12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1787 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

198. mál, loðdýrarækt

Frsm. minni bl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Það er ekki að furða, þó að þingstörfin komist smávegis í uppnám, þegar sá atburður hefur gerzt, að stjfrv. hefur verið fellt. (Gripið fram í: Er þetta nú rétt?) Ja, það var tilkynnt hér úr forsetastóli, og það verður að hafa það fyrir satt, sem forseti tilkynnir, er það ekki? (Forsrh.: Forsetinn hefur sagt rangt til.) Sagt rangt til. Hvað á hæstv. forsrh. við? (Gripið fram í.)

En að sjálfsögðu skiptir það ekki miklu máli, í hvaða röð ræðumenn koma og taka til máls um loðdýrarækt, en minkurinn hefur seinustu árin ekki verið jafnnærgöngull við nokkra stofnun eins og hið háa Alþ. Það hefur verið árvisst, að flutt hafi verið minkafrv. á hverju einasta ári, og umr. um það mál hafa verið fjarskalega einkennilegar að minni hyggju. Menn hafa talað um það af feiknalegum tilfinningahita, hvort sem þeir voru meðmæltir eða andvígir minkaeldi. Ég verð að segja það eins og er, að ég hef eiginlega ekki heyrt jafneinkennilegar ræður haldnar af nokkru tilefni eins og þessu. Sumir virðast telja, að þetta dýr sé eins og pokurinn, en aðrir eru þeirrar skoðunar, að þarna sé hvorki meira né minna en bjargvættur þjóðarbúsins; minkaeldi geti verið atvinnugrein, sem bjargi Íslendingum út úr þeim stórfellda vanda, sem við er að eiga. Ég held, að þessi sjónarmið séu bæði öfgafull. Það er í sjálfu sér matsatriði, hvort hér á að taka upp minkaeldi eða ekki. Og til þess að hægt sé að taka afstöðu til þess máls, þurfa menn að hafa tiltækar nægar röksemdir með og móti.

Röksemdirnar á móti eru algerlega ljósar, reynsla, sem við höfum þegar fengið af minkaeldi; bæði gekk það illa á sínum tíma og auk þess gerðist þá sá atburður, að minkar sluppu úr búrum og gerðu mikinn usla og óskemmtilega breytingu á náttúru Íslands. Þetta hefur verið landsmönnum mikið áhyggjuefni, og þetta verða menn að sjálfsögðu að hafa í huga. Náttúrufræðingar segja okkur, að enda þótt nú yrði tryggilegar gengið frá minkabúrum en verið hefur, sé það fullvíst, að minkar muni sleppa og að ný gerð minka muni valda nýjum usla vegna þess, að ræktaðir minkar hegði sér öðruvísi í náttúrunni en þeir minkar, sem eru orðnir hagvanir hér um langt skeið, og af því gæti hlotizt nýr vandi. Ýmsar aðrar hættur benda menn á, t. d. að minkar, sem nú eru fluttir inn frá útlöndum, gætu flutt hingað háskalega sjúkdóma. Við vitum það vel. að náttúra okkar hefur verið einangruð, og hér eru t. d. ekki ýmsir dýrasjúkdómar, sem eru í löndum umhverfis okkur. Ef slíkir sjúkdómar berast hingað, geta hlotizt af því alvarlegar afleiðingar. Í þessu sambandi hafa menn nú síðast bent á hundaæði, sem berst með minkum. Þessar staðreyndir allar ber mönnum að hafa í huga og meta eftir því, sem þeir telja, að gildi þeirra sé.

Svo kemur á móti hin röksemdin, að minkaeldi geti verið arðbær atvinnuvegur á Íslandi. Ef sú er raunin, að minkaeldi væri í raun og veru arðbær atvinnuvegur, þá getur það komið upp sem matsatriði, hvort ekki sé rétt að taka þann atvinnuveg upp á nýjan leik, jafnvel þótt verið sé að leiða vissar hættur yfir íslenzka náttúru. Við vitum það vel, að þannig er því háttað á ýmsum sviðum. Við hefjum ýmsa atvinnuvegi og atvinnuframkvæmdir, sem við vitum að spilla stundum dýrmætum þáttum í náttúru okkar. Við gerum það vegna þess, að arðurinn er talinn mikilvægari en skaðsemin. Slíkt er alltaf matsatriði. Til þess að fá hv. alþm. til þess að breyta þeirri afstöðu sinni, sem staðið hefur um mjög langt skeið, að standa gegn minkaeldi, verður að bera fram veigamiklar og fullgildar röksemdir fyrir því, að fjárhagslegur ábati af minkarækt sé svo mikill, að það svari kostnaði að leggja í þær hættur, sem augljóslega eru þessu samfara. Mér skildist, að sú n., sem skipuð var að tilhlutan hæstv. landbrh. í janúar í vetur, hafi einmitt átt að kanna gaumgæfilega þessa hlið málsins, færa að því öflug rök, að minkaeldi gæti orðið arðbær atvinnuvegur á Íslandi. En mér finnst, að meiri hl. þessarar n. hafi gersamlega mistekizt þetta ætlunarverk. Ég er algerlega sammála því, sem minni hl. segir, að meiri hl. hafi kastað hendi til þessa verkefnis, e. t. v. vegna þess, að sumir nm. hafi verið svo sannfærðir um ágæti minkaræktar fyrirfram, að þeir hafi ekki talið ástæðu til að kanna þetta mál betur.

Í þessu sambandi vil ég aðeins benda á þá grg., sem fylgir frv. Þar er mikið af almennum frásögnum um minkaeldi í öðrum löndum, en um Ísland er fjarskalega lítið sagt. Leitað hefur verið til Efnahagsstofnunarinnar um að gera áætlun um rekstur þúsund læða minkabús á Íslandi. En ef þetta plagg frá Efnahagsstofnuninni er til marks um venjuleg vinnubrögð þeirrar stofnunar, þá fæ ég ekki aukið álit á henni. Ég vil t. d. benda mönnum á það, að gert er ráð fyrir því í þessari áætlun, að greiðsla fyrir fiskúrgang til minkaeldis eigi að vera 1 kr. pr. kg. Nú hafa menn heyrt það hér um margra ára skeið, að einn af kostunum við minkaeldi eigi að vera sá, að þannig fáist mun hærra verð en hingað til fyrir fiskúrgang frá fiskvinnslustöðvum; þetta geti aðstoðað sjávarútveginn og gert verðmæta vöru, sem jafnvel spillist að öðrum kosti. En þetta verð, sem þarna er reiknað með, er sama verð, og greitt hefur verið fyrir lélegasta fiskúrgang til mjölvinnslu. Almennt verð á fiskúrgangi hefur verið miklum mun hærra. Samkv. upplýsingum, sem gefnar hafa verið um útflutningsverð á fiskúrgangi og sláturúrgangi frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, Sláturfélagi Suðurlands og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, kemur í ljós, að fiskúrgangur, afskurður af flökum, hefur verið seldur á 6.40 kr., ekki 1 kr. Bein, heilir hryggir eða möluð, hafa verið seld á 3.70 kr., og heill úrgangsfiskur hefur verið seldur á 5.30 kr. kg. Sláturúrgangur, lungu úr sauðfé og stórgripum, er ekki seldur á 5 kr. eins og talað er um í áætluninni. heldur á hvorki meira né minna en 18 kr. Annaðhvort verður að endurskoða þá kenningu, að frystihúsin hagnist svona mikið á því að selja úrgang til minkaeldis, ef þessi áætlun á að standa, eða ef verðið á að hækka til samræmis við það verð, sem tíðkast í raun og veru, þá verður ábatinn af minkabúinu þeim mun minni. Um þetta þarf að liggja fyrir algerlega raunsæ grg.

Þegar minkaeldi var hér á Íslandi hið fyrra sinni, misheppnaðist það vafalaust ekki sízt vegna þess, að menn ímynduðu sér, að hægt væri að fóðra þessi dýr á úrgangi og þyrfti sannarlega ekki að hirða mikið um matinn, sem í þau færi. Þetta er alger misskilningur. Minkaeldi er ákaflega vandasamt eins og annað dýraeldi, og mjög vel þarf að huga að því, að ætið sé slíkt, að það tryggi, að feldurinn verði sem fullkomnastur. Það nægir sannarlega ekki að kasta fyrir dýrin einhverjum úrgangi. Samt segir meiri hl. n. sem svo, að fiskúrgang væri hægt að láta beint í hakkavélina fyrir dýrin í einstökum búum. Nefndin gefur þannig í skyn, að það sé hægt að hafa þessa úreltu aðferð við að fóðra dýrin. Þetta er fráleitur misskilningur. Ég er alveg sannfærður um það, að ef taka á upp minkaeldi á Íslandi og haga því á nútímalegan hátt, verður ekki undan því komizt, að hér verði stofnuð sérstök verksmiðja til þess að framleiða minkafóður og til þess að tryggja, að í það hráefni, sem til er í landinu, verði blandað bæði steinefnum og bætiefnum og öðrum þeim efnum, sem nauðsynleg eru til þess, að dýrin skili þeim feldi, sem til er ætlazt. En ef slík verksmiðja verður stofnuð á Íslandi, þurfa menn að gera sér grein fyrir því, hver er stofnkostnaður við hana, hver reksturskostnaður verður og hvað fóðrið frá henni muni kosta. Áður en við vitum þetta höfum við ekki hugmynd um, hversu hagkvæmur þessi rekstur er. Þess vegna höfum við, minni hl. allshn., gert það að till. okkar, að þeirri könnun, sem hafin var í janúar og sem að okkar hyggju er alls ekki málefnalega lokið, verði haldið áfram. Við leggjum til að málið verði afgreitt með rökst. dagskrá í trausti þess, að framkvæmd verði frekari rannsókn á kostum og göllum minkaeldis á Íslandi.