09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (2111)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég kem ekki hérna upp til þess að andmæla í einu né neinu þeirri ákvörðun heilbr.- og félmn. að mæla með samþykkt þessa frv. Ég hef verið spurður álits á því í stöðvum húsnæðismálastjórnar, hvort undir þessa gr., eins og hún er nú, flokkist ekki byggingarsamvinnufélög, og ég hef óhikað sagt, að það hafi verið skilningur minn allan þann tíma, sem það tók að koma þessu máli í gegnum þingið á sínum tíma, en ef einhverjar brigður eru á þetta bornar, þá tel ég eðlilegt, að hreinlega sé úr því skorið og vilji þingsins komi í því efni í ljós. En ég vil aðeins koma því hér á framfæri, að þetta hefur verið skilningur rn. og við höfum talið hægt að framkvæma þetta. En ég sé ekki annað en það sé til bóta að kveða skýrar á um þetta, ef einhverjir eru, sem kynnu að bera á það brigður.