11.11.1968
Neðri deild: 12. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í B-deild Alþingistíðinda. (21)

52. mál, ráðstafanir vegna nýs gengis

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Alþfl. hefur að rækilega athuguðu máli, og að undangengnum ýtarlegum umr., ákveðið að standa að þeim efnahagsráðstöfunum, er gengisbreytingin, er nú hefur verið tilkynnt, er einn meginþáttur í.

Alþfl. er ljóst, að hér er um mikilvæga ákvörðun og erfiðar aðgerðir að ræða. En hann hefur ákveðið að standa að þessum ráðstöfunum, vegna þess að hann hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þær ráðstafanir, sem nú verða gerðar, séu vænlegasta leiðin til þess að halda uppi sem mestri atvinnu. En það hefur ávallt verið meginþáttur í stefnu Alþfl., að allar vinnufúsar hendur hafi verk að vinna. Atvinnuöryggið hefur verið, og er nú, í beinni hættu, vegna aflabrests og verðfalls erlendis. Það er gegn atvinnuleysisvofunni, sem þessum ráðstöfunum er beint fyrst og fremst. En jafnframt hefur Alþfl. lagt og mun áfram leggja sérstaka áherzlu á það, að ráðstafanir verði gerðar, er taki tillit til hagsmuna láglaunafólks og bótaþega almannatrygginganna. Þetta hefur verið annar meginþáttur í stefnu Alþfl. Flokkurinn gerir sér ljóst, að erfiðir tímar eru framundan fyrir íslenzka þjóð, en hann telur það skyldu sína að skorast nú ekki undan ábyrgð og standa að þeim ráðstöfunum, sem hann trúir, að séu öllum almenningi fyrir beztu, þegar til lengdar lætur. Enginn vafi á að vera á því, að í kjölfar þessara ráðstafana færist nýtt líf í sjávarútveg og iðnað. Það á að geta leitt til aukningar þjóðarteknanna á ný, og þá um leið til lífskjarabóta, þegar erfiðleikaskeiði er lokið og efnahagslífið hefur lagað sig að breyttum aðstæðum. Á það vil ég þó leggja sérstaka áherzlu, að gengisbreytingin ein er ekki nein allra meina bót. Hún er aðeins grundvöllur, nauðsynlegur grundvöllur alhliða uppbyggingar atvinnulífsins og aukinnar reksturshagkvæmni á öllum sviðum, ásamt því, að hún á að skapa skilyrði til hallaleysis í greiðsluviðskiptunum við útlönd, þannig að þjóðin geti á ný eignazt gjaldeyrisvarasjóð. Sporin, sem við stígum í dag, eru aðeins fyrstu sporin á langri braut, braut, sem án efa verður erfið, mjög erfið í fyrstu, en ég er sannfærður um, að ef við göngum nógu hiklaust og nógu öruggir fram á við, ef við kunnum fótum okkar forráð á erfiðri göngu, muni hún leiða þjóðina á ný til góðs gengis og hagsældar. Í þá átt eigum við að halda.