13.05.1969
Neðri deild: 94. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1812 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

239. mál, Húsnæðismálastofnun ríkisins

Ingvar Gíslason:

Herra forseti. Mig langar aðeins að minnast á þetta frv., sem flutt var í Ed. af tveimur hv. þm., Einari Ágústssyni og Birni Fr. Björnssyni. Þetta frv. fékk mjög greiðan gang gegnum hv. Ed. og er nú hér til 1. umr. En eins og segir í grg., var húsnæðismálastjórn heimilað með 1. frá 27. apríl 1968 að veita lán, meðan á byggingartíma stendur, til byggingarmeistara og byggingarfyrirtækja, sem byggja íbúðir, sem fyrirhugað er að selja fullgerðar til einstaklinga, sem fullnægja útlánareglum húsnæðismálastjórnar, en þessi lán skyldu síðan skiptast milli væntanlegra íbúðakaupenda. En flm. benda á, að eðlilegt hefði verið, að byggingarsamvinnufélögin nytu þessa réttar einnig. Um það fjallar þetta frv.

Ég vænti þess, herra forseti, að þetta frv. gangi til n. Eðlilegast er, að það gangi til heilbr.- og félmn. eins og önnur frv., sem fjalla um málefni Húsnæðismálastofnunar, og jafnframt, að því verði vísað til 2. umr.