16.05.1969
Sameinað þing: 52. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1903 í B-deild Alþingistíðinda. (2143)

Almennar stjórnmálaumræður

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Tvö undanfarin ár hafa orðið íslenzkum þjóðarbúskap þung í skauti. Tekjur manna hafa stórlega dregizt saman, og atvinnuleysis hefur orðið vart til muna hin síðustu misseri. Höfuðástæðurnar eru öllum kunnar: Aflabrestur á síldveiðum, sölutregða, verðfall afurða og köld vor. Þessi atriði og mörg önnur hafa valdið því, að þjóðartekjur hafa rýrnað til mikilla muna, og minni verðmæti eru til skipta. Þetta hefur að sjálfsögðu orðið mörgum sár viðbrigði miðað við það góðærisskeið, sem á undan var gengið, þegar síldargróðinn flæddi yfir landið. Margir hafa talið, að þjóðin hafi farið mjög ógætilega með þau miklu verðmæti, sem þá streymdu inn í þjóðarbúið. Þar hafi mörgu verið sóað í óhófseyðslu og lítillar ráðdeildar gætt. Aðhald hafi og skort af hálfu stjórnarvalda. Þar hafi oft fremur gætt stjórnleysis en hæfilegrar stjórnfestu. Nokkuð kann að vera hæft í þessu, en þótt miklu hafi verið eytt, ber hins að minnast, að hin öra uppbygging hefur verið ævintýri líkust og jafnframt skapað og skilið eftir mörg varanleg verðmæti til frambúðar.

Störf Alþ. á liðnum vetri hafa að sjálfsögðu mótazt af andstreymi því og erfiðleikum, sem mætt hafa á þjóðarbúskapnum undanfarin ár. Yfir störfum þess hafa hvílt dökkir skuggar hinna torleystu verkefna efnahags- og atvinnulífsins. Sum hafa verið leyst, önnur bíða lausnar. Í hinu viðkvæma stórmáli um hagnýtingu fiskveiðilandhelginnar í þágu sjávarútvegsins náðist tímabundin lausn, byggð á víðtækri, allsherjar málamiðlun. Þar urðu margir að slaka til og slá af kröfum sínum. Fæstir munu hafa fengið óskir sínar uppfylltar, en allir viðurkenna, að þetta mál þoldi enga bið og varð að leysast á þessu þingi.

Vega- og samgöngumál eru einhver mikilvægustu hagsmunamál allra landsmanna. Við lokaafgreiðslu fjárlaga fyrir síðustu áramót voru að venju afgr. till. um framlög til flóabáta og vöruflutninga. Var í því efni mjög gengið til móts við óskir umsækjenda, og þótt reynt væri að stilla hækkunum í hóf, var fyrst og fremst við það miðað að halda uppi nauðsynlegri þjónustu í þágu félags- og athafnalífs í hinum dreifðu byggðarlögum. Vegal. frá 1963 marka alger tímamót í sögu vegamála á Íslandi. Samkv. ákvæðum þeirra hefur nú verið samin áætlun um vegaframkvæmdir fyrir árin 1969 til 1972. Meira fjármagni er nú veitt til vegamála en nokkru sinni fyrr. Árið 1958 var allt vegaféð rúmar 80 millj. kr. Samkv. 4 ára framkvæmdaáætlun þeirri, sem nú hefur verið gerð, eru tekjur vegasjóðs taldar nema um 2500 millj. kr. auk lánsheimilda. Á árunum 1965 til 1968 námu tekjur vegasjóðs 1487 millj. kr. Framkvæmdafé vegasjóðs nú verður því árlega 67% hærra en það var síðustu árin, miðað við endurskoðaða áætlun þess tímabils. Frá þeim tíma hefur vegagerðarvísitalan hækkað um 3.5%. Jafnhliða því, sem tekjur vegasjóðs eru nú stórlega auknar, hefur ríkissjóður tekið að sér að greiða vexti og afborganir, sem falla í gjalddaga á árunum 1970–1972, af lánum þeim, sem tekin hafa verið til landsbrauta og þjóðbrauta. Nemur sú fjárhæð 67 millj. kr. Auk þess losnar vegasjóður við að greiða sambærilegar greiðslur af lánum til hraðbrauta, en þær nema á árinu 1969 39 millj. kr. Óhjákvæmilegt þótti að afla vegasjóði aukinna tekna, og varð samkomulag milli allra flokka um að hækka benzínskatt um 1 kr. á hvern benzínlítra. Segja má, að benzínverð hafi verið nógu hátt, áður en þessi hækkun varð. Er því rétt að gera stuttan samanburð á benzínverði hér og í nágrannalöndum. Á Íslandi kostar lítrinn nú 11 kr., í Noregi 14.90 kr., Danmörku 14.65 kr., Svíþjóð allt að 15.50 kr., Þýzkalandi 13.45 kr. og í Englandi allt að.12.80 kr. Með þennan samanburð í huga var talið fært að hækka benzínskattinn, enda þótt bifreiðaeigendur hafi sannarlega ekki farið varhluta af auknum álögum og kostnaði undanfarið. Á hitt ber að líta, hversu risavaxið verkefni bíður vegasjóðs á komandi árum að byggja upp varanlegt samgöngukerfi um allt land, sem tengir saman þéttbýli og dreifbýli og þjónar hagsmunum fólksins í félags- og atvinnulífi. Með þeirri breytingu, sem gerð var á vegal. á þessu þingi, voru nokkrir vegakaflar teknir úr tölu landsbrauta og flokkaðir undir sýsluvegi. Er hér um að ræða hliðarvegi að kirkjustöðum, félagsheimilum o. fl., samkv. 12. gr. vegal., 1393 að tölu og um 223 km að lengd alls. Þótti rétt, miðað við eðli þessara vega og hins mikla fjölda þeirra, að flokka þá undir sýsluvegi. Til þess að rýra ekki fjárhagsgrundvöll sýsluvegasjóðanna af þessum sökum mun framlag ríkisins til þeirra verða aukið samkv. 28. gr. vegal. á næstu árum.

Á þessu ári verða þáttaskil í vegagerð, er hafizt verður handa um gerð hraðbrauta með varanlegu slitlagi. Þar koma fyrst til greina fjölförnustu vegirnir út frá höfuðstaðnum, og þarf engan að undra það, enda í fullu samræmi við uppbyggingu vegal., sem allsherjar samkomulag náðist um á þingi fyrir 6 árum. Jafnframt verður þó að sjálfsögðu að gæta þess, að samgöngukerfið um hinar dreifðu byggðir landsins sé aukið og endurbætt, svo hratt sem kostur er. Þó að vitnað sé í gömul þrekvirki í vegagerð, er það þó eigi að síður staðreynd, að aldrei hefur jafnmiklu fé verið veitt til vegaframkvæmda og nú, þrátt fyrir slæmar horfur í þjóðmálum.

Þegar harðnar í ári og tekjur minnka, er venjulega reynt að draga úr gjöldum, fresta framkvæmdum eða minnka þær. Þegar um opinbera aðila er að ræða, verður þó jafnan að fara varlega í slíkar ráðstafanir, því að eitt meginviðfangsefni sérhverrar ríkisstj. hlýtur að vera að reyna á allan hátt að halda uppi nægri atvinnu og fyrirbyggja atvinnuleysi. Að þessu marki hefur viðleitni stjórnvalda beinzt. Sem dæmi má nefna svar hæstv. fjmrh. við fsp. á Alþ. í fyrradag um lán og styrkveitingar úr atvinnubóta- og atvinnujöfnunarsjóði til einstakra kjördæma. Upplýsti ráðh., að heildarfjárhæð sú, sem veitt hefur verið í þessu skyni frá 1962 til síðustu áramóta, næmi rúmum 209 millj. kr., en auk þess voru veittar tæpar 25 millj. kr. til 8 hraðfrystihúsa um áramótin. Öllu þessu fé hefur verið varið til að styrkja og efla atvinnulíf landsbyggðarinnar á einn eða annan veg. Fullkunnugt er, að í þeim efnum hefur stjórn sjóðsins oft teygt sig út á yztu nöf til aðstoðar og bjargar málefnum byggðanna. Hitt er svo annað mál, að mjög víða er atvinnulífið svo einhæft, að ógerningur er að koma í veg fyrir tímabundið atvinnuleysi, er afli bregzt úr sjó. Að sjálfsögðu væri æskilegt að geta haldið uppi opinberum framkvæmdum af enn meiri þrótti en kostur er nú um sinn.

Rafvæðing strjálbýlisins er enn of skammt komin. Með því er ekki sagt, að vanmeta beri það, sem gert hefur verið og unnið er að á þessu sviði af stórhug og framsýni, heldur bent á þá staðreynd, að aðstöðumunur þeirra, sem fengið hafa rafmagn, og hinna, sem ekki njóta þess, er svo mikill, að ekki verður unað við til lengdar. Auk hinna stærri raforkuframkvæmda er nú unnið að því að rafvæða þær byggðir landsins, þar sem vegalengdir milli býla eru innan við 1½ km að meðaltali.

Hin köldu vor síðustu ára hafa farið hörðum höndum um íslenzkan landbúnað og valdið þungum búsifjum í ýmsum héruðum. Enn liggur ís við land í sumum sveitum í fjórðu viku sumars. Þetta árferði hefur einkum komið illa við þá bændur sem mikið hafa framkvæmt á jörðum sínum hin síðari ár og safnað lausaskuldum. Framkvæmdir allar og vélvæðing hafa krafizt mikils fjármagns í vaxandi dýrtíð. Nú hafa verið samþ. lög um breyt. á lausaskuldum bænda í föst lán að tilhlutan ríkisstj. Enginn skyldi ætla, að þau leysi allan vanda, en tilgangur þeirra er vissulega sá, að létta bændum róðurinn, enda hygg ég, að forystumenn bændasamtakanna hafi yfirleitt veríð sammála um, að slíkra aðgerða væri þörf á þessum tímum.

Þegar sjómannaverkfallinu lauk á liðnum vetri, dró alls staðar úr atvinnuleysi og víða hvarf það með öllu. Fargi var létt af öllum landsmönnum. Nú hafa enn staðið yfir erfiðar vinnudeilur og vona allir, að lausn þeirra sé ekki langt undan. En jafnvel þótt sættir verði og vinnufriður, kvíða ýmsir atvinnuleysi, ekki hvað sízt skólafólkið, sem nú flykkist á vinnumarkaðinn út í sólina og vorið að afloknum prófum. Vissulega getur hér orðið við vanda að stríða, en forsenda þess, að horfur batni í þeim efnum, er að sjálfsögðu sú, að friður takist á vinnumarkaði, svo að öll hjól atvinnulífsins geti snúizt af fullri orku og með eðlilegum hraða.

Stjórnarandstæðingar tala nú fjálglega um nýja stjórn, nýja stefnu, sem koma skuli og í vissum skilningi um nýtt land, því að engu er líkara en þeir hvetji til landflótta með sumum skrifum sínum og skrafi. Gegn þessu er full þörf að vera á varðbergi og halda vöku sinni. Land okkar er enn sem fyrr fagurt og frítt. Lengi var talið, að það væri næsta fátækt að veraldargæðum, hvorki málmar í jörðu, kol né olía, en við nánari athugun og rannsóknir á nútíma vísu kemur æ betur í ljós, hversu ríkt það er af dýrmætum auðlindum.

„Þetta land á ærinn auð, ef menn kunna að nota hann,“ svo sem Jón Ólafsson kvað. Það er verðugt heimkynni þeirrar æsku, sem á framtíðina fyrir sér. En til þess að njóta þess og lifa í sátt við það þarf manndóm og mennt, þor og þrautseigju. Einmitt vegna þess að Íslendingar hafa fæðzt inn í nýjan heim í sínu eigin landi á þessari öld, eftir þúsund ára kyrrstöðu, nýjan undraheim iðnvæðingar, tæknibyltingar og alþjóðasamskipta, verða þeir að leggja ríka áherzlu á geymd sögu sinnar og erfða. Lítum í annála liðinna alda, árbækur Espólíns og aðrar sögulegar heimildir, og óðar en varir verðum við agndofa og undrandi yfir öllum þeim torfærum, sem þjóðin hefur orðið að yfirstíga í aldanna rás. Að slíku er hollt að hyggja öðru hverju, þegar vindur stendur í fangið og gefur á bátinn. Fátt er líklegra til að örva kjarkinn, efla samhug og glæða trúna á landið og létta þjóðinni gönguna móti nýjum vegi. — Góða nótt.