12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (2095)

198. mál, loðdýrarækt

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það eru að sjálfsögðu nú eins og áður allskiptar skoðanir um það mál. sem hér er til umr. Hv. 6. þm. Reykv. rakti þetta mjög málefnalega, bæði þau rök, sem fram hafa komið gegn því að leyfa minkaeldið, og einnig þau rök, sem kynnu að vera fyrir, að það yrði leyft. Það, sem hér hefur komið fram gegn minkaeldi nú, er nákvæmlega það sama og áður hefur verið haldið fram, og er það aðalatriðið, að mér skilst, hjá þeim mönnum, sem mælt hafa gegn frv., að minkaeldi hafi verið leyft hér áður og þá mistekizt. Hv. 7. þm. Reykv. bætti við, þegar hann var að benda á þetta og sagði þá orðrétt: „Er það ekki nóg?“ Ég verð að segja, að ég tel þessi rök ákaflega léttvæg, og hvernig hefði yfirleitt farið fyrir íslenzku þjóðinni, hefði hún alltaf átt að hætta við hverja einustu atvinnugrein, sem í upphafi hafði mistekizt? Eða liggur það fyrir t. d. nú, að Íslendingar gefi frá sér hugmynd um að koma hér á niðursuðuiðnaði sjávarafurða til útflutnings? Við vitum öll, að það hafa verið gerðar með þetta tilraunir í mörg ár, og því miður hafa þær ekki borið þann árangur, sem menn í upphafi hafa ætlað. Ef það er svo, að einhver mistök í upphafi eigi að vera nægjanleg rök fyrir því, að ekki eigi að hugsa um þann atvinnurekstur meira, þá hygg ég, að við værum illa komnir og að framtíð okkar væri ekki vel borgið, ef sá hugsunarháttur á að vera ríkjandi hér á Alþ. Ég vil benda sérstaklega á þetta, á þessa iðngrein, sem á oft mjög erfitt uppdráttar. Við vitum ekki sjálfir nákvæmlega enn þá, við erum ekki komnir til botns í því, af hverju þetta stafar. Aðrar þjóðir geta gert þetta með árangri. Nágrannaþjóðir okkar, Norðmenn og fleiri, reka þennan iðnað með árangri og hafa gert um áratugi, en hjá okkur hefur þetta mistekizt, og ef ætti að dæma út frá þessu einu, þá ættu Íslendingar nú í dag bókstaflega að hætta að hugsa um þennan iðnað og jafnvel banna með l. Ég tel þetta því engin rök, það sem hefur verið bent á gegn frv., að þessi atvinnugrein hafi ekki borið árangur, þann árangur, sem til var ætlazt.

Ég vil einnig benda á það, sem mér er mjög kunnugt um, að fyrst þegar farið var að stunda þorskanetaveiðar hér á landi, það var í Vestmannaeyjum, þá mistókst sú tilraun gersamlega fyrstu 2 árin og var ekki reynd í 3–4 ár þar á eftir. Þá kom hingað erlendur aðili, norskur maður, sem hafði stundað þessar veiðar við Noreg, og benti þeim sjómönnum á, sem áhuga höfðu fyrir því, hvað að væri og gerði tilraun með þetta. Og ég segi það alveg óhikað, að þessar veiðar — þótt um það megi svo deila, hvort rétt sé að stunda þær eða ekki — hafa a. m. k. byggt upp það byggðarlag, Vestmannaeyjar, í þann bæ, sem það er í dag. Hefði átt, eftir fyrstu tilraun, að hætta við þetta og ekki hugsa um það meira, þá væri þar bókstaflega allt önnur aðstaða og það væri ekki sá bær, sem þar er nú, hefði það sjónarmið átt að ráða. Ég tel því, að það sé gersamlega út í hött og ekki nokkur rök fyrir því, að ekki eigi að leyfa minkaeldi hér á landi, og að sú tilraun, sem þá var gerð, — ég skal viðurkenna af mikilli vanþekkingu, alltof mikilli vanþekkingu og vankunnáttu um málið — hún eigi ekki að ráða úrslitum um það, hvort Alþ. nú í dag, 15 eða 20 árum síðar, vill láta þá aðila, sem áhuga hafa fyrir þessu, gera tilraun á ný eða ekki. Framfarir hér á landi yrðu að mínum dómi ekki miklar, ef þetta sjónarmið ætti alls staðar að vera ráðandi, eins og það virðist vera allsráðandi og nær einustu rökin hjá þeim, sem mæla gegn minkafrv.

Ég skal ekki fara út í það að staðhæfa, að þær áætlanir, sem hér liggja fyrir, séu með öllu réttar, ég tel mig ekki hafa næga þekkingu til að gera það. En það er annað, sem ég hef greinilega orðið var við og verulega hefur aukið trú mína á því, að þarna geti verið um arðvænlegan atvinnuveg að ræða, sem sé það, að eftir að frv. kom hér fram í haust um leyfi til minkaeldis í Vestmannaeyjum, þá hafa tveir erlendir aðilar, tveir danskir aðilar, sett sig í samband við bæjarstjórann í Vestmannaeyjum og mig einnig annar, með tilmælum um það, að ef þetta yrði leyft, ef Vestmannaeyingar fengju þessa heimild, þá óskuðu þeir eftir því að fá að leggja hlutafé í það fyrirtæki og útvega nægilegt fjármagn til að byggja það upp og sérfræðinga til þess að standa fyrir því. Ég tel, að þetta bendi mjög til þess, að þeir aðilar, sem þekkja þessi mál og hafa reynslu í þessu landi, hafi trú á því, að hér geti verið um arðvænlegt fyrirtæki að ræða. Þetta hefur mjög styrkt mig í þeirri trú, að það sé sjálfsagt að leyfa þeim aðilum, sem vilja eyða tíma og kannske einhverju fé til þess að rannsaka málið, að gera það, og ef þeir komast að þeirri niðurstöðu, að það sé skynsamlegt að leggja fjármuni í minkarækt, þá eigi þeir að hafa heimild til þess að gera það. Þeir eru þar fyrst og fremst að hætta sínum eigin fjármunum, þó hér hafi verið bent á það, að þetta gæti endað með því að koma undir styrkjakerfið. Ég veit ekki, í hvaða atvinnugrein við höfum nokkra tryggingu fyrir því, að hún geti ekki á einhverjum tíma við einhverjar aðstæður lent undir styrkjakerfinu. Ég er ekki að halda því fram, að þetta eigi þar að lenda, og ég hef, satt að segja, ekki trú á því, að þetta lendi þar. Ég hef það mikla trú á málinu, að ég álít, að ef þeim mönnum, sem þarna vilja fá aðstöðu til þess að skoða það, kanna það til hlítar eftir þeim upplýsingum, sem þeir geta aflað sér, sem hljóta að verða fyrst og fremst erlendis frá, ef þeim er leyft þetta og leyft að halda áfram að setja upp minkabú, ef þeir sjálfir telja það hagkvæmt, þá hef ég trú á, að við séum að fara inn á rétta braut.

Hv. 7. þm. Reykv. hafði hér margt um málið að segja. Við höfum heyrt flest af því áður. Ég tel, að þar hafi fá ný rök komið á móti því. Þessu hefur verið haldið fram áður og á það bent. Það hefur verið sjónarmið út af fyrir sig, sem auðvitað má deila um, hvort einhver hætta geti stafað af því, að minkar sleppi út í náttúruna og valdi þar tjóni, en ef þar er gætt þeirrar fyllstu varúðar, sem nú virðist vera gætt hjá þeim þjóðum, sem þessa atvinnugrein leyfa, t. d. í Danmörku og víðar, þá hygg ég, að sú hætta sé ekki nálægt því eins mikil og menn vilja vera láta. A. m. k. held ég, að Færeyingar óttist ekki um sitt fuglalíf, því að þar er risið upp stórt minkabú. Ég held, að þeir geri það ekki út í bláinn, hvorki fjárhagslega eða að þeir hafi ekki einnig haft friðunar- eða verndunarsjónarmið í huga gagnvart náttúru í Færeyjum. Þannig tel ég, að allt bendi til þess, að það væri mjög óhyggilegt af Alþ. að vilja ekki leyfa þeim aðilum, sem vilja fá að skoða málið og vilja fá að leggja fjármuni í það, ef þeir telja það fjárhagslega hagkvæmt, að það væri mjög óskynsamlegt að vilja ekki leyfa mönnum að gera það, því að þarna getur risið upp ný atvinnugrein, sem verulega getur bætt — kannske ekki beint atvinnu, því að það er vitað, að þetta er ekki mikið á atvinnusviðinu, það þarf ekki marga menn í kringum hvert bú — en þetta getur orðið til gjaldeyrisöflunar fyrir okkur og fiskiðnaðinum, að ég tel, í heild til nokkurs ávinnings.

Ég skal nú ekki tefja hér tíma þingsins með langri ræðu um þetta mál. Ég tel, að þetta liggi frá fyrri tímum nokkuð ljóst fyrir. Menn hafa á þessu ákveðnar skoðanir, bæði þeir, sem eru með því, og þeir, sem eru á móti því, en ég vil segja það, að í þeim ræðum, sem hér hafa verið fluttar gegn minkaeldi, hefur að mínum dómi ekkert nýtt komið fram. Það eru alveg nákvæmlega sömu rökin, sem beitt hefur verið áður og bent á og reynt að hræða þm. með því, að þetta hafi mistekizt hér áður. Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um það. Það er aðeins eitt, sem hefur komið nýtt inn, og það er þessi hætta með hundaæðið. Ég skal ekki dæma um það. En hvernig er þetta hjá Dönum og annars staðar? Hefur þetta valdið miklu tjóni eða miklum skaða? Ég verð að viðurkenna, að ég hef ekki um það neinar umsagnir, hef ekki fylgzt með því. En hins vegar hef ég bókstaflega ekki heyrt um það heldur. Og a. m. k. hvað Vestmannaeyjar áhrærir, þar sem hundahald er bannað, ekki einn einasti hundur til, þar ætti það a. m. k. ekki að valda tjóni að þessu leyti, svo að það væri óhætt að samþykkja frv. það, sem hér liggur fyrir, um það einangraða atriði, ef þetta yrði fellt.

Það liggur alveg ljóst fyrir og er rétt, sem hv. 7. þm. Reykv. benti á, að ef einhverjir aðilar mundu vilja í þetta ráðast, hlytu þeir auðvitað að verða að fá umsögn og aðstoð erlendra sérfræðinga til þess að koma þessu á fót. Að því leyti er það rétt, að það yrði kannske ekki mikil atvinnubót fyrir íslenzka aðila, því að ég tel, að það væri mjög óvarfærnislega að farið, ef svo yrði ekki með farið, að þeir sem vildu stofna minkabú, hlytu að leita til erlendra aðila um allar upplýsingar og beina aðstoð, ekki einasta við uppbyggingu búanna, heldur einnig við rekstur þeirra svona fyrstu árin, á meðan Íslendingar væru að kynna sér málið betur.

Ég vil ekki hafa um þetta fleiri orð, en eins og hefur réttilega verið bent á, að ég hygg, að nokkuð sé óvarlega reiknuð sú áætlun, þar sem rætt er um fiskverð, — eina krónu — sem gert er ráð fyrir, þá hygg ég, að það megi einnig benda á, að í tekjuhliðinni sé mjög varlega áætlað verð á skinnum. Ég hef hér fyrir mér úrklippu úr dönsku blaði, Ålborg Stiftamtstidende frá því í jan. 1969, þar sem gerð er grein fyrir uppboði á finnskum minkaskinnum. Meðalverð skinna af karldýrum var á því 138 danskar kr., og meðalverð á skinnum af kvendýrum var þá nokkru lægra. En ég hygg, að í áætluninni sé reiknað með l00 d. kr., þannig að það virðist vera, að á tekjuhliðinni sé einnig mjög varlega farið í þá áætlun.

Um að minkur sé tízkufyrirbæri, það ber mönnum svo langt frá því saman um. Þetta er það loðskinn, sem langsamlega bezt hefur haldið velli undanfarin ár og áratugi á skinnamörkuðum bæði austan hafs og vestan, og ég hef ekki fengið neinar ábendingar um það eða getað aflað mér upplýsinga um það, að það væru sérstaklega slæmar horfur eða breytt viðhorf um sölu minkaskinna eins og væri. Það má vel vera, að þarna verði sveiflur í markaði eins og gengur og gerist, en að nú í dag séu eitthvað sérstaklega breyttar horfur á skinnamörkuðum, þar sem minkaskinn eru seld, held ég að liggi ekki fyrir. Og það sem, eins og ég sagði, hefur sannfært mig um, að það beri að skoða þetta mál mjög gaumgæfilega og að ástæða sé til að ætla, að Íslendingar geti gert þetta með árangri, er einnig það, sem ég benti á, að hinir dönsku aðilar, sem til mín hafa leitað og bæjarstjórans í Vestmannaeyjum með fjárframlag og fjárútvegun í huga, þeir, sem þessi mál þekkja bezt og reka þetta í stórum stíl, þeir telja þetta arðvænlegt fyrirtæki.