05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1809 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Flm. (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Hér er um örlitla breytingu að ræða á l. um Húsnæðismálastofnun ríkisins, að því er varðar útlán. Ég vil geta þess til skýringar, að enda þótt hér séu sömu flm. og fluttu það frv., sem áðan var mælt fyrir, þá eru hér mjög ólíkir þættir húsnæðismálalöggjafarinnar á ferðinni, annars vegar nýmæli til að afla fjár, eins og hv. 4. þm. Sunnl. var að enda við að gera grein fyrir, og hins vegar hér örlítil breyting á útlánareglum stofnunarinnar, sem okkur fannst engan veginn passa saman að hafa í einu frv. Hér er um það að ræða í þessu máli, að með l. frá 1968 nr. 21 var húsnæðismálastjórn heimilað að veita lán, meðan á byggingartímanum stendur, til byggingarmeistara og byggingarfyrirtækja, er byggja íbúðir, sem fyrirhugað er að selja fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja útlánareglum húsnæðismálastjórnar, en þessi lán skiptast síðar milli væntanlegra íbúðarkaupenda. Þessi lagabreyting var gerð að frumkvæði hæstv. ríkisstj. fyrir um það bil ári síðan og átti að skapa fjárhagslegan grundvöll fyrir framleiðslu félagsmanna í félagi byggingarmeistara í Reykjavík á sem hagkvæmastan hátt og í samkeppni við önnur félagssamtök, þannig að öryggi framleiðendanna og íbúðarkaupenda verði sem bezt tryggt, svo að vitnað sé til orða hv. frsm. fyrir þessari brtt., þegar hún var rædd hér á hv. Alþ. fyrir einu ári síðan, eins og ég áðan sagði.

Það mun hafa komið fram þá enn fremur, að þessi brtt. var flutt til þess að koma til móts við óskir byggingarmeistaranna, en þeir töldu, að með lagasetningunni um framkvæmdaáætlunina í Breiðholti hefði hið opinbera gert þeirra hlut erfiðari en verið hefði, og það þótti sanngjarnt að koma þannig til móts við þá, og þetta var hér samþ., að ég held, samhljóða. Það hefur líka vafalaust verið full þörf á þessari ráðstöfun á sínum tíma til þess að ráða bót á fjármagnsskorti þessara byggingaraðila, en byggingarkostnaður hefur hækkað hér mjög á undanförnum verðþensluárum, eins og óþarfi er að endurtaka hér að þessu sinni.

Þegar þetta frv. var til meðferðar hér á sínum tíma, lét ég þau orð falla í umr. um málið, að ég teldi þetta horfa til bóta og ég treysti því, að byggingarsamvinnufélögin mundu verða talin byggingarfyrirtæki í þessu sambandi og þau mundu þess vegna njóta sams konar fyrirgreiðslu og aðrir þeir, sem byggja íbúðir til sölu fullgerðar. En eftir því, sem mér er tjáð, hefur framkvæmdin ekki orðið þannig, og byggingarsamvinnufélögin hafa setið við miklu lakara borð en aðrir aðilar, sem hér um ræðir. Það tel ég fullkomna óhæfu, og þess vegna er þetta frv. flutt til þess að tryggja það, að byggingarsamvinnufélögin njóti sams konar fyrirgreiðslu. Það er kunnara en svo, að rekja þurfi hér, að löggjöfin um byggingarsamvinnufélögin, sem var merkt nýmæli á sínum tíma, er lítið annað orðið en dauður bókstafur, þar sem forsendur þess, að þau geti keppt við samkeppnisaðila sína, vantar, þ. e. að fjármagn sé fyrir hendi, því að það er enginn aðili, sem telur sér skylt að kaupa þau ríkistryggðu skuldabréf, sem byggingarsamvinnufélögin eiga rétt á að selja, og þess vegna hafa þau vel flest lent í miklum fjárhagsörðugleikum. Því hefur margoft verið lofað af opinberri hálfu, að fram skyldi fara gagnger endurskoðun á lagafyrirmælum öllum, sem varða byggingarmálin, og í þessu sambandi vil ég rifja það upp með örfáum orðum, að í febrúarmánuði 1968 var frv. frá mér og hv. 3. þm. Norðurl. v. um nokkrar lagfæringar á málefnum byggingarsamvinnufélaganna vísað til hæstv. ríkisstj. til þess, að það gæti orðið samferða öðrum þáttum þessa máls í þeirri heildarendurskoðun, sem svo lengi hefur verið lofað. Og til þess að undirstrika það, að byggingarsamvinnufélögin skyldu tekin til endurskoðunar, þá sagði hæstv. félmrh. það í áðurnefndum umr. um það mál, sem ég er hér að gera að umtalsefni, að hann hefði þá nýverið — þetta var í apríl 1968 — skrifað þeirri n., sem endurskoðunina hefur með höndum — það mun vera Húsnæðismálastofnunin eða stjórn hennar eða einhverjir aðilar þar — bréf, þar sem það var undirstrikað að gefnu tilefni, að þessi marglofaða heildarendurskoðun skyldi ná til byggingarsamvinnufélaganna. Nú hafa verið gerðar fsp. hér í vetur um það, hvað þessari endurskoðun liði, og við því hefur aldrei fengizt neitt svar, og það mun mála sannast, að hún gangi ekkert. Það er því mjög óvíst, hvort nokkur telur sig vera að starfa að þessari endurskoðun. Síðast þegar spurt var um þetta fyrir s. l. áramót, voru einu svör hæstv. félmrh. þau, að það væri verið að athuga það, hvort ekki væri hægt að útvega nýtt fjármagn handa byggingarsjóði og annað ekki. En það er alls ekki það fyrst og fremst, sem þessi endurskoðun átti að lúta að, heldur hitt, að hún átti að athuga öll þau lagafyrirmæli, sem um þessi mál fjalla.

Meðan ekkert bólar á þessari endurskoðun hinnar þýðingarmiklu löggjafar um húsnæðismálin, teljum við flm. þessa frv. það algera lágmarkskröfu, að öll tvímæli séu tekin af um það, að byggingarsamvinnufélögin sitji við sama borð og aðrir, að því er varðar þá takmörkuðu fjárhagsaðstoð, sem hið opinbera lætur í té til húsbygginga. Þess vegna höfum við borið fram þetta frv., þar sem orðinu „byggingarsamvinnufélög“ er bætt við í upptalningu þeirra aðila, sem húsnæðismálastjórn er heimilt, meðan á byggingartíma stendur, að veita lán til, þ. e. þeirra aðila, sem byggja íbúðir, sem fyrirhugað er að selja fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja útlánareglum húsnæðismálastjórnar. Og ég satt að segja vænti þess, að hv. d. geri sitt til þess, að þetta frv. geti orðið að l. á þessu þingi, þótt það sé nokkuð seint fram borið,en ástæða þess er fyrst og fremst sú, sem ég áðan lýsti, að menn höfðu í lengstu lög vænzt þess, að byggingarsamvinnufélögin yrðu látin sitja við sama borð og aðrir í þessu efni, en nú er sýnt, að svo er ekki.