14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1844 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

Almennar stjórnmálaumræður

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Góðir hlustendur.

„Unz kyrrðin er allt í einu rofin: stjórnmálamennirnir eru farnir að öskra, það á að kjósa. Þetta óskemmtilega félag, sem ekki er hægt að losna við með neinum þekktum ráðum, en sú huggun ein, að vita það í fjarlægð, það hefur nú flutzt til okkar um stundarsakir. Ókvæðisorð þeirra og gagnkvæmar aðdróttanir um glæpi fylla þessa kyrrlátu orðvöru byggð.“

Þannig lýsir Halldór Laxness í Atómstöðinni þingmálafundi í dalnum fyrir norðan, undir hnúkafjöllunum, og mér hefur oft komið í hug, hvort fólki finnist ekki við vera að gera hliðstæðan óskunda með því að troða okkur inn á friðsæl heimili með aðstoð útvarpsins, a. m. k. þau heimili, sem ekki eiga þess kost að horfa á Dýrlinginn í staðinn. Samt er hér á Alþ. verið að fjalla um mál, sem ráða úrslitum um daglegt líf manna og stétta og sjálfa framtíð þessa einkennilega þjóðfélags við nyrztu höf. Stjórnmálin eru engin sérmál okkar, sem atvikin hafa skolað inn á þing. Þau eru ekki einvörðungu fólgin í starfsemi flokka og boðskap stjórnmálablaða. Þau eru sjálf hin hversdagslega lífsbarátta fólksins í landinu, vandamál heimilanna, örlög einstaklinganna. Ef við kunnum ekki að halda þannig á þeim málum, að orð okkar nái hlustum fólksins í landinu, erum við vissulega „óskemmtilegt félag“ í stofum manna. En þjóðin sjálf er engu betur á vegi stödd, ef hún hefur ekki raunverulegan áhuga og skilning á þjóðmálum, ef hún hefur ekki þrek og djörfung til þess að takast á við þau viðfangsefni, sem nú brenna á landsmönnum öllum.

Það eru stjórnmál, að Íslendingar hafa einir allra Evrópuþjóða lækkað gengi sitt sex sinnum eftir stríð, nú síðast tvívegis á einu ári, þar til verðmæti krónunnar er orðið að fimmeyringi. Þessi þróun er til marks um fjárhagslegt öngþveiti, sem leitt hefur til þess, að jafnt innlendir menn sem erlendir spyrja, hvort við höfum næga stjórnvizku og manndóm til þess að vera sjálfstætt þjóðríki.

Það eru stjórnmál, að eftir mesta velmegunartímabil sögu okkar erum við skuldugasta þjóðfélag í víðri veröld. Skuldabyrði okkar,er slík, að af hverri krónu, sem við öflum af gjaldeyrisverðmætum og flytjum út, verðum við að greiða 16 aura í vexti og afborganir af gamalli eyðslu. Heita má, að öll freðfiskframleiðslan fari í það í ár, eða ársafköst þúsunda verkamanna. Þegar viðreisnarstjórnin tók við fyrir 10 árum, kvað hún það vera eitt brýnasta verkefni sitt að létta greiðslubyrði þjóðarinnar, því að hún væri að nálgast 10% af gjaldeyristekjunum og 10% væru hámark þess, sem fullvalda þjóð gæti risið undir. En eftir þann áratug, þegar þjóðinni áskotnuðust í gjaldeyri nær 20 milljarðar kr. umfram það, sem orðið hefði í meðalárum er greiðslubyrðin komin upp í algert heimsmet, nær 16%.

Það eru stjórnmál, að í vetur var 7. til 8. hver félagi verkalýðssamtakanna atvinnulaus, og atvinnuleysið stendur enn þrátt fyrir einhverja gjöfulustu vertíð, sem um getur. Þetta atvinnuleysi hefur valdið neyðarástandi, og mönnum ber að hugleiða það af fullu raunsæi, að hér hefði verið hungur í vetur, ef ekki hefðu komið til atvinnuleysistryggingarnar, sem verkalýðssamtökin náðu með harðvítugri baráttu 1955. Tugum og aftur tugum millj. hefur verið varið til þess að halda lífi í fjölskyldum atvinnuleysingjanna, en þeir hafa ekki fengið að skapa verðmæti með vinnu sinni. Slíkt atvinnuleysi er í senn félagslegt afbrot og þjóðhagsleg sóun af versta tagi, því að maðurinn sjálfur er dýrmætasta eign hvers þjóðfélags, vinnuaflið arðbærasta auðlindin. Nú er augljóst, að atvinnuleysið mun magnast stórlega að nýju næstu vikur. Um 8000 nemendur úr framhaldsskólum eru að koma á vinnumarkað, og aðeins um það bil þriðjungur þeirra á vísa atvinnu. Þegar ég spurði hæstv. félmrh., Eggert G. Þorsteinsson, fyrir skömmu á þingi, hvað ríkisstj. ætlaði að gera til þess að tryggja skólafólki vinnu í sumar, svaraði hann því til að ríkisstj. hefði ekkert gert og ætlaði ekkert að gera annað en bæta skólafólkinu við það verkafólk, sem enn lifir á atvinnuleysisbótum.

Það eru stjórnmál, að verkalýðssamtök og atvinnurekendur hafa nú átt í samningaþófi í 3 mánuði og að mikið af þeim tíma hefur þjóðfélagið orðið að þola verkföll og verkbönn. Í þessum samningum er deilt um það eitt, hvort láglaunafólk á að halda óskertum kaupmætti tímakaupsins, sama fólk, sem orðið hefur að þola bótalaust stórfellda skerðingu á heildartekjum vegna atvinnuskorts og atvinnuleysis. Það er til marks um blygðunarlaust ofstæki valdamanna, að slíkt deiluefni skuli valda átökum mánuð eftir mánuð, því að í kjaramálum ætti sannarlega að takast á um önnur og stærri viðfangsefni. Fyrir áratug, í tíð vinstri stjórnarinnar, sem ekki hefur fengið allt of góð eftirmæli, var kaupgjald á Íslandi hliðstætt og í grannlöndum okkar. Þá var hér eftirspurn eftir vinnuafli, og hingað komu mörg hundruð Færeyinga til starfa í sjávarútvegi, vegna þess að atvinnuvegir okkar gátu greitt þeim kaup, sem þeir sóttust eftir. Síðan hafa þjóðartekjur okkar aukizt um hvorki meira né minna en þriðjung, en kaupgjald er nú u. þ. b. helmingi lægra en í Danmörku. Nú sækjumst við ekki eftir vinnuafli frá öðrum, heldur geta sænskir atvinnurekendur valið úr vinnuafli okkar, ef þá skortir starfsmenn í nokkrar vikur. En ef okkur skorti vinnuafl. mundi ekki einn einasti Færeyingur vera fáanlegur til starfa, vegna þess að hann hefur heima hjá sér allt að tvöfalt hærra kaup en íslenzku verkafólki er greitt. Þarna blasa við hin raunverulegu viðfangsefni í kjaramálum. Við verðum að tryggja, að þjóðartekjur okkar, einhverjar þær hæstu í heimi, komi til skila í kaupgjaldi verkafólks. Við verðum að tryggja, að við fylgjumst með í hinni almennu þróun í félagsmálum í nágrannalöndum okkar, með styttingu vinnuvikunnar, lengra orlofi og lífeyrissjóðum fyrir alla landsmenn. Verkalýðshreyfingin verður að taka upp miklu stærri markmið í baráttu sinni, og það er raunar ekki verkefni hennar einnar, heldur þjóðarinnar allrar. Því aðeins fær þetta þjóðfélag okkar staðizt til frambúðar, að það tryggi allri alþýðu hliðstæð lífskjör og tíðkast í nágrannalöndum okkar. Þjóðartekjurnar sanna, að sú stefna er framkvæmanleg, en til þess að framkvæma hana þarf stjórnmálabaráttu, sem breytir þjóðfélaginu.

Það eru stjórnmál, að yfir hundruðum fjölskyldna, yfir þúsundum manna, grúfir nú sú hætta að missa íbúðir sínar og aleigu, vegna þess að fólk stendur ekki undir þeim fjárhagslegu skuldbindingum, sem það tók á sig, meðan atvinna var næg. 1. maí s. l. féllu húsnæðismálastjórnarlán í gjalddaga, og mörg hundruð manna hafa ekki getað staðið í skilum, í Breiðholtshverfi einu á þriðja hundrað fjölskyldur. Ég spurði Eggert G. Þorsteinsson félmrh. fyrir fáum dögum, hvort hann ætlaði að horfa á það aðgerðarlaus, að fólkið, sem flutti inn í Breiðholtsíbúðirnar fyrir skömmu, yrði borið þaðan út aftur. Hæstv. ráðh. hét því, að til þess skyldi ekki koma, og því loforði verður ekki gleymt. En annað launafólk, sem á í hliðstæðum erfiðleikum, á heimtingu á sams konar fyrirgreiðslu.

Það eru stjórnmál, að á hundruðum alþýðuheimila sjá menn fram á, að vonirnar um framhaldsnám pilta og stúlkna eru að bresta. Með því er verið að breyta örlögum hinnar ungu kynslóðar, gera framhaldsnám að forréttindum efnamanna, svipta þjóðfélagið hæfileikum og atorku ungs fólks. En á sviði menntamála, sem eru grundvallaratriði í nútíma þjóðfélagi, blasir ekki aðeins við þessi ömurlega efnahagslega staðreynd, við sitjum nú uppi með úrelt skólakerfi, með troðfulla margsetna skóla, sem margir eru mjög illa búnir kennslutækjum, með háskóla, sem fyrst og fremst er embættismannaverksmiðja og auk þess að springa utan af verkefnum sínum. Á þessu sviði hefur forysta Gylfa Þ. Gíslasonar menntmrh. brugðizt gersamlega á undangengnum velmegunarárum, og þrekleysi hans er slíkt, að nú hefur hann fallizt á að láta stöðva menntaskólafrv. það, sem beztu skólamenn okkar höfðu samið og gaf vonir um nýja þróun þessara mikilvægu mála.

Það eru stjórnmál, að á velmegunarlandinu Íslandi eru ýmsir þættir heilbrigðismála afræktir svo, að til fullkominnar vansæmdar er. Þetta á sérstaklega við um geðsjúkdóma og kvensjúkdóma. Það er vægast sagt furðuleg staðreynd, að til þess skyldi þurfa langa og harða baráttu utan þings og innan að knýja Jóhann Hafstein heilbrigðismálaráðh. til að lofa því, að stækkun fæðingardeildar og kvensjúkdómadeildar við Landspítalann skyldi hraðað um 2 ár, frá því sem fyrirhugað var. Hins vegar létu allir þingmenn stjórnarflokkanna sig hafa það að fella till. um, að þegar í ár skyldi varið 20 millj. kr. til þessa óhjákvæmilega verkefnis. Það er staðreynd, sem okkur ber að minnast með blygðun, að dánartala af völdum legkrabba er þrefalt hærri hér en í Svíþjóð.

Það eru stjórnmál, að ellilaun, örorkubætur og mæðralaun eru hérlendis aðeins helmingur þess, sem greitt er í Danmörku, og að þær upphæðir eru ekki í neinu samræmi við þjóðartekjur Íslendinga. Þetta vandamál hefur magnazt stórlega að undanförnu, vegna þess að atvinnuskorturinn hefur bitnað sérstaklega á öldruðu fólki. Menn, sem komnir eru yfir sjötugt, fá ekki að vinna, þótt þeir hafi bæði starfsorku og starfsvilja, og eiga að una bótum, sem engan veginn nægja til lágmarksþarfa. Aðbúnaðurinn að öldruðu fólki og sjúku, að þeim sem standa höllum fæti í lífsbaráttunni, er mælikvarði á manngildishugsjónir samfélagsins, en því miður er okkar hlutur rýr í þeim samanburði.

Það eru stjórnmál, að hið sjálfstæða íslenzka lýðveldi situr enn uppi með erlent hernámslið og að ráðamenn þjóðfélagsins hafa ekki djörfung til þess að fylgja óháðri íslenzkri stefnu í alþjóðamálum. Það áhrifavald erlendra aðila, sem Íslendingar hafa þannig orðið að þola, birtist nú á æ fleiri sviðum. Erlend fyrirtæki hafa á undanförnum árum fengið að grafa undan fyrirtækjum okkar. Erlend auðfélög hafa fengið heimild til þess að hirða arðinn af orkulindum okkar, og nú er unnið að því að tengja Ísland stærri efnahagsheild, eins og það er orðað, án þess að nokkuð sé til þess gert, að atvinnuvegir okkar standist þau umskipti. Þetta atriði mætti vera mönnum sérstakt umhugsunarefni nú, vegna þess að eftir mánuð verður minnzt 25 ára afmælis hins endurreista lýðveldis og rifjuð upp sú heitstrenging að „aldrei framar Íslandsbyggð sé öðrum þjóðum háð.“

Allt eru þetta stjórnmál og hlustendur mínir geta rifjað upp margfalt fleiri atriði jafngild, og ég veit raunar, að um þessi atriði öll er hugsað og rætt og algengasta viðhorf til forystunnar í landsmálum um þessar mundir er óánægja, tortryggni og ótti. Því er raunar haldið fram, að óánægjan sé það atriði, sem einkennir mest þjóðmálaumræður á Íslandi nú, og í öllum stéttum og flokkum sé að finna óvissu og glundroða og viðhorf manna séu í deiglunni. Upp hafa meira að segja risið pólitískir ævintýramenn, sem virðast líta á kjósendur eins og síldartorfu og segjast ætla að tryggja sér mikinn afla með því að hagnýta sér óánægjuna og stofna einhver óskilgreind samtök, sem hvorki hafi stefnu né skipulag, heldur óánægjuna eina sem samnefnara.

Vissulega er óánægja mikilvæg pólitísk staðreynd. En óánægja ein saman er ekki afl, sem breytir þjóðfélaginu. óánægja er neikvætt viðhorf, því aðeins stoðar að vera óánægður með ákveðna lausn, að menn hafi komið auga á aðra betri og berjist fyrir henni. Menn sem hagnýta sér óánægju einvörðungu til þess að stunda ævintýramennsku, eru um leið að koma í veg fyrir, að almenningur átti sig á þeirri undirstöðustaðreynd, að það er meginstefnan, sem sker úr, ekki einstakir forystumenn, heldur málefni.

Þær andstæðu stefnur, sem mótað hafa og móta enn stjórnmálaátökin á Íslandi, eru annars vegar gróðahyggja og hins vegar félagshyggja. Fyrri kenningin er sú, að framtak einstaklingsins eigi að ráða þróun efnahagsmála og atvinnumála og hafa gróðann að mælistiku. Þennan áratug hefur verið reynt að stjórna þjóðfélaginu samkvæmt þessari kenningu og afleiðingin er það ástand, sem ég hef verið að lýsa, óstjórn og glundroði á flestum sviðum, þróun í atvinnumálum, sem gengur þvert á hagsmuni þjóðarheildarinnar. Það er þessi stefna, sem breytt hefur góðæri í illæri, ekki aðeins vegna þess, að tekjuskipting hafi orðið ranglátari í þjóðfélaginu, heldur fyrst og fremst vegna hins, að hér fer svo mikið í súginn, hér finnst engin atvinnugrein, sem rekin sé á nútímalegan hátt og skili þeim þjóðfélagslega arði, sem óhjákvæmilegur er. Slíkt stjórnleysisþjóðfélag fær aðeins staðizt skamma stund.

Svarið við skipbroti gróðahyggjunnar er félagshyggja, sú vitneskja, að við verðum að kunna að sameina krafta okkar, ef við eigum að vera nokkurs megnugir. Við erum örsmátt þjóðfélag, aðeins 200 þús. manna, og því aðeins fáum við staðizt í samskiptum við milljónaþjóðir, að við beitum aðferðum samvinnu og samhjálpar. Þetta vita Íslendingar fullvel. Allt það, sem gert hefur verið stórbrotnast og myndarlegast á Íslandi, eru afrek þeirrar félagshyggju, sem hafnað hefur verið síðustu 10 árin með hrapallegum afleiðingum. En í nútíma þjóðfélagi verður félagshyggju aðeins beitt með áætlunarbúskap, með heildarskipulagi atvinnuveganna, þar sem ríkisrekstur, einkarekstur og samvinnurekstur leggist á eitt til þess að tryggja þjóðarbúinu sem mestan árangur. Slíkur áætlunarbúskapur er eina leið okkar út úr þeim ógöngum, sem þjóðin er komin í, ef við ætlum að halda fjárhagslegu sjálfstæði, og jafnframt eina leiðin til að iðnvæða landið undir forystu Íslendinga sjálfra.

Það eru þessi átök milli gróðahyggju og félagshyggju, sem skera úr um framtíð og þróun hins íslenzka þjóðfélags. Núverandi ástandi verður aðeins breytt með því að breyta um stefnu; aðrar aðferðir eru ekki til. Kjölfesta hinnar félagslegu stefnu á Íslandi er alþýðusamtökin í víðtækasta skilningi, öll samtök launafólks, sem er nú yfir 70% þjóðarinnar. Verkalýðssamtökin voru stofnuð til þess að boða félagsleg viðhorf og sósíalisma í samræmi við íslenzkar aðstæður, og þau eru þvílíkt afl, að gegn þeim verður landinu ekki stjórnað. Það er fráleit þjóðfélagsleg sóun, að ár eftir ár skuli skammsýn og ofstækisfull stjórnvöld neyða verkalýðssamtökin til þess að heyja harða baráttu til varnar réttindum, sem ættu að vera sjálfgefin í þjóðfélagi okkar. Tilraun til þess að beita verkalýðshreyfinguna nýrri kúgunarlöggjöf, eins og hæstv. forsrh. boðaði áðan, mun aðeins leiða til enn harðari átaka og enn meiri ófarnaðar. Herkostnaðurinn af slíkri baráttu er margfalt meiri en það, sem um er deilt, og á meðan orku þjóðfélagsins er eytt í slík átök, heldur efnahagskerfið áfram að úrkynjast. Þessum hjaðningavígum verður ekki aðeins að linna, heldur verður í verki að viðurkenna þá staðreynd, að fram hjá verkalýðshreyfingunni verður ekki gengið, ef skynsamleg stjórn á að vera í landinu. Og verkalýðshreyfingin sjálf verður þá að vera reiðubúin til að taka á sig þá jákvæðu ábyrgð, sem valdinu fylgir.

Ástandið hérlendis er nú svo alvarlegt, að hverjum einasta þegni ber skylda til að hugleiða stjórnmál af fullri alvöru og taka þátt í þeim, hafna gömlum fordómum og úreltum viðhorfum, átta sig á þeirri staðreynd, að óljós óánægja hrekkur ekki til, heldur einvörðungu breytt stefna. Alþb. beitir sér fyrir slíkri stefnubreytingu. Við skírskotum til fólksins í Alþfl. að taka þátt í þeirri stjórnmálabaráttu og fylgja eftir þeim mótmælum gegn stefnu Gylfa Þ. Gíslasonar, sem borizt hafa frá samtökum Alþfl.-manna að undanförnu. Við skírskotum til samvinnuhreyfingarinnar að losa sig úr viðjum skriffinnsku og flokkspólitískrar þjónustu og hefja aftur til öndvegis þær hugsjónir, sem í öndverðu mótuðu samvinnusamtökin. Við skírskotum til þeirra atvinnurekenda, sem enn eiga eftir sjálfsvirðingu og metnað fyrir hönd hinna þjóðlegu atvinnuvega, að átta sig á því, að þeir geta aðeins tryggt sjálfstæðan atvinnurekstur á Íslandi með því að taka upp áætlunarbúskap og hafna þeim hagfræðikreddum, sem grafið hafa undan þjóðarbúskap landsmanna þennan áratug. Þetta eru þau þjóðfélagsöfl, sem tryggt geta stefnubreytingu á Íslandi, trausta atvinnuvegi og hliðstæð lífskjör og í grannlöndum okkar, samvinnu og jákvæða nýsköpun í stað þeirrar hnignunar og sundrungar, sem nú er að ríða þjóðfélagi okkar á slig.