12.05.1969
Neðri deild: 93. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (2098)

198. mál, loðdýrarækt

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Við höfum nú fengið að hlusta á langar rökræður, bæði með og móti þessu frv. til l. um loðdýrarækt, og ætla ég ekki að bæta miklu þar við, aðeins gera með örfáum orðum grein fyrir minni afstöðu. Hún er sú, að ég er stuðningsmaður þessa frv., bæði af því, að loðskinnaverzlun er ævaforn og ábatasöm atvinnugrein, eins og fram kemur í grg. frv. og engin ástæða til annars en hún geti orðið það einnig nú á okkar dögum. En í öðru lagi — og það er kannske aðalatriðið, — að minkurinn er þegar orðinn útbreiddur sem villidýr og ekki séð, að útrýming hans verði a. m. k. á næstu árum eða áratugum. En einmitt af þessari ástæðu verð ég að taka það fram, að ég er andvígur því, að minkarækt sé leyfð í Vestmannaeyjum, ekki vegna þess, að ég geti ekki unnt Vestmanneyingum að njóta arðsemi af minkarækt, heldur vegna þess, að eyjarnar eru fugla- og fiskaparadís, en ósnortnar af þessu vargdýri. Ég verð að láta þetta koma fram, af því að ég meina það.

Og ég skal líka geta þess, að enda þótt minkarækt verði leyfð, má í engu slaka á útrýmingu villiminksins. Þess vegna teldi ég það einnig koma mjög vel til athugunar að skattleggja minkabúin og verja því fé til frekari útrýmingar villiminksins. Ég tel, að í 6. gr. frv. sé allvel um hnútana búið. Þar er það landbrn., sem veitir leyfi til þess að stofnsetja loðdýrabú með ýmsum skilyrðum. Ég álít, að það ætti heldur að veita færri leyfi en fleiri, fara gætilega í sakirnar, a. m. k. fyrst í stað, búa vel um hnútana, en að því fullnægðu sé ég ekki annað en þetta geti orðið til þess að auka fjölbreytni atvinnulífs okkar. Hitt er svo annað mál, að áhætta í atvinnurekstri, þessum sem öðrum, verður aldrei umflúin.