14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1854 í B-deild Alþingistíðinda. (2132)

Almennar stjórnmálaumræður

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Á Alþingi því, sem nú er að ljúka, og í þessum eldhúsumr. hefur oftlega verið minnzt á þann efnahagsvanda, sem þjóðin á í og hefur átt við að glíma um skeið. Vinnudeilurnar á þessu ári og erfið samningsgerð launþega og vinnuveitenda nú blandast af skiljanlegum ástæðum inn í þessar umr. Á það hefur verið bent, að sambærilegir örðugleikar hafi ekki steðjað að íslenzku þjóðinni síðustu áratugina, enda um að ræða stærstu og sneggstu breytingu á útflutningsmagni, sem orðið hefur á þessari öld, en frá árinu 1966 og fram undir síðustu áramót hafa hreinar útflutningstekjur þjóðarinnar minnkað um tæp 50%. Þótt þessar staðreyndir liggi fyrir, eru þó til þeir stjórnmálamenn, sem hafa reynt að telja almenningi trú um, að slíkur skellur fyrir þjóðarbúið hefði ekki þurft að skilja eftir sig merki í kjörum þegnanna, aðeins ef þeir hefðu stjórnað. En hitt, hvernig og hvenær átti að bregðast við þessum vandámálum, var og er deilumál. og hefur hæstv. ríkisstj. sérstaklega verið gagnrýnd fyrir að grípa of seint í taumana, sjáandi fyrir þann vanda, sem var að skapast.

Í því er auðvitað mikill misskilningur fólginn að halda því fram, að engar gagnráðstafanir hafi verið gerðar. En hafa verður í huga, að ríkisstj. taldi, að erfiðleikarnir væru stundarfyrirbrigði, sem yrði skammvinnt. Þungar álögur á almenning væru ekki nauðsynlegar, sterkur gjaldeyrissjóður og góð afkoma ríkissjóðs ætti að geta staðið undir tímabundnum erfiðleikum. Þetta sjónarmið var ekki ríkisstj. einnar. Þannig voru samtök hraðfrystihúsanna svo bjartsýn á stöðugt og hækkandi verð í Bandaríkjunum í ársbyrjun 1966, að þau stóðu að samþykkt um mjög hækkað fiskverð frá árinu áður, þótt þau hefðu ekki treyst sér til þess á mestu velgengnisárum sínum. Útgerðarmenn, sjómenn, verksmiðjueigendur og allur almenningur taldi, að síldarmoksturinn út af Austurlandi væri árviss, og yfirleitt má segja, að almenn bjartsýni hafi ríkt um áramótin 1966–1967 um, að úr þessum erfiðleikum okkar mundi rætast á skömmum tíma. Þær bráðabirgðaráðstafanir, sem þá voru gerðar, fólu m. a. í sér mikinn tilflutning fjármuna til útflutningsatvinnuveganna. En verðfall afurðanna hélt áfram og stórlega dró úr síldartekjunum, auk þess sem allur kostnaður útgerðar, sérstaklega síldveiðiflotans, jókst stórkostlega vegna breyttrar göngu síldarinnar.

Þegar fram á haustið kom og síldarvertíð lauk, var ljóst, að enn þyrfti að grípa til nýrra aðgerða til að treysta útflutningsatvinnuvegina og halda þeim gangandi. Ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar höfðu ákveðið að forðast gengislækkun haustið 1967. En þegar gengi sterlingspundsins var fellt þetta sama haust, var ekki annarra kosta völ en fara þá leið einnig með íslenzku krónuna. Í sambandi við efnahagsaðgerðirnar haustið 1967 voru gerðar áætlanir um afkomu útflutningsatvinnuveganna fyrir árið 1968, og var m. a. stuðzt við framleiðsluspár, sem byggðar voru á áliti fiskifræðinga okkar um líklegan síldarafla. En til skamms tíma hefur sú skoðun verið uppi hjá þeim, að stofnarnir, sem síldveiðar okkar að norðan og austan hafa byggzt á, væru nægilega sterkir til að bera uppi ársveiði allt að 600 þús. tonnum. Ástæðan fyrir því, að gengisfellingin 1967 náði ekki tilgangi sínum var m. a. sú, að það er ekki styrkleiki stofnsins einn, sem ræður síldveiðunum, heldur er margt fleira, sem til greina kemur, enda brást síldaraflinn 1968 gersamlega, þótt allur útgerðarkostnaður stórhækkaði. Þessu til viðbótar kom mjög óhagstæð verðþróun á útflutningsafurðunum og þeir erfiðleikar, sem við áttum í í sambandi við sölu skreiðar til Bíafra. Þá var búizt við því, að verðfall ársins 1967 hefði náð hámarki þá um haustið og frekar yrði um hækkanir að ræða á flestum afurðum okkar. En þetta brást einnig. Verð á freðfiski á Bandaríkjamarkaði hélt áfram að lækka. Einnig var um mikla lækkun að ræða í sambandi við Rússlandssamningana í byrjun ársins 1968.

Það, sem hér hefur verið drepið á auk margra annarra atriða, olli gengislækkuninni s. l. haust. Með henni var einnig afskrifuð sú bjartsýni manna, að um tímabundna erfiðleika væri að ræða og því slegið föstu, að við þyrftum enn um nokkurt skeið að búa við þær aðstæður, sem skapazt hefðu á árinu 1968, auk þess sem aðgerða væri þörf til að tryggja útflutningsatvinnuvegina og þar með atvinnu fólks og heilbrigðan viðskiptajöfnuð. Þykir mér einnig rétt að draga þetta atriði sérstaklega fram vegna þeirra ummæla hv. þm. Magnúsar Kjartanssonar hér í kvöld um nauðsyn þess, að atvinnurekendur, þjóðlegir atvinnurekendur taki upp áætlunarbúskap.

Um leið og ákvörðunin um gengislækkunina var tekin, ákváðu stjórnarflokkarnir að axla þá byrði, sem henni fylgdi, en hlaupa ekki frá vandanum, enda engin samstaða meðal margklofinnar stjórnarandstöðu né vilji til þess að horfast í augu við mesta vandamál íslenzku þjóðarinnar á síðustu áratugum. Í kjölfar gengislækkunarinnar voru gerðar ýmsar hliðarráðstafanir, og meðal þeirra voru ákvæði í l. um breyt. á samningsbundnum hlutaskiptum sjómanna. Bæði Sjómannasamband Íslands og samtök yfirmanna mótmæltu þessari ákvörðun, og óskaði Sjómannasambandið, sem var með samninga sína bundna, eftir því, að ákvæði væru sett í lög þess efnis, að kjarasamningum milli útvegsmanna og sjómanna, sem samkvæmt ákvæðum þeirra var ætlað að gilda til ársloka 1969, væri heimilt að segja upp án fyrirvara eftir gildistöku l. Varð Alþ. við þessari ósk, en samtök yfirmanna höfðu þegar fyrir gengislækkunina tekið ákvörðun um uppsögn sinna samninga. Í umr., sem urðu hér á hæstv. Alþ. um mál þetta, sagði ég m: a.; með leyfi hæstv. forseta: „Það, sem vekur athygli mína annars vegar í þeim umr., sem ég hef átt við sjómenn, og hins vegar á ræðum sumra hv. stjórnarandstæðinga hér á Alþ., er, að þótt báðir þessir aðilar séu á móti 1. kafla frv., sem fjallar um skerðingu hlutaskipta, þá viðurkenna sjómenn, með fáum undantekningum, þann mikla efnahagsvanda, sem við stöndum frammi fyrir, en hv. stjórnarandstæðingar vilja helzt láta í það skína, að við hann verði ráðið með stöðvun tertubotnainnflutnings og fleiri sambærilegum aðgerðum og máske, eins og sumir hafa tæpt á, smávægilegri gengislækkun einhvern tíma í ókominni framtíð, þegar efnahagsráðstöfun eins og stöðvun þessa innflutnings hefur náð tilgangi sínum, og haft sín áhrif á gang efnahagsmálanna.“

Maður skyldi þó ætla, að skilningur sjómannsins á þessum vandamálum ætti ekki að vera meiri en þeirra stjórnmálamanna, sem fengið hafa allar upplýsingar um stöðu, horfur og áætlanir í þessum málum, ekki síður en ríkisstj. sjálf og stuðningsflokkar hennar. En af hverju skyldi skilningur sjómannsins vera skilningi þessara manna svo miklu fremri? Skyldi sú þekking ekki vera fengin með biturri reynslu þeirra, sem fyrstir urðu fyrir áföllunum? Sjómenn hafa misst á tveimur árum allt að helming launatekna sinna, meðan stórar stéttir, launþegahópar sem aðrir, hafa haldið öllu sínu, og þá kannske ekki sízt þeir, sem á sínum tíma náðu fram launahækkunum á grundvelli mikilla tímabundinna tekna síldveiðisjómanna. Ég geri ráð fyrir, að svo sé. Á hinu var tæplega von, að sú vitneskja lægi fyrir öllum þorra íslenzkra fiskimanna, að með þessari nýju gengisskráningu og að óbreyttum hlutaskiptum, hefði kjarabót sjómanna orðið svo mikil. að engin von var þess, að aðrir launþegahópar mundu una slíkri mismunun auk þess, sem gengisfellingin hefði þá orðið að vera miklu stórkostlegri, ef hún hefði átt að ná tilgangi sínum og skapa útgerðinni eðlilegan rekstrargrundvöll. Hafandi þetta í huga og einnig það, að stór hluti þeirra sjómanna, sem við þessi lög áttu að búa, var enn fjarverandi á fjarlægum miðum, þá er ekki nema eðlilegt, að sum stéttarfélög sjómanna yrðu síðbúin með kröfur sínar, eða ekki fyrr en um miðjan janúarmánuð. Önnur voru bráðlátari, og höfðu sum yfirmannafélögin þegar boðað verkföll á þeim tíma. Mörgum þótti ærinn sá tími, sem til samninga fór, og var ekki að ófyrirsynju með hið geigvænlega atvinnuleysi s. l. vetrar blasandi fyrir augum. Enginn vafi er á því, að samningar þeir, sem fulltrúar undirmanna gerðu, hafa m. a. mótazt af þeirri staðreynd, enda var áskilinn réttur af þeirra hendi til sameiginlegra samninga með öðrum aðildarfélögum Alþýðusambands Íslands varðandi kröfuna um vísitöluuppbætur á laun. Við þessa samninga vildu yfirmenn ekki una og felldu sáttatill. þá, sem fram var borin á grundvelli undirmannasamninganna. Fulltrúar yfirmanna lýstu því yfir, að málin stæðu þá eins og þegar samningaviðræður hófust. Með það í huga og að eðlileg vertíð átti að vera hafin, atvinnuleysi fyrir augum og efnahagsástandið í þjóðfélaginu, taldi ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar að við svo búið mætti ekki standa, heldur yrði að leysa þessa deilu, sem svo var gert með l. frá Alþ. stuttu síðar. Og það voru fleiri en stjórnarsinnar hér á Alþ., sem töldu, að slík lausn væri því miður tímabær, ekki aðeins stærri stjórnarandstöðuflokkurinn sat hjá við atkvgr. um þetta mál. heldur einnig sjálfur forseti Alþýðusambands Íslands, hann var sama sinnis.

Í sambandi við þetta mál langar mig aðeins að minnast á nokkur atriði, sem fram hafa komið hjá hv. ræðumönnum hér í kvöld. Ég vil sérstaklega draga fram þau orð hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar um það, að með þeim breyt., sem gerðar voru á l. um Aflatryggingasjóð, hafi meiri hl. hér á Alþ. verið að hafa af sjómönnum á fiskibátum stóra hluti í sambandi við fæðisgreiðslurnar. Ég vil leyfa mér að benda þessum hv. þm. og öðrum á það, að það voru sjómannafélögin, sem sömdu fyrir þá sjómenn, sem eru lögskráðir á skip, um þetta atriði. Þetta atriði í lagafrv. er staðfesting á þessari samningsgerð. Þeir þurftu að standa í nær mánaðarverkfalli til þess að ná þessu atriði fram, og það verður líka að hafa það í huga, að krafa þeirra í þessu sambandi var byggð á því, að menn á stærri skipunum búa í flestum tilfellum við tvöfaldan fæðiskostnað, en þeir hinir, sem koma daglega að landi á hinum minni bátum, sem ekki er lögskráð á, þeir geta notið þess að borða heima hjá sér. Einnig ber að hafa það í huga, að þeir hinir sömu fengu hækkað fiskverð af þessum sökum, og má þá reyndar benda á það líka, að togarasjómenn, sem verða að gjalda til þessara hluta, fengu ekkert í sinn hlut.

Þá er einnig rétt í sambandi við sjávarútvegsmál að benda á þau orð hv. þm. formanns Framsfl., þegar hann talaði um, hversu togaraflotinn hefði gengið úr sér á hinum síðustu árum, sem ég skal mjög taka undir, en auðvitað bar honum um leið að geta um hina stórkostlegu aukningu fiskiskipastólsins, sem orðið hefur á s. l. árum. Hann hefði líka mátt minnast þess, að á stuttum valdaferli vinstri stjórnarinnar hrakaði og minnkaði togaraflotinn meira en í tíð núv. hæstv. ríkisstj., ef miðað er við þá tímalengd, sem þessar ríkisstj. sátu. Þessi hv. þm. minntist líka á það sem hinn mesta óskunda, að ráðh. í stjórnarstólunum sætu í stjórnum hinna og þessara sjóða og stofnana. Hann hafði ekki orð á því, hvort þeir stæðu sig illa í þessum störfum. Hann hafði heldur ekki orð á því, að forystumenn stjórnarandstöðunnar gera slíkt hið sama, um leið og þeir krefjast þess að njóta sama réttar og fríðinda og ráðh. hafa í dag. Ég vil í þessu sambandi draga það fram, að t. d. þessi hv. þm. situr í stjórn stærsta sjóðs, sem íslenzkir sjómenn eiga, lífeyrissjóðs togarasjómanna og undirmanna á farskipum, án þess, þrátt fyrir þessa ábendingu, að ég dragi á nokkurn hátt úr því þýðingarmikla og góða starfi, sem hann hefur unnið þar, sem ég skal, hvenær sem er, viðurkenna að er.

Þá skal ég viðurkenna, að þær deilur og samningaviðræður, sem nú hafa staðið yfir á milli launþega og vinnuveitenda um 10 vikna skeið, eru nokkuð annars eðlis en þær deilur, sem áttu sér stað í byrjun þessa árs. Annars vegar er sú skoðun ríkisstj. og sérfræðinga hennar, að miðað við ástand og horfur í nóvembermánuði s. l. og að fenginni reynslu undanfarinna ára sé atvinnuvegunum ógerlegt að greiða vísitöluuppbætur á laun.

En hins vegar er einróma krafa verkalýðssamtakanna um óbreytta samninga frá síðustu gerð þeirra um þetta efni. Verkalýðshreyfingin var með þessum kröfum sínum aðeins að fara fram á að halda því samningsbundna óbreyttu, þótt hún eins og sjómenn hefði þegar orðið fyrir tilfinnanlegri kjaraskerðingu vegna styttingar vinnutímans og atvinnuleysis. Þótt oft sé vitnað til samþykkta síðasta Alþýðusambandsþings um óbreyttar vísitölugreiðslur á laun, þá ber að hafa í huga að það er ekki Alþýðusambandið eða landssambandið, sem þessa samninga gerir, heldur hin einstöku verkalýðsfélög. Ég held, að bæði með samþykkt síðasta Alþýðusambandsþings og eins með tilboði því, sem samninganefnd verkalýðsfélaganna gerði fyrir nokkrum dögum, sé sýnd sú viðurkenning á staðreyndum, sem endanlega leiðir til samningsgerðar.

Í sambandi við þetta deilumál hafa furðulegir fuglar komið fram með þá kröfu, að ríkisstj., Alþ. og jafnvel forseti Íslands ljúki þessari deilu með löggjöf. Sumt fólk er því miður þannig, að það þykist vita lausn á öllum vandamálum, en veit takmarkað og skilur minna. Að vísu getur Alþ. sett löggjöf, sem bindur enda á slíka deilu, sem þó er ekki gert, nema þjóðarhagsmunir stærri eða minni séu í voða. En réttur þessara aðila til frjálsrar samningsgerðar er líka tryggður í íslenzkum lögum. Auk þess verður meiri hl. Alþ. að vera meðmæltur slíkri ákvörðun, en mér er ekki kunnugt um, að slíkt liggi fyrir enn þá, enda er sá skaði fyrir þjóðfélagið, sem þessi deila hefur valdið, í algeru lágmarki, enda meirihlutavilji fyrir því meðal samninganefndar verkalýðsfélaganna að bjarga vertíðinni frá frekari stöðvun en orðin var með sjómannaverkfallinu. Enda er enginn vafi á, að eftir slíka vertíð eru samningsmöguleikar.betri nú en þeir voru í marzbyrjun.

En í þessu sambandi finnst mér til hlýða að benda vinnuveitendum, sem nú eiga í samningum, á þá staðfestu hjá sjómönnum, sem kom fram gagnvart útgerðarmönnum í samningum þeirra varðandi lífeyrissjóð bátasjómanna. Deila má lengi um krónur, sem annan aðilann varða miklu, en hinn minna, einnig um það, hvort hlutdeild þeirrar krónutölu eigi að koma fyrr eða síðar til útborgunar. En um kröfur, sem fjalla um lífeyrissjóðsfyrirkomulag, tel ég mig þess umkominn að fullyrða, að órofa samstaða er um það fyrirkomulag, sem verkalýðshreyfingin hefur óskað eftir. Og kemur þó til viðbótar sá skilningur þessara aðila, að viðurkennd fyrirtæki, sem þegar hafa lífeyrissjóði fyrir starfsfólk sitt, fái að halda því fyrirkomulagi áfram.

Ég minntist á það fyrr í ræðu minni, að í þeim áætlunum, sem gerðar voru í sambandi við gengisfellinguna í nóvember s. l., hefði bjartsýnin og vonin um skjótan bata á erfiðleikum okkar verið afskrifuð. En ég leyfi mér að spyrja: Er ástæða til annars en bjartsýni? Þrátt fyrir sjómannaverkfallið í byrjun ársins og ýmiss konar staðbundna erfiðleika, virðist sú vetrarvertíð, sem nú er að ljúka, ætla að verða ein hin gjöfulasta, sem við höfum þekkt. Afli, sem á land hefur komið, er betri en áður og meðferð einnig, einnig í frystihúsunum sjálfum. Og fyrir slíkan fisk er nú markaður með nokkuð stöðugu verðlagi og vaxandi eftirspurn. Ein aðalástæðan fyrir slæmri rekstrarafkomu frystihúsanna hefur verið ójöfn hráefnisöflun og slæm nýting húsa og véla. Nýsamþ. l. um betri nýtingu landhelginnar með aukinni notkun botnvörpu hafa þegar sannað gildi sitt fyrir Norðurlandi, en þar hefur mikill afli borizt á land síðustu vikurnar og verkafólk vart haft undan að nýta þann afla, sem á land hefur borizt. Hin stóru og glæsilegu skip okkar, sem flest voru byggð á sínum tíma til síldveiða, hafa mörg þegar sannað gildi sitt sem alhliða fiskiskip, sem nýta má jafnt til tog-, neta- og línuveiða sem síldveiða. Með þeirri uppbyggingu atvinnuveganna, sem nú á sér stað, vaxandi orkuöflun, aukningu iðnaðar til útflutnings og stóriðju sé ég enga ástæðu til að örvænta. Mesta vágesti íslenzkra heimila, atvinnuleysinu, verður að halda burtu, og með þeim aðferðum, sem nú er unnið að og fyrirhugaðar eru, tel ég, að það sé hægt. Við skulum keppa að því að ná samjöfnuði við hinar bezt stæðu þjóðir, en við skulum forðast óraunhæfan samanburð við kjör stétta hjá háþróuðum iðnaðarþjóðum með milljónir íbúa. Við skulum snúa bökum saman og sækja fram, þá mun íslenzku þjóðinni farnast vel á ókomnum árum. — Góða nótt.