14.05.1969
Sameinað þing: 51. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1866 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

Almennar stjórnmálaumræður

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Góðir Íslendingar. Flestum okkar mun í æsku hafa verið kennt, að það teldust ekki góðir nágrannar, sem gleddust yfir erfiðleikum okkar eða annarra í næsta nágrenni og yfirleitt yfir andstreymi nokkurs manns. Slíkt fólk var okkur ráðlagt að umgangast sem minnst. Við slíkan nágranna hefur núverandi ríkisstj. á síðari árum hins vegar orðið að sætta sig, þar sem hv. stjórnarandstæðingar eru. Ef einhver kynni að efast um, að hér væri rétt frá skýrt, þá bið ég þann hinn sama að fletta málgögnum hv. stjórnarandstæðinga og sjá sannleikann svart á hvítu með eigin augum. Íslendingum er í blóð borið að fagna aflafréttum öfundarlaust og án tillits til, hvar á landinu vel aflast, og munu aflafréttir vera meðal allra vinsælustu frétta. Mörg tilefni hafa sem betur fer verið til góðra aflafrétta á yfirstandandi vetrarvertíð. Þá bregður svo undarlega við, að stjórnarandstöðublöðin skenkja þessum fréttum aðeins nokkrar línur með lítt áberandi fyrirsögnum eða láta með öllu undir höfuð leggjast að skýra frá þessum góða afla frá hinum ýmsu verstöðvum í landinu. Ávallt verða einstaka staðir af þessum góða afla með þeim afleiðingum, að allir íbúar byggðarlagsins bera minna úr býtum og hluti þeirra missir hreinlega atvinnuna. Þetta eru alvarlegar og ískyggilegar fréttir, sem öllum réttsýnum mönnum hrýs hugur við. Þessar fréttir fá hins vegar algeran forgang í málgögnum hv. stjórnarandstæðinga með stærsta letri á útsíðum blaðanna. Meðan atvinnuleysið var mest og vertíð gat ekki hafizt vegna vinnudeilu, var ekkert rúm sparað í blöðum þessara aðila til að nefna stórar tölur atvinnuleysingja, á sama tíma og með öllum árum var að því róið að torvelda lausn deilunnar í ræðu og riti.

Sjálfur hef ég gengið atvinnulaus á árunum 1951 og 1952 og þekki af eigin raun þá erfiðleika, sem því fylgja. En ég leyfi mér að efast um, að skriffinnar stjórnarandstöðublaðanna þekki þennan vanda sjálfir. Þeir mundu þá ekki smjatta á honum í jafnríkum mæli. Þegar svo úr atvinnuleysi dró og happasæl vertíð hófst, fengu þau tíðindi ekki náð fyrir augum þeirra fóstbræðra, hv. 6. og hv. 4. þm. Reykv., Magnúsar Kjartanssonar og Þórarins Þórarinssonar. Allt það, sem til bóta gat horft, var reynt að fela, en með sama hætti var allt, sem miður fór, stækkað og margfaldað.

Nú spyrja menn e. t. v.: Við hverju bjóst maðurinn úr þessari átt og frá þessum aðilum? Átti hann á öðru von? Og er þetta ekki háttur óábyrgrar stjórnarandstöðu? Það er rétt, að á öðru var vart von, og ekki gat ég með neinum rökum gert svo háar kröfur til þessara aðila, að þeir sýndu ábyrgðartilfinningu. Það er ekki unnt að krefjast þess af mönnum, sem þeir eiga ekki og hafa e. t. v. aldrei átt og þekkja aðeins af afspurn. Mitt í þessari meðhöndlun frétta af íslenzkum atburðum tala þessir sömu menn um stuðning og eflingu þjóðlegra atvinnugreina og um andstöðu sína við erlent lánsfé til eflingar innlendum atvinnuvegum. Flokksbræður þeirra tala ekki svo orð á opinberum fundum, að þeir lýsi ekki með miklum fjálgleik, hvað miklu betra sé að lifa erlendis, hve miklu hærri laun séu greidd þar fyrir unna klukkustund o. s. frv. Þeir forðast að segja fólki allan sannleikann um sjálfan framfærslukostnaðinn í þessum löndum og frá þeim kröfum, sem við störf verkafólks og til verkafólks eru gerðar þar. Að hvaða marki er stefnt í hugarheimi þeirra manna, sem þannig tala og hugsa? Hugsandi fólk, sem af einlægni vill vinna Íslandi það, sem það á, og getur og vill búa í haginn fyrir næstu kynslóðir, sér í gegnum þann blekkingarvef, sem þannig er spunninn. Mennirnir, sem hafa þjóðernisstefnuna mest á vörum, vinna vísvitandi mest gegn henni af þeirri einföldu ástæðu, að þeir vilja ríkjandi ríkisstj. frá völdum án þess að bjóða þjóðinni upp á nokkra aðra stefnu en hatur sitt og fyrirlitningu á núv. stjórnarþm. Þessar ástæður geta þeir ekki dulið, og ég spyr: Getur slík stefna forðað okkur frá aflabresti og verðhruni á erlendum mörkuðum? Getur slík stefna eflt og byggt upp traust atvinnulíf á Íslandi, er skapi öllum vinnufúsum höndum nægjanleg verkefni þótt á móti blási um sinn? Er það í anda þjóðernislegra tilfinninga Íslendinga að hvetja menn til brottflutnings af landinu, af því að við eigum við tímabundna erfiðleika að etja. Hefur íslenzka þjóðin ekki áður verr undirbúin þurft að horfast í augu við tímabundna erfiðleika og sigrazt á þeim með þeim árangri, að hér býr þrátt fyrir allt 200 þús. manna þjóðfélag, er lifir mannsæmandi lífi efnalega og menningarlega séð, þótt í harðbýlu landi sé?

Allur málflutningur hv. stjórnarandstæðinga er mótaður af hatri og fyrirlitningu á ríkjandi valdhöfum, því að í því einu geta þeir sameinazt. Þeir svífast einskis á kostnað þjóðarheildarinnar til þess að koma því eina sameiginlega markmiði sínu í framkvæmd að koma ríkisstj. frá. Sjálfur hef ég á þingtíma mínum setið í liði stjórnarandstæðinga og skil það atriði vel að hafa löngun til að koma málum flokksins og sjálfs sín betur fram og jafnvel að fá ríkjandi ríkisstj. frá völdum. Það eru eðlileg viðbrögð stjórnarandstöðu, ef hið sama stjórnarandstöðulið hefur upp á aðra stefnu að bjóða þjóðinni, en því er ekki fyrir að fara hjá þessu liði. Meðan stjórnarandstaða hefur hins vegar ekki upp á neitt annað að bjóða en andstöðu við allt, sem gert er, og getur ekki sameinazt um neitt annað og berst á banaspjót innbyrðis um allar leiðir til úrlausnar aðsteðjandi vandamálum, þá getur hún ekki ætlazt til neins trausts frá neinum hugsandi manni. Þá er höfðað til annarra, sem minna hugsa.

Í vegi fyrir því, að svo geti orðið, eru flestir mannlegir brestir þessa liðs: úrtölur og bölsýni ásamt meðfylgjandi kjarkleysi til að horfast í augu við staðreyndir annars vegar og takmarkalaus löngun til valdaaðstöðu hins vegar án þess að geta sagt þjóðinni hið minnsta um, hvað þeir sjálfir ætlist fyrir, fái þeir völdin. Svo er verið að tala um unga fólkið, að það sé aðeins á móti öllu en viti ekki, hvað það vill. Ég gæti ímyndað mér, að unga fólkið vissi þó mun betur og þyrði umbúðalaust að segja það í alþjóðaráheyrn, sem ekki fæst með nokkru móti upp úr núv. hv. stjórnarandstæðingum.

Eitt aðalverkefni þessara sömu aðila undanfarnar vikur hefur svo verið að eyða nánast öllum tíma sameinaðs Alþingis í fyrirfram tilgangslausar fsp. um málefni, sem allir, er vildu, gátu fengið fullnægjandi svör við utan þingtíma. Með þessum hætti hefur þeim tekizt að tefja afgreiðslu margra bráðnauðsynlegra mála, sem þeir síðan deila á forseta Alþingis og ríkisstj. fyrir seinagang um afgreiðslu á. Má í þessu sambandi benda á sjúkrahúsmálin, sem þeir töldu sig hafa mikinn áhuga á, en töfðu vísvitandi fyrir, að á dagskrá þingsins kæmust. Það var svo ekki fyrr en hæstv. heilbrmrh. sjálfur óskaði eftir sérstökum kvöldfundi um þessi mál. að þau komust á dagskrá. Þegar málin voru svo rædd, voru af hálfu stjórnarandstæðinga haldnar óábyrgar framboðsræður til þingpallagesta, sem velflestir voru áhugakonur um þessi mál. Ræðumenn, sem fyrirfram vissu, að þeir sjálfir þurftu engin afskipti eða ábyrgð að hafa af fjáröflun eða framkvæmdum til þeirra hluta, sem þeir ræddu um, töluðu hreinar „stemnings-“ eða áróðursræður um viðkvæm og mikilvæg málefni, sem snerta heilsu og jafnvel líf margra sjúklinga. Er að furða, þó að almenningur fái ekki aukið álit á störfum Alþingis?

Fyrst var reynt að draga þor og kjark úr fólki með meira og minna fölsuðum fréttaflutningi um raunverulegt ástand tímabundinna erfiðleika í atvinnu- og efnahagsmálum og hvatt til brottflutnings fólks af landinu. Jafnvel hafísinn hefur orðið þeim tilefni til árása á ríkisstj. með tilheyrandi orðbragði og hávaða. Síðan er gerð tilraun til að spila á tilfinningar fólks um erfiðleika á að fullnægja öllum þörfum um nauðsynlega sjúkrahúsþjónustu jafnframt því sem því er yfir lýst, að hvergi megi taka peninga til þessara þarfa. Þeir eiga bara að koma einhvers staðar að. Er að furða, þótt að einstaka þm. hvarfli sú hugsun, hvar þeir séu eiginlega staddir? Allt er þetta af hálfu hv. stjórnarandstæðinga gert og sagt innan umgerðar þjóðernisástar og róttækni. Heilum fundardegi Sþ. var á dögunum fórnað fyrir forgöngu stjórnarandstæðinga til að kvarta og kveinka sér undan því, hve sjaldan þeir fengju að koma fram í hljóðvarpi og sjónvarpi með þeim eftirmála, sem blaðalesendur kannast við. Miðað við frammistöðu hv. stjórnarandstæðinga á þessum vettvangi að undanförnu, væri af núverandi stjórnarflokkum vart gerður meiri greiði en að lofa landsfólki öllu að heyra þá og sjá sem allra oftast. Þá væru framangreindar lýsingar mínar af raunverulegum vinnubrögðum þeirra hér á hv. Alþ. óþarfar. Ég spyr ykkur, góðir hlustendur, eru þetta menn, sem líklegir eru til forystu og lausnar í þjóðmálum?

Frá því er atvinnuleysistryggingasjóðurinn var stofnaður við lausn vinnudeilunnar miklu haustið 1955, hefur sem betur fer lítið reynt á þær reglur og lagaákvæði, sem í l. um sjóðinn voru sett, fyrr en á síðustu tveimur árum, er hinir mestu erfiðleikatímar steðjuðu að þjóðinni allri um afla og söluverðmæti hans. Afleiðing þessara erfiðleika var mikill samdráttur í atvinnu landsmanna með þeim afleiðingum, að mikill fjöldi manna varð atvinnulítill og allt of mikill fjöldi fólks hreinlega atvinnulaus. Þá fór verulega að reyna á umræddar reglur og lagaákvæði til bótagreiðslna úr sjóðnum. Við setningu l. um atvinnuleysistryggingar frá 1956 var því yfirlýst, að æskilegasta notkun þeirra fjármuna, er þar söfnuðust, væri, að hægt væri að nota þá til að koma í veg fyrir atvinnuleysi. Þrátt fyrir mjög góða viðleitni stjórnar sjóðsins á undanförnum árum til að beina lánveitingum sínum til fullnægingar þessum upphaflegu óskum við stofnun sjóðsins, þá hurfu áhrif hans eins og dögg fyrir sólu, þegar ólagið reið yfir. Af þessu má nokkuð ráða, hve erfiðleikarnir voru miklir, sem við var að etja. Það þarf því ekki djúpskyggna menn til að sjá það ástand, sem hér hefði ríkt nú, ef Atvinnuleysistryggingasjóður hefði ekki orðið til, 10 árum áður en þetta efnahagsólag reið yfir þjóðarbúið. Þessi sjóður er orðinn fjárhagslega öflugur á mælikvarða íslenzks þjóðfélags. En samt reyndist hann lítils megnugur, þegar á herti. En ég spyr: Hvernig hefði verið umhorfs án hans? Hér þarf ekki að eyða tíma til að draga þá mynd upp. Til þess er hún of ljós. Framkvæmd bótagreiðslnanna ásamt þeirri hækkun, sem ríkisstj. hét á s. l. ári að beita sér fyrir, hefur verið gagnrýnd á ótrúlegustu stöðum og talið, að þar hafi verið boðið upp á allt of háa atvinnuleysisstyrki miðað við gildandi laun. Þessir hækkuðu styrkir eru jafnvel taldir ganga svo langt, að ýmsir kjósi heldur að nálgast styrkinn, þótt þeim bjóðist atvinna og hafni henni þá vegna möguleika á of háum atvinnuleysisbótum. Að sjálfsögðu geta verið þverbrestir í framkvæmd þessara laga og reglna sem annarra í landinu. En bágt á ég með að trúa því, að nokkur maður í landinu sé svo heillum horfinn, að hann vilji heldur atvinnuleysisstyrk en atvinnu, ef hún er í boði, jafnmikill mismunur og þar er á um tekjur. Ég á a. m. k. ekki von á því, að ríkisstj. fái á sig ádeilur fyrir að hafa gengið of langt til móts við þá, sem við atvinnuleysi eiga að stríða.

Svo sem fyrr er frá greint, verða sjávarútvegsmál enn um langa framtíð að sjálfsögðu ofarlega á baugi, þegar rætt er um efnahags- og atvinnumál hér á landi. Af þessum ástæðum er ekki úr vegi að líta á löggjafaratriði þeirra mála á s. l. ári. Ef litið er á örfá atriði í þeirri löggjöf, sem sett hefur verið af Alþ. síðan Alþ. var slitið á s. l. vori, er fyrst að minnast brbl. og reglugerðar um ráðstafanir vegna flutninga saltaðrar og ísvarinnar síldar af fjarlægum miðum á s. l. sumri. Þar sem óhjákvæmilega verður að gera aftur á þessu vori svipaðar ráðstafanir og gerðar voru s. l. vor, þá er ekki úr vegi að líta á helztu atriði þessara aðgerða. Tekin voru á leigu tvö skip til flutninga á sjósaltaðri síld. Greiddur var flutningsstyrkur á sjósaltaða, ísvarða og kælda síld. Vegna þessara ráðstafana voru sjósaltaðar rúmlega 65 þús. tunnur og nam flutningsstyrkur á sjósaltaða síld rúmlega 8.5 millj. kr. Ísvarin og kæld síld, sem greiddur var flutningsstyrkur með, nam tæpum 35 þús. tunnum og greiddar rúmar 2 millj. kr. í slíkan flutningsstyrk. Þannig var flutningsstyrkur samkv. l. og reglugerðinni greiddur með samtals 100 þús. tunnum saltsíldar. Þegar litið er til þess, að saltaðar voru aðeins rúmlega 170 þús. tunnur í allt á s. l. sumri, er ljóst, að með þessu móti hefur miklum verðmætum verið bjargað auk þess, sem hinar umræddu ráðstafanir stórbættu aðstöðu okkar á mörkuðunum frá því, sem útlit var fyrir áður og hefði annars orðið. Ríkisvaldið gerði enn fremur margar aðrar ráðstafanir til að tryggja sókn á hin fjarlægu mið á s. l. ári. Var varðskip staðsett á fjarlægum miðum, en í því var látin í té ýmiss konar þjónustu, svo sem læknisþjónusta, viðgerðar- og varahlutaþjónusta o. fl. Enn fremur beitti ríkisstj. og stjórn Síldarverksmiðja ríkisins sér fyrir, að tekið var á leigu stórt tankskip til bræðslusíldarflutninga á s. l. sumri.

Eins og ég áður sagði, er óhjákvæmilegt, að ráðstafanir í svipaða átt verði gerðar á þessu vori, ef áhugi reynist á síldveiðum á svipuðum slóðum og í fyrrasumar. Kemur þar bæði til, að grundvöllur er fyrir rekstri síldarsöltunar á fjarlægum miðum og okkur er nauðsynlegt að framleiða saltsíld að sumri til til að komast hjá alvarlegri rýrnun markaða, okkar gömlu markaða. Skipuð hefur verið n. til að gera till. um hagnýtingu síldar og þjónustu við síldveiðiflotann á komandi sumri, og er álits hennar að vænta innan skamms tíma.

Svo að vikið sé að löggjöf í efnahagsmálum sérstaklega, má segja, að vaxandi erfiðleikar vegna aflabrests og verðfalls hafi leitt til þess, að þegar á árið 1968 leið, mátti heita, að nær allar greinar sjávarútvegsins nytu aðstoðar í meira eða minna mæli. Með þeirri ákvörðun stjórnvalda að breyta gengi krónunnar á s. l. hausti var stefnt að því að skapa sjávarútveginum eðlileg rekstrarskilyrði. Er þá í stórum dráttum miðað við aflamagn eins og það hefur verið á s. l. tveimur árum og verðlag afurðanna eins og það var eftir að gengisbreytingin var framkvæmd. Í kjölfar gengisbreytingarinnar voru samþ. lög á Alþ. um ráðstafanir í sjávarútvegi vegna gengisbreytingarinnar. Var þar um að ræða ráðstafanir, sem snertu ákvörðun nýs fiskverðs frá og með 15. nóv. s. l., um stofnfjársjóðsgjald, sem rennur til stofnfjársjóðs fiskiskipa, svo og kostnaðarhlutdeild fiskkaupenda í útgerðarkostnaði, en þau ákvæði ollu miklum deilum, svo sem kunnugt er. Enn fremur voru í 1. ákvæði um breytingu útflutningsgjalda og um ráðstöfun gengishagnaðar, en gengismismunur samkv. l. var áætlaður um 740 millj. kr.

Kjarasamningar útvegsmanna og sjómanna á bátaflotanum gengu úr gildi á s. l. áramótum. Samningar milli aðila um kaup og kjör náðust ekki, og voru boðuð verkföll á bátaflotanum, sem hófust 16.–18. jan. s. l. Sáttaumleitunum var linnulaust haldið áfram. Útvegsmenn annars vegar og hásetar, matsveinar og hluti vélstjóra á bátaflotanum hins vegar náðu samkomulagi á grundvelli sáttatill. sáttasemjara, en till. þessi var síðan lögfest á Alþ. sem kjarasamningur milli yfirmanna og útvegsmanna hinn 17. febrúar s. l. Þótt mörgum þætti þar hart að farið, þá efast nú enginn lengur um, að með þessum ráðstöfunum var vetrarvertíðinni bjargað.

Í framhaldi af 1. um lausn kjaradeilu útvegsmanna og yfirmanna á bátaflotanum var flutt frv. um breyt. á 1. um Aflatryggingasjóð sjávarútvegsins til staðfestingar samkomulags um greiðslu upp í fæðiskostnað skipverja á bátaflotanum. Frv. þetta verður væntanlega samþ. fyrir lok þessa þings. Samkv. frv. er gert ráð fyrir því, að við Aflatryggingasjóð skuli starfa sérstök deild, áhafnadeild, sem greiði hluta af fæðiskostnaði áhafnar á fiskibátum og verði árlegar tekjur deildarinnar 1% af fob-verði útfluttra sjávarafurða. Skal greiða úr deildinni kr. 100 á úthaldsdag og á áhafnarmann vegna áhafna á fiskibátum 151 brúttórúmlest að stærð og stærri, en 85 kr. á úthaldsdag á áhafnarmann vegna áhafna á fiskibátum undir 150 brúttórúmlestir.

Þar sem minnzt er á Aflatryggingasjóð, er ekki úr vegi að minnast mjög merks frv., sem væntanlega verður samþ. fyrir lok þessa þings, en það er frv. til l. um Verðjöfnunarsjóð fiskiðnaðarins. Hér er um að ræða hliðstæðan sjóð fyrir fiskiðnaðinn og Aflatryggingasjóður hefur verið fyrir útgerðina. Er sjóðurinn eins konar tryggingakerfi til að milda verðsveiflur afurða á erlendum mörkuðum. Ríkissjóður hefur margoft, sem kunnugt er, tekið á sig skuldbindingar til að tryggja ákveðið lágmarksverð við útflutning. Er sjóðnum ekki aðeins ætlað það hlutverk að taka áföllin af verðlækkun á afurðum, heldur einnig ætlunin að taka hluta af verðhækkunum, sem verða kynnu, og leggja í sjóðinn til mögru áranna. Með því móti mundi stuðlað að því að jafna óheppileg áhrif og verðsveiflur afurðanna og áhrif þeirra á hagkerfið, sem reynzt hefur okkur eitt hið alvarlegasta vandamál síðari tíma. Dregur sjóðurinn þannig úr þenslu á þenslutímum og úr kreppu á krepputímum.

Á s. l. hausti var skipuð eftir tilnefningu stjórnmálaflokkanna svonefnd landhelgismálanefnd. Starfaði sú nefnd mikið og vel í allan vetur, ferðaðist um landið og kynnti sér hug manna til landhelgismála eftir föngum. Eftir að till. þessarar n. lágu fyrir, var frv. lagt fyrir Alþ. til breytingar á l. um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu. Fól frv. í sér stórauknar heimildir til togveiða í landhelginni. Að vísu höfðu verið samþykkt fyrir áramótin lög, sem heimiluðu auknar togveiðar fyrir Norðurlandi og Suðurlandi til 30. apríl s. l., en þau lög voru aðeins bráðabirgðalausn í því skyni að gefa landhelgismálanefnd starfsfrið. Hinum nýju 1. er ætlað að gilda til ársloka 1971, og er það allra von, að þau reynist svo sem til hefur verið stofnað. Frv. þetta hefur nú hlotið endanlega afgreiðslu Alþingis, en með öllu hefði verið vonlaust að fá meiri hl. fyrir því fyrir nokkrum árum. Svona breytist afstaða manna til jafn viðkvæmra mála frá ári til árs.

Þá var nýlega samþ. á Alþ. frv. til l. um breyt. á 1. um rétt til fiskveiða í landhelgi, sem heimilaði sjútvmrh. að leyfa vinnslu- og verkunarstöðvum að kaupa afla af erlendum veiðiskipum í íslenzkum höfnum með nánari skilyrðum. Samkv. till. Hafrannsóknastofnunarinnar og Fiskifélags Íslands setti rn. á þessum vetri reglugerð um ráðstafanir til verndar íslenzku síldarstofnunum. Samkv. reglugerðinni er á árinu 1969 óheimilt að veiða meira en 50 þús. smál. síldar fyrir Suður- og Vesturlandi. Á tímabilinu frá 1. apríl til 1. september þessa árs eru síldveiðar þó bannaðar á þessu svæði. Lágmarksstærð síldar, sem leyfilegt er að veiða, er sem fyrr 25 cm.

Í framhaldi af þessu er ekki úr vegi að geta þess, að rn. hefur fyrir nokkru ákveðið að framkvæma kerfisbundna leit að loðnu fyrir Norðurlandi í sumar. Enn fremur hefur rn. nýverið samþykkt styrkveitingu til einstaklinga til veiðitilrauna með spærling. Má segja, að aldrei hafi verið varið meira fé til rannsóknarmála en á þessu ári. Sem dæmi má nefna, að til Hafrannsóknastofnunarinnar einnar eru ætlaðar rúmlega 45 millj. kr. á þessu ári. Í sambandi við það er ekki úr vegi að minnast þess, að fyrir skömmu voru undirritaðir samningar um smíði á hafrannsóknaskipinu Bjarna Sæmundssyni, sem á að geta komið í gagnið á árinu 1970.

Skuttogaranefnd hefur samþ. fullnaðarteikningar af fyrirkomulagi á skuttogara, rúmlega 800 rúml. að stærð. Verklýsing er tilbúin og því vonandi ekkert til fyrirstöðu að bjóða skipið út í þessum mánuði.

Á s. l. vori voru samþ. lög um nýja stofnun í sjávarútvegi, fiskimálaráð. Ráðið kom saman í fyrsta sinn í febr. s. l., og er þess að vænta, að það eigi eftir að láta til sín taka um sjávarútvegsmál, en samkv. 1. er því ætlað mjög víðtækt hlutverk í sjávarútvegi. Önnur ný stofnun var sett á fót í sjávarútvegi á þessu ári. Rn. tók þá ákvörðun að stofna til fiskiðnaðarnámskeiða í húsakynnum Rannsóknastofnunar sjávarútvegsins að Skúlagötu 4, er orðið gæti grundvöllur að fiskiðnskóla. Hefur verið ráðinn maður til að undirbúa námskeiðin og veita þeim forstöðu, svo og að semja starfs- og skipulagsáætlun fyrir þessi námskeið. Við skipulagningu þessara mála verður leitað til samtaka framleiðenda sjávarafurða og annarra stofnana sjávarútvegsins, eftir því sem við á og þörf er talin. Hér er á ferðinni mikið nauðsynjamál, og á þessi stofnun vonandi mikla framtíð fyrir sér hér á landi.

Svo sem ég hef margoft áður yfir lýst, verður afkoma íslenzks sjávarútvegs og þá um leið þjóðarinnar allrar enn um langan tíma háð aflamagni og verðsveiflum á erlendum mörkuðum. Þess vegna verðum við áfram að vera við því búin að taka afleiðingum af því að búa við jafnóstöðuga aðalatvinnugrein, bæði að magni og verðlagi.

Herra forseti. Ég hef víst þegar notað ræðutíma minn og rúmlega það. Ég vil aðeins að lokum bera fram þá ósk, sem ég vona, að við getum öll sameinazt um, en það er, að við stuðlum að því, að íslenzku þjóðinni takist nú sem fyrr að sigrast á tímabundnum erfiðleikum, sem við er að etja. Þá er unnið í anda Alþfl. — Góða nótt.