi. Er það nokkuð víst, að við getum, ef til kæmi, framleitt slíka vöru, að fyrir hana fengist jafnan eitt hæsta markaðsverð? Þetta er að sjálfsögðu ókannað, og þetta verður ekki kannað til fulls nema við reynslu, það skal viðurkennt. En hitt er annað, að það er ekki vikið að því í grg. frv. einu orði að kalla, hverjar líkur mættu teljast til þess, að við kæmumst inn á þennan viðkvæma grávörumarkað með okkar skinn, þannig að þar yrði um markaðsverð að ræða, sem við gætum sætt okkur við eða þyrftum.

Þá vitum við það, að minkaeldi er orðin mun viðkvæmari atvinnugrein en hefur verið, vegna þess að strangari kröfur eru nú gerðar til gæða og útlits og annars slíks, og hún er því mjög áhættusöm atvinnugrein og áfallagjörn. Kunnugir segja, að ekkert megi bera út af í fóðrun og hirðingu og kynbótum aliminka, og því er yfirleitt slegið föstu, að hér sé um vísindagrein að ræða, sem okkur Íslendingum er að mestu — eða kannske má segja að öllu ókunn, eins og hún er rekin í dag hjá öðrum þjóðum. Þá eru verðsveiflur æðimiklar á markaðnum, og í grg. meiri hl. mþn. er getið um, hverjar þær hafa verið á nokkrum síðustu áratugum. Kemur það í ljós, að verðlækkunartímabil hafa orðið ein sjö á síðustu áratugum og sum hver staðið yfir allt að tveim árum, hvert fyrir sig. Og þá er þess einnig getið í grg. fyrir frv., að í Bandaríkjunum hafi meðalverð á skinnum lækkað 1965–1967 frá 10% aukningu í 26.7% lækkun á verði. Þetta eru allverulegar sveiflur, en koma engum okkar að sjálfsögðu á óvart.

Áætlun Efnahagsstofnunar ríkisins fjallar um þúsund læðna minkabú hér á landi, og í þessari áætlun er stuðzt við upplýsingar frá aðeins einum aðila, sem ég hef nefnt hér áður, dönskum, sem sjálfsagt hefur reynslu, því skal ekki neitað. Í áætlun Efnahagsstofnunarinnar kemur fram, að fjármagn er áætlað í slíkt bú röskar 10 millj. kr. og hreinn hagnaður reynist við útreikning Efnahagsstofnunar ríkisins 295 þús. kr. Nú er það svo, að í frv. sjálfu er gert ráð fyrir því, að sérfræðingar fjalli um fóðrun og meðferð þessara dýra, ef til kæmi, og það yrðu sjálfsagt erlendir sérfræðingar. Ég er býsna hræddur um það, að þeir mundu kosta meira en um getur í áætlun Efnahagsstofnunar ríkisins, þótt ég að sjálfsögðu geti ekki sannað það, en ég efast um, að þeir fengjust fyrir þá fjárhæð, sem þar er nefnd, og ég hygg, að um fleiri kostnaðarliði sé líku máli að gegna. Það megi efast um það, að þeir fái allir staðizt. Og í niðurstöðu Efnahagsstofnunarinnar segir á þessa leið: „Miðað við þær upplýsingar og forsendur, sem byggt er á, þá virðist vænlegt, að gerð sé tilraun til minkaræktar á Íslandi.“ En hér liggur fyrir okkur hvorki meira né minna en heildarfrv. um loðdýrarækt og gert ráð fyrir því, að ekki sé um ýkja miklar hömlur að ræða fram yfir það, sem leiðir af sjálfu sér og nauðsynlegt er, þannig að menn almennt, sem hafa nægilegt fjármagn í hendinni, geti lagt í að stofna til minkabús, ef þeir fullnægja þeim skilyrðum, sem sett yrðu í 1. samhljóða ákvæðum þess frv., sem hér liggur fyrir.

Svo segir Efnahagsstofnunin líka: „En hafa ber í huga, að sumt í athuguninni er varla nógu ítarlegt.“ Það gæti bæði verið til hækkunar og lækkunar á einstökum liðum. Ég skal ekki segja um það, en athugunin er sem sagt varla nógu ítarleg, segja þeir sjálfir, sem hana hafa gert. Fyrir efunarmenn í þessum málum eru slíkar upplýsingar væntanlega ekki ýkja sannfærandi um þjóðhagslegt gildi minkaræktar og þaðan af síður til að byggja á heildarlöggjöf um loðdýrarækt í landinu sem atvinnugrein. Það virðist líka eðlilegra samkvæmt þessari ályktun Efnahagsstofnunar ríkisins, að gerð væri tilraun með nokkur minkabú, ef mönnum sýndist svo. Þá vil ég geta þess, sem ekki þarf þó, því það er á allra vitorði, að hér ríkir í okkar landi geigvænlegur fjármagnsskortur og hefur farið sífellt vaxandi nú um sinn, og hans gætir í öllum undirstöðuatvinnugreinum landsmanna og raunar út um allt efnahagskerfið. Þegar svo mikill vandi er þeim mönnum á höndum, sem fást við þessar atvinnugreinar og aðrar, gæti maður ætlað, að við stöldruðum a. m. k. aðeins við, þegar lagt er til að stofnað sé til svo mikillar fjárfestingar, því að það þarf meira en lítið til að hefja hreinlega nýja atvinnugrein — eða a. m. k. í alveg nýju horfi frá því sem áður var — og fjármagna hana með tugum milljóna kr. Ég hygg, að margur mundi hugsa sem svo, að það væri eitthvað annað nauðsynlegra nú í bráðasta ganginn, vegna þess að í margt af því, sem þjóð okkar er ekki aðeins þarft, heldur líka nauðsynlegt til framdráttar í dag, vantar fjármagn, svo að þetta er að sjálfsögðu til athugunar eins og nú standa sakir. Árið 1965, þegar frv. um sama efni lá fyrir hv. Alþ., þá var ekki sá fjármagnsskortur og það getuleysi í þessum efnum, sem nú ríkir.

Erlend fóðurefni til minkaeldis eru mjög dýr sum hver. Þau þyrfti að flytja inn til landsins, a. m. k. 40% og jafnvel 40–50% af heildarverði fóðurs. En innlendu fóðurefnin eru miklu drýgri að magni. Gæti nú ekki svo farið, að hin innlendu fóðurefni, t. d. fiskúrgangur og sitthvað fleira af því tagi, margfölduðust að verðgildi í útflutningi, þegar til kemur. Kunnugt er það, að vísindamenn víða um heim fást við rannsóknir í þeim tilgangi að búa til fóðurmjöl til manneldis úr ýmsum slíkum úrgangi. Ef það tækist, sem maður skal vona að verði innan tíðar, þá er ekki vafi á því, að þessi svokölluðu úrgangsefni gætu orðið ákaflega verðmikil bæði hér hjá okkur á innlendum markaði og ekki síður til útflutnings á erlendum markaði. Og þá er spurningin þessi líka: Eru ekki íslenzku fóðurefnin allt of lágt reiknuð inn í áætlunardæmi Efnahagsstofnunar ríkisins? Hingað hefur til okkar alþm. borizt bréf frá Náttúrufræðifélaginu. Ásamt með þessu bréfi slæddist plagg, að vísu óundirritað, en þar er reiknað með gerólíkum og hærri tölum í sambandi við fiskúrgang og sláturúrgang heldur en Efnahagsstofnun ríkisins gerir í sinni áætlun. Nú skal ég ekki dæma um sannleiksgildi þessarar kostnaðaráætlunar eða athugasemdar um kostnaðaráætlun, sem barst með þessu bréfi, en hitt er annað mál, að mér finnst rétt, þegar tæpt er á slíku, að það sé tekið til yfirvegunar, hvað sé rétt í málinu, því að ef þessar athugasemdir um kostnaðaráætlunina eru réttar, þá skýtur hér æðiskökku við og niðurstaðan í áætlun Efnahagsstofnunar ríkisins með breyttum tölum verði þá mjög neikvæð, þ. e. a. s. það yrði mikill halli á rekstri minkabúsins. En sem sagt, ég vil óska eftir því, að þessi athugasemd, þó að hún sé ekki sérlega formlega í stakk búin, verði til þess, að þetta verði athugað og bæði ég og aðrir, sem erum fremur fáfróðir í þessu efni, fáum nægilegar upplýsingar í hendur um það, og ég tel, að varla megi minna vera. Loðdýrarækt er alls ekki nýr atvinnuvegur hér á landi. Minkaeldi var stundað hér um nærfellt tveggja áratuga skeið og við mjög dapurlega reynslu og lauk með þeim ósköpum, að þjóðin hlaut hina verstu plágu af, villiminkinn alræmda, og hann hefur valdið, eins og við vitum öll. ómetanlegu tjóni á náttúru og hlunnindum, víðast hvar um land, þar sem hann hefur komið við. Það er því varla undrunarefni, þó að mörgum Íslendingi sé það mjög fjarri skapi að stofna að nýju til minkaræktar og telji mikils þurfa við, ef að því ráði yrði horfið, og hvað sem öllu öðru líður í sambandi við vörzlu á minkum, þá er það almennt viðurkennt, að minkar muni alltaf sleppa úr haldi meira og minna, það verði aldrei hægt að girða fyrir það. Hversu margir sérfræðingar sem væru tilkallaðir og hversu margir verðir, getur slíkt hent, að allir minkar gætu sloppið úr búri, ef því er að skipta, og ekki er til meiri vargur í véum heldur en nýútsloppinn minkur. Hann er versta tegund af mink vegna græðgi, þó svo hann jafni sig, þegar hann fer að liggja úti um lengri tíma.

Einhvern tíma heyrði ég talað um það á árunum, þegar verið var með frv. hér á þingi, að þetta ættu að vera steinsteypt búr alveg í hólf og gólf. Ég sé nú ekki að í þessu frv. sé um það getið. Hitt er annað mál. að það er talað um steyptan ramma og dýrhelda yfirgirðingu úr traustu, viðurkenndu efni, svoleiðis að þarna hefur nú töluvert dregið úr örygginu frá því, sem maður hélt, að ætti við að hafa. Í sambandi við þau ósköp, sem yfir okkur hafa gengið vegna ásóknar villiminksins víðast hvar um land, hafa íslenzkir náttúrufræðingar, náttúrudýrkendur og náttúruverndarráðsmenn allir orðið á einu máli um það, að hér ætti að beita hinni mestu varfærni og áráttulaus íhugun ætti að eiga sér stað um málið. Það er óþarfi að rekja ummæli þessara manna. Við höfum lesið bæði fyrr og síðar þessar umsagnir, og fer ég ekki nánar út í þær. En það, sem vekur einnig eftirtekt og ekki sízt í grg., er, að það er töluverður áróður í henni, og hv. frsm. meiri hl. tók upp úr henni einmitt töluvert áróðursbragð. Það er talað um batnandi efnahag í vestrænum heimi og hvað eina og að fólk sé farið að kaupa miklu meira en áður, bæði minkaskinn og pelsa o. s. frv. Að vísu vonum við, að um batnandi efnahag sé að ræða, en óvíst er þetta og ekki allt upp úr því að leggja. Svo er það eitt, að tízkan og tildrið í loðskinnum er hvort tveggja háð duttlungum markaðsins, sem eru svo og svo í hvert skipti, og engu verður slegið föstu um þann markað. Og svo kemur eitt enn, sem er einnig áróðursbragð og hv. frsm. gat um í framsöguræðu sinni og stendur í grg., að það verði ekki langt að bíða þess, að við getum framleitt loðskinn fyrir milljarð kr. Þetta þótti Morgunblaðinu, eða pilti, sem skrifar í það af og til heldur þykkt smurt og gerði að því góðlátlegt grín og hélt, að slíkt væri í órafjarlægð frá okkar tíma. Og ég segi nú bara, var það furða, að pilturinn fann til þess, það gera flestir. En því skal svo ekki neitað, að við getum fengið erlendan gjaldeyri út úr þessu, ef sæmilega heppnast, erlendan gjaldeyri að einhverju leyti, það má vel vera, það er fjarri mér að ætla, að svo gæti ekki orðið. En svona langt megum við ekki seilast í ákafanum að tala um milljarða kr. þegar í stað.

Svo vildi ég minnast á löggjöfina frá 1962 um innflutning búfjár. Í þeirri löggjöf er gert ráð fyrir því, að bannaður sé innflutningur búfjár, þ. á m. loðdýra. Þessum lögum verður þá að breyta. Í lögunum segir enn fremur, að sé leyfður innflutningur, verði að fara svo og svo með hið innflutta dýr og hafa það úti í eyju og láta það vera í vörzlu þar vikum saman o. s. frv. Við þessari löggjöf hreyfir alls ekki þetta frv., þannig að fari svo, að þetta frv. fari í gegnum báðar d. á þessu þingi, þá er að sjálfsögðu engin vissa fyrir því, hvort komizt verður í gegnum þann hreinsunareld, sem þessi lagaákvæði eru, þ. e. a. s. ákvæðin í l. um innflutning búfjár.

Efnahagsstofnun ríkisins segir í sinni áætlun, að hún telji vænlegt eftir þeim upplýsingum, sem fyrir liggja, að stofna til tilrauna um minkabú. Fyndist mér réttara, ef ekki fengist ráðrúm til frekari rannsóknar málsins eins og ég legg til, að hafa ákvæði til bráðab. í frv. á þá lund, að veita skuli aðeins leyfi til stofnunar og rekstrar ákveðins, takmarkaðs fjölda minkabúa í tilraunaskyni um ákveðið árabil og sjá þannig, hvernig gengur til með þennan rekstur. En vissulega verður reksturinn og hlýtur að verða, a. m. k. fyrsta kastið og fram eftir, óhjákvæmilega dýr og óvissa að ríkja, eins og ég hef áður sagt, um alla eða flestalla kostnaðarliði, svo ekki sé talað um hagfellda sölu á skinnum eða dýrum, ef við færum að selja þau. Það gæti kannske orðið sæmilegt, ég veit ekki um það, en búast má við áföllum fyrirséðum, eins og t. d. að minkar sleppi úr haldi. Það er ekki lítið áfall. ef einhver brögð yrðu að slíku. Eða ófyrirséðum áföllum af ýmsu tagi eins og sölutregðu og verðlækkun af og til kannske langvarandi. Síðan er alls óljóst, hvaðan og með hverjum hætti fjáröflun á að eiga sér stað í þessi minkabú. Þeir, sem gera tilraun í þessu skyni með eldi á minkum, hljóta að hafa sérlega góða fjárhagslega aðstöðu, hjá því fer ekki, aðstöðu, sem er óvíst, að sé rétt að leyfa til að koma slíku fram, meðan í öðrum atvinnugreinum og á mörgum sviðum út um allt þjóðfélagið skortir mjög tiltakanlega fjármagn, og vissulega þyrftu hinir sömu, ef til stofnunar kæmi á minkabúi, að hafa samband við hina færustu sérfræðinga erlendis og greiða þeim dýrum dómum.

Fáist ekki frestað málinu til aukinnar athugunar og í þá stefnu, sem minni hl. mþn. vill. þá mun ég, ef því skiptir, bera fram á síðara stigi eða fylgja till. um stofnun nokkurra tilraunabúa, til þess að þetta mál yrði ekki þannig afgr. út úr deildinni, að það væri almennt, heldur mjög takmarkað í horfi. Þegar nú alls þessa er gætt, sem ég hef nú lauslega drepið á, og ekki sýnist bráð þörf á að stofna til minkaeldis í landinu, eins og sakir standa, þá tel ég, að ekki verði hjá því komizt að álíta, að hér þurfi frekari rannsókna við, enda málið ekki svo lítið umdeilt. Því leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að frv. þessu verði vísað til ríkisstj.